land.is
Landgræðslan

Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu

Heim » Viðfangsefni » Sjálfbær landnýting » Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu

Sjálfbærnireglugerð

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnti haustið 2021  drög að reglugerð um leiðbeiningar og viðmið um sjálfbæra landnýtingu. Drögin voru unnin af Landgræðslunni fyrir ráðuneytið og lágu frammi á samráðsgátt stjórnvalda frá 24/09-11/11 2021. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja sjálfbæra landnýtingu í samræmi við markmið laga nr. 155/2018 um landgræðslu.

Reglugerðardrögin fjalla um landnýtingu er tengist umferð fólks og ökutækja, framkvæmdum, akuryrkju og beit. Ástæða er til að nefna að akuryrkjukaflinn byggir á faglegri vinnu FAO og reglugerðum sem gilda í Evrópusambandinu og tekur mið af lögum, reglugerðum og Starfsreglum um góða búskaparhætti sem þegar eru í gildi á Íslandi. Ástæða er til að taka fram  að kaflarnir sem fjalla um umferð fólks og ökutækja, framkvæmdir og akuryrkju eru settir fram til leiðbeiningar og skulu hafðir til hliðsjónar.

Beitarhluti reglugerðarinnar er ekki settur fram  til hliðsjónar, heldur skal  fylgja framsettum viðmiðum. Þessu getur fylgt talsverð breyting á landnýtingu og er því gert ráð fyrir aðlögunartíma að gildistöku þess hluta.

Vísindalegu aðferðafræðina sem liggur að baki beitarhlutanum má rekja allt aftur til áttunda áratugar síðustu aldar. Hún hefur verið í stöðugri þróun síðan og er í dag notuð víða um heim

Í reglugerðinni eru sett fram sjö meginreglur um sjálfbæra nýtingu lands en þær eru:

1. Að nýting taki mið af vistfræðilegu ástandi og getu lands.

2. Að stuðla að viðhaldi eða eflingu líffræðilegrar fjölbreytni vistkerfis.

3. Að vernda, viðhalda og byggja upp jarðveg.

4. Að vernda, viðhalda og auka kolefni í jarðvegi og gróðri.

5. Að vernda, viðhalda og auka vatnsmiðlun og vatnsgæði.

6. Að vernda, viðhalda og auka loftgæði.

7. Að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnýtingar.

 Með því að fylgja þessum meginreglum tryggjum við að við göngum ekki á auðlindir landsins og að viðgangur og virkni vistkerfa haldist.

Við gerð reglugerðadraganna leitaði Landgræðslan víðtæks samráðs við ýmsa hagsmunaaðila, samtaka og sérfræðinga. Er þeim sérstaklega þakkað gott samstarf.

 

 

Bryndís Marteinsdóttir

Sviðstjóri sjálfbærni og loftslags og verkefnastjóri GróLindar. Sviðsstjóri situr í framkvæmdastjórn sem mótar rekstraráætlun og stefnu stofnunarinnar í samræmi við fjármálaáætlun og aðrar stefnur ríkisins. Á sviðinu er fjöldi starfsfólks að jafnaði um 20. Sviðsstjóri heldur utan um málefni starfsfólks s.s. starfsmannasamtöl, ráðningar og daglega stjórnun.