Landgræðslan

Þorláksskógar

land.is
Heim » Viðfangsefni » Vernd og endurheimt » Samstarf um endurheimt » Þorláksskógar

Þorláksskógar

Þorláksskógar er samstarfsverkefni frá árinu 2016 milli Sveitarfélagsins Ölfuss, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í nágrenni Þorlákshafnar, nánar tiltekið á Hafnarsandi.  Markmið verkefnisins er m.a. að græða upp land og rækta skóga til að verjast náttúruvá, vernda byggð, auka verðmæti landsins til útivistar og vinna að endurheimt vistkerfa til að auka líffræðilega fjölbreytni.  

Unnið er að uppgræðslu með tilbúnum og lífrænum áburði einnig er gróðursett tré í völd svæði. Gróðursetning er að stórum hluta unnina af félagasamtökum og er hluti af fjáröflunum félagasamtaka.  

Saga

Landgræðsla í Þorlákshöfn á sér langa sögu. Gífurlegt sandmagn hefur í aldanna rás borist upp úr fjörunni austan við byggðina og einnig úr Ölfusárósi. Þaðan hefur sandurinn borist í átt að Selvogsheiði og allt vestur í Selvog. Auðug fiskimið eru úti fyrir ströndinni og mönnum varð snemma ljóst að ekki væri hægt að tryggja búsetu og matvælavinnslu í Þorlákshöfn nema ráðist yrði í umfangsmiklar landgræðsluaðgerðir til að stöðva sandfokið. Árið 1935 var mesta sandsvæðið girt af og friðað fyrir búfjárbeit. Girt var frá Ölfusá í austri að Nesvita í Selvogi í vestri.  Girðingin var 22 km. að lengd og friðaði um 7.800 ha. lands. Allt frá þeim tíma hefur verið unnið að landgræðslu við Þorlákshöfn og þó að margt hafi unnist á síðustu áratugum er ljóst að seint verður séð fram úr þeim verkefnum sem nauðsynleg eru til að tryggja varanlegan árangur uppgræðslustarfsins. 

Eldri Þorlákshafnarbúar muna vel þá tíð að vart mátti hreyfa vind til að sandurinn bærist ekki í húsakynni, ylli vandræðum í fiskvinnslu og hefti för manna til og frá Þorlákshöfn. Árið 1952 var ráðist í gerð sandvarnargarða á leirunum austan byggðarinnar til að sporna við sandi sem barst þaðan.  Í garðana voru notaðir um 17. km. af timbri og jafnframt var melfræi sáð við garðana. Melfræi var einnig sáð í sandinn sem barst upp úr fjörunni og þar hefur myndast mikill sjó- og sandvarnargarður sem bindur milljónir rúmmetra af sandi. Þessar aðgerðir skiptu sköpum fyrir þróun byggðarinnar og skemmtilegt dæmi um þann árangur sem náðst hefur er að nú er leikið golf þar sem áður var sandauðnin ein.  

Sandvarnarbelti

Síðustu áratugi hefur megin áhersla verið lögð á að stækka sandvarnarbeltið næst byggðinni til að koma í veg fyrir að sandfok valdi íbúum Þorlákshafnar óþægindum og búsifjum. Sáning melgresis hefur löngum verið veigamesti þátturinn í landgræðslustarfinu enda er melgresið eina plantan sem getur vaxið og þrifist þar sem sandur er á verulegri hreyfingu. Einnig hefur áburði verið dreift úr flugvél til að styrkja gróður innan landgræðslugirðingarinnar og lúpína notuð þar sem sandfok hefur verið stöðvað, til að tryggja árangur aðgerða. Á síðustu árum hafa ýmsar tegundir trjáplantna verið gróðursettar á svæðinu, m.a. í svo kallaða landgræðsluskóga, auk þess sem félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar hafa gróðursett trjáplöntur og unnið að ýmsum öðrum landgræðsluverkefnum. Náin samvinna hefur alla tíð verið milli sveitarfélagsins og Landgræðslu ríkisins um landgræðsluaðgerðir í Þorlákshöfn. 

Þó sandfok í kringum byggðina hafi að mestu verið stöðvað er enn umtalsvert magn af sandi á hreyfingu vestan við byggðina. Með tilkomu Suðurstrandarvegar þarf að tryggja að sandfok á veginn skapi ekki hættu fyrir vegfarendur. Undanfarin ár hefur Vegagerðin lagt fjármuni til uppgræðslu meðfram fyrirhuguðu vegstæði í þeim tilgangi. 

Mikið hefur áunnist í landgræðslu í Þorlákshöfn á undanförnum áratugum en verkefnin eru þó nær ótæmandi og óhemju fjárfrek. Fá byggðarlög hér á landi eiga jafn mikið undir því komið að böndum verði komið á þann mikla vágest sem sandurinn er. Íbúar Þorlákshafnar gera eins og aðrir landsmenn kröfu um að búa við fallegt og öruggt umhverfi.