Landgræðslan

Sauðfjárbeit

land.is
Heim » Viðfangsefni » Sjálfbær landnýting » Sauðfjárbeit

Um sauðfjárbeit 

Sauðfjárrækt á Íslandi byggir að miklu leyti á úthaga- og afréttarbeit og hefur svo verið um aldir. Í harðbýlu landi þar sem erfitt var að afla nægs heyforða á sumrin var áður fyrr treyst á vetrarbeit sem heyrir nú sögunni til. Sú nýting fór vafalaust illa með gróður. Sauðfé á Íslandi hefur fækkað verulega frá því það var felst á áttunda áratug síðust aldar. Enn erum við þó að glíma við afleiðingar mikillar beitar í köldum árum sem átti sinn þátt í hnignun gróðurs. 

Nauðsynlegt er að nýting lands þar með talin beit, sé sjálfbær þannig að gróðurauðlindin viðhaldi sér eða auðgist en rýrni ekki. Landnýting á illa gróið og rofið land getur ekki talist sjálfbær. 

Beitarstjórnun og beitarskipulag

Nokkur meginatriði þarf að hafa í huga við skipulag beitar og með góðri beitarstjórnun má ná markmiðum um sjálfbæra landnýtingu, af því gefnu að landið sé í beitarhæfu ástandi. 

Áður en beit hefst að vori þurfa plöntur að hafa náð nægilegum blaðvexti til að geta ljóstillífað umfram það sem þær þurfa til viðhalds og hefja rótarvöxt, en öflugar rætur skipta miklu máli fyrir hreysti og þol plöntunnar. Það er því grundvöllur góðrar beitarstjórnunar að hefja beit ekki of snemma á vorin. Rannsóknir hafa sýnt að hefjist beit of snemma dregur það úr þrótti og uppskeru allt vaxtartímabilið. 

Ávallt þarf að taka mið af ástandi gróðurs á hverjum tíma og draga úr beit eða friða land ef með þarf. Því verra sem ástand beitilandsins er því erfiðara, tímafrekara og dýrara er að laga það. 

Helstu atriði sem þarf að hafa í huga við gott beitarskipulag eru:

1. Alltaf þarf að miða beitarnýtingu lands útfrá getu lands og ástandi þess hverju sinni 

2. Ástand lands er í eðli sínu breytilegt á milli ára og þolir ákveðnar sveiflur 

3. Viðhalda góðri gróðurþekju 

4. Viðhalda fullnægjandi tegundasamsetningu 

5. Viðhalda fullnægjandi uppskeru 

6. Ekki er hægt að segja með vissu að ákveðin landgerð beri alltaf vissan fjölda beitardýra 

7. Stöðugt endurmat á ástandi lykilatriði

Beitarþol og plöntuval

Plöntutegundir þola beit misvel og fer það að miklu leyti eftir hvar vaxtarbroddurinn er staðsettur á plöntunni. Vaxtarbroddur hjá grösum og störum er staðsettur nærri rót og minni líkur á því að hann skaðist við beit og endurvöxtur geti hafist. Blómplöntur, tré og runnar hafa vaxtarbroddinn efst á stönglinum eða að greinaendum og er fjarlægður við beit. Þessar tegundir eru því viðkvæmar fyrir beit.  

Sauðfé velur sér plöntur til átu en bítur ekki hvað sem er og velur jafnvel ákveðna hluta plöntunnar frekar en aðra. Vegna þessa getur samsetning þess sem kindin bítur verið frábrugðin því sem er í boði í plöntusamfélaginu. Plöntuval hefur því bein áhrif á tegundasamsetningu gróðurlenda og eftirsóttustu beitarplönturnar hverfa fyrst úr beitilandinu. Plöntuval er breytilegt eftir árstíðum og þroska plantna, en kindur sækjast í auðmeltanlegar og prótein/næringarríkar plöntur. Eftir því sem þrengist  í högum fækkar eftirsóttum tegundum og óvinsælli plöntum fjölgar og hlutdeild þeirra í haganum og gæði beitarlandsins rýrnar smám saman. Dæmi um þetta eru þursaskeggsmóar en sauðfé sneiðir hjá þursaskeggi. 

Þó land sé gróið er ekki gefið að það sé gott beitiland. Þetta á t.d. við um nýgræður og moslendi sem hafa bæði hafa lágt beitargildi og er viðkvæmt fyrir beit. Eins getur algróið land verið rýrt til beitar því þar vaxa plöntu með lágt beitargildi eða eru ekki eftirsóttar. Þar sem landnám plantna á sér stað og gróðurframvinda er í gangi hefur beit slæm áhrif og hægir á gróðurframvindunni. 

