Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Ráðstefnan, Power to the Peatland, stefndi saman fræðimönnum á fjölþættum sviðum votlendismála svo sem fagaðilar í vistfræði, loftslagsmálum sem og sérfræðingar stjórnsýslunnar. Aðkallandi að fagaðilar á öllum þeim sviðum er varða vernd og endurheimt taki höndum saman til að árangur náist í málaflokknum.
Yfir 500 þátttakendur mættu á ráðstefnuna sem byggði á annað hundrað fyrirlestrum, bæði yfirlitserindum og sérfræði fyrirlestrum, auk tæplega eitt hundrað veggspjöldum. Kynntar voru áhugaverðar og upplýsandi niðurstöður og gögn, m.a. hvað varðar líkanagerð, eðlisefnafræðilega áhrifaþætti, líffræðilega fjölbreytni sem og árangur endurheimtar við ólíkar aðstæður. Jafnframt voru málstofur með áherslu á stjórnsýslulega nálgun og stefnumótun til framtíðar, og náttúruvænan (e. nature-friendly) landbúnað/búskap.
Vinna Landgræðslunnar á undanförnum árum var kynnt á tveimur veggspjöldum sem kynntu eiginleika og ástand votlendis[1] sem og endurheimt[2] hér á landi. Fimm Landgræðsluliðar tóku þátt í ráðstefnunni, fjórir sóttu ráðstefnuna til Antwerpen og einn nýtti sér fjarfundaraðgang.
Mikil tækifæri í endurheimt og verndun votlendis á Íslandi
Þátttakendur á ráðstefnunni voru sammála um var að endurheimt er votlendis tekur tíma og er kostnaðarsöm. Hagkvæmast er að vernda óraskað votlendi. Þegar við berum saman ástand raskaðra mýra á Íslandi miðað við kollega okkar í Evrópu þá stóðu nokkur atriði upp úr:
- Búið er að umbreyta flestum mýrum í ræktað land í Evrópu. Mikið af okkar röskuðum mýrum hefur ekki verið breytt í ræktað land og því ódýrara og einfaldara að endurheimta miðað við í Evrópu. Verndargildi þeirra er því hærra.
- Við þurfum að læra af mistökum sem hafa verið gerð á meginlandinu. Verðum að efla verndun óraskaðra mýra á Íslandi.
- Fræðsla. Það virðist vera almennt meiri vitundarvakning og skilningur meðal landeigenda í Evrópu á mikilvægi á verndun og stöðvun á losuninni sem fylgir þegar mómiklar mýrar hafa verið ræstar Ljóst er að auka þarf fræðslu og skilning til almennings á Íslandi. Landbúnaður erlendis hefur t.d. aðlagað sig að ræktun í blautum mýrum og mikil nýsköpun hefur átt sér stað með nýtingu slíkra mýraafurða.
- Vinna þarf að stjórnsýslulegum stuðningi við þessa vegferð eigi hún að vera raunhæf og ná framsettum markmiðum stjórnvalda
Yfirlýsing ráðstefnunnar
Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við. Yfirlýsingin leggur áherslu á aðgerðir til að tryggja virkni og endurheimt. Bent er á að mýrar binda gífurlegt magn kolefnis og veita fjölbreytta vistkerfisþjónustu. Votlendi eru afar mikilvæg forsenda þess að við náum markmiðum þjóða hvað varðar loftslagsmál, heilbrigt ástand jarðvegs og vatns, líffræðilegan fjölbreytileika og þannig sjálfbæra tilveru okkar til framtíðar. Mikilvægt sé að allir taki saman höndum um vernd og endurheimt votlendis og þá vistkerfisþjónustu sem votlendi veitir okkur.
[1] Sunna Áskelsdóttir, Ágústa Helgadóttir, Gerður Stefánsdóttir & Vigdís Freyja Helmutsdóttir (2023). Icelandic peatlands – characteristics and conditions.
[2] Ágústa Helgadóttir, Sunna Áskelsdóttir & Ölvir Styrmisson (2023) Peatland restoration in Iceland – how to speed up establishment of peatland vegetation in disturbed areas following restoration?