land.is
Landgræðslan

Birkiskógar

Heim » Viðfangsefni » Vernd og endurheimt » Birkiskógar

Vernd og endurheimt birkiskóga

Birkiskógar hafa sérstaka vernd í lögum um náttúruvernd vegna sérstöðu þeirra sem einu náttúrulegu skóga landsins. Frá lokum síðustu ísaldar er birki eina innlenda trjátegundin sem myndað hefur skóga en við landnám var útbreiðsla þeirra mun meiri en í dag. Nú er náttúruleg útbreiðsla birkiskóga 1,5% en talið er að við landnám hafi hún verið um eða jafnvel yfir 25% landsins. Verndun birkiskóga hófst í byrjun síðustu aldar er Skógrækt ríkisins (nú Skógræktin) var stofnuð og á fyrri hluta síðustu aldar beitti stofnunin sér mikið fyrir því að friða birkiskóga fyrir beit, sérstaklega sauðfjár. Vegna þessa, almennrar fækkunar sauðfjár í landinu og hlýnandi loftslags síðustu áratugina hefur útbreiðsla birkiskóga aukist frá því þegar minnst var fyrir rúmlegri öld og eins er ástand skóganna líklega víða betra en þá var. Um og upp úr miðri síðustu öld voru hraðvaxta erlendar trjátegundir víða gróðursettar í skjóli birkiskóga sem hafði þær afleiðingar að raska birkivistkerfinu og leiddi til hnignunar þeirra.  

Árið 2007 skilaði nefnd um vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga skýrslu og tillögum til þáverandi umhverfisráðherra. Í tillögum nefnarinnar var lögð áhersla á vernd og endurheimt birkiskóga auk þess sem endurskoða þyrfti lög og opinbera stefnumótun, auka fræðslu og vekja athygli á gildi birkiskóga. Í nýrri stefnu og aðgerðaáætlun um landgræðslu og skógrækt, Land og líf, er lögð áhersla á vernd og endurheimt birkiskóga. Þá gegnir endurheimt birkiskóga einnig mikilvægu hlutverki í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Einnig var ákveðið að auka fjármagn til endurheimtar birkiskóga undir alþjóðlega átakinu Bonn áskorunin og markmið Íslands er að árið 2030 verði búið að skilgreina leiðir til að ná því að birkiskógar vaxi á 5% landsins. Það er mikil áskorun að auka útbreiðsluna svo mikið og nálgunin þarf því að taka mið af því að nýta hæfileika birkisins til sjálfgræðslu. Í því sambandi eru gamlir birkiskógar og birkilundir sem víða er að finna á landinu mikilvægir því í þeim felst bæði möguleikar á aukinni þekkingu á vistkerfinu og þar geymist sú erfðaauðlind sem eftir er af birkiskógum fortíðarinnar. Landgræðslunni og Skógræktinni voru sameiginlega falið verkefnið að endurheimta birkivistkerfið undir formerkjum Bonn áskorunarinnar og var til að mynda stærsta endurheimtar verkefnið á Íslandi, Hekluskógar, sem hófst upp úr aldamótum fellt undir þetta verkefni. Nánar má lesa um Bonn áskorunina hér. 

Til að vel takist til við endurheimt vistkerfa (vistheimt) er mikilvægt að unnið sé út frá bestu vísindalegri þekkingu hverju sinni. Árið 2021 fékk rannsóknaverkefnið Endurheimt birkivistkerfa á 21. öld – áskoranir, leiðir og ávinningur (BirkiVist) styrk frá Markáætlun Rannís um samfélagslegar áskoranir en verkefnið er samstarfsverkefni margra háskóla, stofnana, fyrirtækis og félagasamtaka. Landgræðslan er þátttakandi í verkefninu. Tilgangur þess er að tryggja að aðgerðir séu byggðar á bestu fáanlegu þekkingu og að auka skilvirkni við endurheimt birkivistkerfa á Íslandi með áherslu á sjálfgræðslu birkis.  

 

 

Kristín Svavarsdóttir

Sér um rannsóknir tengdar endurheimt vistkerfa, s.s. vistfræðileg ferli, ástand vistkerfa, áhrif landgræðsluaðgerða á vistkerfi, vistfræði landgræðslutegunda og uppgræðslutækni.