Svæði henta misvel til beitar en dæmi um svæði sem henta illa til beitar eru:  

1. Auðnir og lítt gróin svæði – lítið er um beitargróður og jafnvel lítil beit getur haft mikil áhrif á framvindu 

2. Rofsvæði – svæðið er mjög viðkvæmt, og jafnvel lítil beit getur hamlað framvindu 

3. Brattlendi – svæðið er viðkvæmt 

4. Mosaþembur – lítið um beitargróður og viðkvæmt svæði 

5. Þar sem land er á viðkvæmu stigi í gróðurframvindu, t.d. þegar landnám beitarplantna stendur yfir. 

Almennt gildir að þegar ákveðnum punkt er náð þá minnka afurðir þegar þrengist í högum. Vegna gróðurverndarsjónarmiða á hámörkun afurða á hektara ekki við útjörð á Íslandi, heldur að á að stefna á góðar afurðir eftir hverja á.  

Markmið góðrar beitarstjórnunar er fyrst og fremst að tryggja að ekki sé gengið á gróður og jarðveg, heldur að hann sé í jafnvægi eða framför og að tryggja að næringarþörf og velferð búpenings sé fullnægt. 

Beitarþungi

Beitarþungi (e. stocking rate): er meðalfjöldi beitardýra á flatareiningu lands t.d. ær/hektara. Þetta hugtak tekur hvorki tillit til ástands lands né uppskerumagns og er því ónákvæmt. Beitarálag er meðalfjöldi beitardýra á einingu gróðurs, þá er tekið inn hve mikill gróður stendur til boða. Náið samband er á milli beitarþunga og beitarálags og beitarálag vex yfirleitt með auknum beitarþunga, þó mishratt eftir því hve sterkt beitilandið er. Á rýru landi getur lítil aukning á beitarþunga leitt til verulegrar breytingar á beitarálagi. 

Beitarálag

Beitarálag (e. grazing pressure): Meðalfjöldi beitardýra á einingu gróðurs t.d. ær/tonn gróðurs. Segir til um hve mikill gróður stendur til boða. Krefst uppskerumælinga. 

 

Beitarþol

Beitarþol (e. carrying capacity): segir til um hve mikla beit ákveðið land þolir án þess að gengið sé á það, en erfitt að segja til um hvert beitarþol er, þar sem það er síbreytilegt og háð ýmsum ytri aðstæðum eins og veðurfari, fyrri nýtingu og hvenær beit hefst og hve lengi hún stendur. 

Plöntuval

Plöntuval: Stórir grasbítar/beitardýr velja hvaða plöntur og plöntuhluta þau bíta þannig að samsetning þess sem bitið er, er frábrugðið því sem er í boði í beitarlandinu og er yfirleitt næringarríkara en auðmeltanlegra. Plöntuval er misjafnt á milli dýrategunda en líka á milli einstaklinga sömu tegundar og breytist með þroska plantna. Sauðfé velur yfirleitt lauf fram yfir stöngla, unga plöntuvefi fremur en gamla og það forðast hár og þyrna. 

Beit hefur því bein áhrif á tegundasamsetningu beitilanda. Ákveðnir blettir eru bitnir fyrr og áður en nokkur beitarummerki sjást á öðrum. Vegna þessarar ójöfnu dreifingu er beitarþungi ekki góður mælikvarði á hve mikil beit má vera. Skoða þarf beitilandið nánar. Plöntuval er líka háð framboði og eftirspurn. Þegar beit er mikil eða sendur lengi fara dýr að bíta plöntur sem eru minna eftirsóttar og og oftast lélegri beitarplöntur fyrir skepnuna. Við endurtekna og langvarandi beit fækkar eftirsóttum plöntutegundum og beitargildi landsins minnkar.  

Ofbeit

Ofbeit (e. overgrazing): á sér stað þegar beitarálag er svo mikið að það leiðir til hnignunar gróðurs eða gróðureyðingar. Plöntutegundir þola beit misvel og því veldur beit gróðurfarsbreytingum. Þegar breytingarnar valda hnignun vistkerfisins eða hamla framvindu á landi í slæmu ástandi telst vera ofbeit. Við ofbeit hnignar gróðurlendi, uppskera og gróðurþekja minnkar, stöðugleiki yfirborðs minnkar, rætur rýrna og rofdílar myndast í sverði og röfabörð geta myndast.  Einnig fækkar eftirsóttum beitarplöntum og óvinsælli plöntur sækja á þannig að gæði beitarlandsins rýrna.  

Fleiri þættir sem erfiðara er að greina er að vatnsbúskapur versnar, hringrás næringarefna skerðist, kolefnisbinding minnkar en kolefnislosun eykst. Auk þess minnkar líffræðilegur fjölbreytileiki og þanþol vistkerfisins, þannig að það er viðkvæmara fyrir áföllum.

land.is
þekkingarbrunnur

GróLind

Sigþrúður Jónsdóttir

Stuðlar að bættum árangri og styður faglegan grunn landgræðslustarfs með því að sinna rannsóknum og þróunarstarfi, einkum hvað varðar beit og áhrif landnýtingar og uppgræðsluaðgerða á ástand vistkerfa.