land.is
Landgræðslan

Kolefnismælingar

Heim » Viðfangsefni » Jarðvegur og loftslag » Kolefnismælingar

Kolefnismælingar

Upplýsingar um magn kolefnis í jarðvegi og gróðri eru mikilvægar til að meta ástand vistkerfa og breytingar á þeim. Jafnframt eru þetta lykilgögn við mat á áhrifum landnýtingar á loftslag og loftslagsbreytingar og nýtast þannig beint inn í loftslagsbókhald Íslands.

Landgræðslan notar 1.000 X 1.000 m reitakerfi til sýnatöku og hefur gert síðan 2007. Samkvæmt því kerfi eru núna yfir 600 virkir mælireitir innan landgræðslusvæða sem notaðir eru til að meta árangur aðgerða og kolefnisforða í jarðvegi og gróðri. Í dag er jafnframt verið að leggja út mælireiti á grónu landi, að hluta skv. sama kerfi, til að meta kolefnisbúskap lands almennt. Þessu til viðbótar rekur Landgræðslan mælinet þar sem losun CO2 er mæld og með því breytingar á kolefnisforða.

Landgræðslan rekur umfangsmikla sýnavinnslu fyrir bæði jarðveg og gróður þar sem sýni eru þurrkuð, sigtuð, vigtuð og rúmmálsmæld. Að því loknu er heildarmagn kolefnis og niturs mælt.

 

Kolefnismælingar votlendi

    Á Reynivöllum í Kjós fara fram mælingar á öndun og upptöku koldíoxíðs í gróðri og jarðvegi ásamt losun metans ásamt áhrifaþáttum í þremur mismunandi landgerðum, óröskuðu votlendi, framræstu votlendi og graslendi. Á svæðinu hafa 9 mælireitir verið settir upp, 3 í framræstu votlendi, 3 í óröskuðu votlendi og 3 í grýttu graslendi og stefnt er að setja einnig reiti í skurði innan svæðisins. Mæliferðir eru farnar vikulega vor, sumar og haust en stopulla yfir vetrarmánuðina. Innan hvers mælireits fara fram þrjú pör gasmælinga á hverjum mælidegi á þremur stöðum. Á hverjum stað fer fram mæling í myrkri til að ná yfir koldíoxíð og metan losun lífvera í og á jarðvegi og mæling í ljósi til að ná yfir bindingu kolefnis í fyrrnefndum lífverum. Samhliða gasmælingum eru gerðar mælingar tengdar umhverfisþáttum; jarðvegshita, grunnvatnsvatnshæð og grænkustuðli (e. NDVI-index). Á svæðinu fara fram sífellumælingar á PAR, lofthita, vindhraða, jarðvegshita og grunnvatnshæð til framreikninga á mæligögnum.

    Rannsóknarsvæðið var sett upp sem fyrsta skref til þess svara spurningum sem ekki var hægt að svara með gamla vöktunarverkefninu (vöktun á breytingum lykilþátta við endurheimt votlendis) en mikið ákall var um.

    Í framhaldinu er áætlað að setja upp vöktunarpunkta á sv-landi á fjölbreyttum svæðum, mismunandi vistgerðum, fjarlægð við sjó, hæð yfir sjávarmál, jarðvegsgerð og landnýtingu. Þar munu gögnin frá Reynivöllum nýtast til framreikninga.