Landgræðslan

Líffræðileg fjölbreytni

land.is
Heim » Viðfangsefni » Vernd og endurheimt » Líffræðileg fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni er sá breytileiki sem er að finna innan tegunda, milli tegunda og meðal vistkerfa og með undirritun og fullgildingu Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni fylgja þær skyldur að taka ábyrgð á að vernda og viðhalda fjölbreytni lífríkisins í náttúrulegum vistkerfum landsins. Líffræðileg fjölbreytni gefur tegundum og vistkerfum möguleikann á að bregðast við breytingum, þ.e. eldsneyti þróunar og undirstaða þess að vistkerfi geti starfað og viðhaldið sér til framtíðar. Fjöldi tegunda, þ.e. tegundaauðgi, er ein birtingarmynd líffræðilegrar fjölbreytni en það er mikilvægt að ná líka utan um fjölbreytni á öðrum stigum lífríkisins. 

Í flestum tilfellum felur endurheimt vistkerfa í sér einhvers konar inngrip í náttúruna og þær aðferðir sem notaðar eru er ætlað að ýta undir og beina framvindu vistkerfa í átt að viðmiðunarvistkerfi sem skilgreint hefur verið. Það er mikilvægt að aðgerðir séu í sátt við samninginn um líffræðilega fjölbreytni og stuðli að vernd og endurheimt fyrri fjölbreytni í hnignuðum vistkerfum. 

Meðal annars þarf að huga vel að því hvaða tegundir eru notaðar, hvort heldur sem um sáningu eða gróðursetningu plantna er að ræða, og að leitast við að nota ekki framandi tegundir sem hætta er á að geti orðið ágengar með tímanum. Árið 2018 var tekin ákvörðun að hætta notkun framandi tegunda hjá Landgræðslunni og er það í samræmi við samninginn um líffræðilega fjölbreytni. Við val á efnivið sem notaður er í vistheimt þarf einnig að huga að erfðafræðilegum breytileika og mælt hefur verið með að sækja hann í nærumhverfið eftir því sem hægt er. 

Á síðasta fundi samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem haldinn var í Montreal í Kanada í desember 2022 samþykktu aðildarþjóðir nýjan sáttmála sem gildir til 2030. Meðal skuldbindinga þjóðanna er að þá verði búið að endurheimta 30% hnignaðra vistkerfa með þeim tilgangi að vernda og endurheimta líffræðilega fjölbreytni. Taka þarf út ástand vistkerfa á Íslandi og gera áætlun um hvernig unnt verði að ná þessu markmiði. 

Vistfræðingarnir okkar

Kristín Svavarsdóttir

Sér um rannsóknir tengdar endurheimt vistkerfa, s.s. vistfræðileg ferli, ástand vistkerfa, áhrif landgræðsluaðgerða á vistkerfi, vistfræði landgræðslutegunda og uppgræðslutækni.

Jóhann Þórsson

Leiðir faglega vinnu á sviði jarðvegsverndar, loftslagsmála og vistkerfaverndar. Sér um þróunarstarf og vistkerfavöktun. Ber faglega ábyrgð á LULUCF bókhaldi Landgræðslunnar og ábyrgð á gerð rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir LULUCF bókhaldið.

Bryndís Marteinsdóttir

Sviðsstjóri sjálfbærni og loftslags og verkefnastjóri GróLindar. Sviðsstjóri situr í framkvæmdastjórn sem mótar rekstraráætlun og stefnu stofnunarinnar í samræmi við fjármálaáætlun og aðrar stefnur ríkisins. Á sviðinu er fjöldi starfsfólks að jafnaði um 20. Sviðsstjóri heldur utan um málefni starfsfólks s.s. starfsmannasamtöl, ráðningar og daglega stjórnun.