land.is
Landgræðslan

Hugtök í landgræðslu

Heim » Miðlun » Kynning og fræðsla » Hugtök í landgræðslu
Afréttur

Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. (hvítbók náttúruvernd)

Almannahagsmunir

Hagsmunir sem hafa umtalsverða samfélagslega þýðingu, t.d. vernd náttúru og lífríkis, aðgengi almennings að náttúrunni, umferðarréttur, verndun menningarminja, svo og hagsmunir komandi kynslóða.

 

Almannaréttur

Sá réttur sem almenningi er áskilinn til frjálsra afnota af landi og landsgæðum, til farar um land og vötn o.fl. samkvæmt ákvæðum í náttúruverndarlögum.

Auðlindir

Byggjast á efnislegum þáttum og er eitthvað sem telst nothæft eða verðmætt í náttúrunni. Dæmi: land, sjór, loft, plöntur eða dýr.

Ágeng tegund

Framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun á líffræðilegri fjölbreytni.

Burðargeta svæðis

Sá fjöldi einstaklinga af einni tegund sem viðkomandi svæði getur borið.

Búsvæði

Svæði sem villt dýr nota sér til framfærslu og viðkomu, svo sem varplönd og fæðusvæði, eða sem farleið.

Byggð

Svæði eða land, hvort sem er þéttbýlt eða strjábýlt.

Eignarland

Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. (hvítbók náttúruvernd).

Friðlýsing

Opinber verndarráðstöfun til að vernda umhverfi og náttúru sem varða almenning miklu.

Hálf-villt náttúra

Náttúra þar sem þau ferli sem ráða mestu um byggingu og starfsemi vistkerfa mótast að hluta af beinni íhlutun og athöfnum mannsins en hún heldur engu að síður mörgum upprunalegum einkennum.

Landslag

Svæði sem hefur ásýnd og einkenni vegna náttúrulegra og/eða manngerðra þátta og samspils þar á milli. Landslag tekur þannig til daglegs umhverfis, umhverfis með verndargildi og umhverfis sem hefur verið raskað. Undir landslag fellur m.a. þéttbýli, dreifbýli, ósnortin víðerni, ár, vötn og hafsvæði.

Líffræðileg fjölbreytni

Breytileiki meðal lífvera frá öllum uppsprettum, þar með talin meðal annars vistkerfi á landi, í sjó og vötnum og þau vistfræðilegu kerfi sem þær eru hluti af: þetta nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og í vistkerfum.

Náttúra

Skapandi afl sem fer sínu fram í veruleikanum óháð manninum.

Náttúruvernd

Vernd á öllum þáttum náttúrunnar, kvikum og dauðum.

Náttúruverndarsvæði

Svæði þar sem gerðar eru sérstakar ráðstafanir til náttúruverndar, friðlýst svæði, svæði á náttúruminjaskrá o.þ.h. (Íslensk orðabók)

Óbyggðir

Landsvæði þar sem folk hefur ekki fasta búsetu og þar sem mannvirki tengd búsetu eru ekki til staðar eða eru lítt áberandi.

Óræktað land

Sá fjöldi einstaklinga af einni tegund sem viðkomandi svæði getur borið. Almennt skilgreint neikvætt, þ.e. land sem er ekki ræktað. 

Ósnortið víðerni

Landsvæði sem er a.m.k. 25 km² að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu, er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum, og þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum.

Ræktað land

Garðar og tún og akrar, þ.e. land sem hefur verið ræktað með jarðvinnslu, sáningu og reglulegri áburðargjöf, land í skógrækt eða land sem hvorki hefur þarfnast jarðvinnslu né sáningar til að verða slægjuland en er það vegna áburðargjafar og er notað sem slíkt. (Náttúruverndarlög 3.gr)

Sjálfbær þróun

Sú þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.

Umhverfi

Mótað af athöfnum mannsins og hverfast þannig um hann.

Umhverfisvernd

Snýst um að vernda manninn í umhverfinu.

Vistgerð

Staðir eða svæði með ákveðnum einkennum, t.d. hvað varðar gróður- og dýralíf, jarðveg og loftslag.

Vistkerfi

Safn allra lífvera er hafast við í afmörkuðu rými af tiltekinni gerð, ásamt öllum verkunum og gagnverkunum meðal lífveranna og tengslum þeirra við lífræna jafnt sem ólífræna umhverfisþætti sem tilheyra kerfinu, svo sem loft, vatn, jarðveg og sólarljós.

Þéttbýli

Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra. Afmarka má þéttbýli með öðrum hætti í aðalskipulagi sveitarfélags.

Þjóðlenda

Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. (Hvítbók náttúruvernd).