land.is
Landgræðsluáætlun 2021-2030

LANDGRÆÐSLAN

Heim | Stofnunin | Hlutverk og skipulag | Landgræðsluáætlun

INNGANGUR

Samkvæmt 6. gr laga um landgræðslu (155/2018) skal umhverfis- og auðlindaráðherra gefa út, eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, landgræðsluáætlun sem gildir til 10 ára í senn. Í henni skal kveðið á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu með hliðsjón af markmiðum landgræðslulaganna. Í áætluninni skal meðal annars gera grein fyrir hvernig gæði lands eru best varðveitt, hvernig megi efla og endurheimta röskuð vistkerfi og setja fram tillögur um breytingar á nýtingu lands þar sem það á við. Í áætluninni skal einnig gera grein fyrir markmiðum stjórnvalda um hvernig nýting lands styður best við atvinnu og byggðir í landinu og henni er ætlað að stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd. Þá skal horfa til þess að nýta betur fjármagn og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist, svo sem vernd líffræðilegrar fjölbreytni og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda.

Í samræmi við ofangreind lög skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra verkefnisstjórn sem hafði yfirumsjón með gerð landgræðsluáætlunar 2021 – 2030. Í henni sátu Árni Bragason, landgræðslustjóri (formaður verkefnisstjórnarinnar), Margrét Harpa Guðsteinsdóttir sveitastjórnarfulltrúi, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðrún Tryggvadóttir frá Bændasamtökum Íslands, Ása L. Aradóttir prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og Tryggvi Felixson auðlindahagfræðingur. Þau þrjú síðastnefndu voru tilnefnd af ráðherra. Í mars árið 2020 urðu þær breytingar á verkefnisstjórninni að Oddný Steina Valsdóttir tók sæti Guðrúnar Tryggvadóttur. Guðmundur Halldórsson sérfræðingur og Þórunn W. Pétursdóttir sviðsstjóri unnu með stjórninni, veittu sérfræðiráðgjöf og héldu utan um vinnuferlið. Annað starfsfólk Landgræðslunnar veitti einnig aðstoð og sérfræðiráðgjöf við gerð áætlunarinnar.

 

Verkefnisstjórn hefur skilað lokadrögum til UAR

Verkefnisstjórn Landgræðsluáætlunar hefur lokið yfirferð yfir innsendar umsagnir við drög áætlunarinnar og formlega skilað lokadrögum Landgræðsluáætlunar af sér til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Drögin lágu fyrir, til samráðs, á heimasíðu Landgræðslunnar frá 3. maí til 14. júní sl. og alls bárust 22 umsagnir. Verkefnisstjórnin þakkar öllum sem sendu umsagnir.

 

PDF Landgræðslan  Landgræðsluáætlun

PDF Landgræðslan  Samantekt á tillögu verkefnisstjórnar

PDF Landgræðslan  Umhverfisskýrsla 2021 – 2030

PDF Landgræðslan  Umsagnir og svör