Umhverfis- og auðlindaráðherra opnar nýja reiknivél fyrir loftslagsáhrif áburðarnotkunar
Ný reiknivél sem gerir kleift að reikna loftslagsáhrif áburðarnotkunar var formlega tekin í notkun sl. miðvikudag af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra í höfuðstöðvum Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Reiknivélin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og var verkefnið unnið í samstarfi við verkfræðistofuna EFLU með styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Dr. Magnús H. Jóhannsson sem hefur stýrt verkefninu segir að vélin geri kleift að finna út kostnað og loftslagsáhrif við notkun mismunandi áburðar. Til þess eru keyrðar saman upplýsingar um innhald næringarefna í áburðinum og fjarlægðir við flutning og dreifingu. Hægt er að vinna með fjölmargar tegundir lífræns áburðar og bera saman við tilbúinn áburð. Þannig fást upplýsingar sem nýtast við ákvarðanatöku og gerð áætlana um uppgræðslu út frá framboði lífrænna efna.
Sundurliðun á framleiðslu, innkaupum, flutningi og dreifingu gera kleift að fá glögga mynd af kostnaði og kolefnisspori. Reiknivélin nýtist þannig stjórnvöldum og stofnunum við ákvarðanatöku um breytingar á áherslum í áburðarnotkun t.d. um að auka nýtingu á lífrænum áburðarefnum. Samkvæmt settu markmiði hefur Landgræðslan aukið notkun lífræns áburðar til muna en 810 tonna aukning á notkun hans varð á milli áranna 2019 – 2020.
Magnús H. Jóhannssson teymisstjóri, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Árni Bragason landgræðslustjóri.
Fjarlægð við flutninga á áburði mikilvægur þáttur í útreikningum
Reiknivélin sýnir að almennt er kolefnissporið sem fylgir notkun tilbúins áburðar stærra en frá lífrænum áburði. Þar vegur þyngst kolefnisspor framleiðslu tilbúins áburðar, en flutningur og dreifing vega sáralítið í samanburði. Kolefnislosun vegna lífræna áburðarins er hins vegar aðallega fólgin í losun vegna flutnings og dreifingar og ræðst af næringarinnihaldi, þyngd og fjarlægðum til landgæðslusvæða.
Kolefnislosun eftir áburðardreifingu er nokkuð há, bæði fyrir tilbúinn og lífrænan áburð. Hún er reiknuð útfrá magni niturs sem borið er á land. Við þá útreikninga er notast við stuðla sem fengnir eru erlendis frá. Raunveruleg gögn um þessa losun við íslenskar aðstæður liggja ekki fyrir en myndu án efa auka nákvæmni útreikninga.
Magnús H. Jóhannsson segir frá eiginleikum reiknivélarinnar.
Kjúklingaskítur er hagkvæmur við uppgræðslu
Kostnaður er breytilegur við nýtingu lífræns áburðar. Þar hefur flutningsfjarlægðin mest áhrif, sérstaklega á þau efni sem innihalda lítið nitur sem er eitt mikilvægustu efna í áburði. Í reiknivélinni er miðað við að innihald niturs í tilbúnum innfluttum áburði sé um 25%. Í lífrænum áburði er mest nitur að finna í kjötmjöli eða um 9% . Meðalinnihald niturs í öðrum lífrænum áburði er um 1,3%.
Þegar saman fara lítið kolefnisspor og lágur kostnaður við nýtingu lífrænu efnanna er einboðið að auka nýtingu þeirra og minnka þannig kolefnisspor áburðarnotkunar. Niðurstöður úr reiknivélinni sýna að miðað við fyrirliggjandi gögn og núverandi dreifingaraðferðir áburðar er hagkvæmast að nota kjúklingaskít við uppgræðslu. Það miðast við þær forsendur að flutningslengd sé innan 90 km fjarlægðar, að niturmagn sé um 150 kg á hektara og að tæknilega sé hægt að dreifa 4 tonnum á hektara.
Við hönnun reiknivélarinnar kom í ljós að gögn skortir um nýtingu lífrænna efna við íslenskar aðstæður. Það er því ljóst að aukinn kraft þarf að setja í rannsóknir á því sviði svo takast megi að auka notkun lífræns áburðar í framtíðinni og stuðla að sjálfbærni og eflingu hringrásarhagkerfisins.
„Aukin notkun lífræns áburðar er í takti við eflingu hringrásarhagkerfisins og getur samkvæmt reiknivélinni í mörgum tilvikum skilað loftslagsávinningi. Ég vonast til að þetta nýtist til að taka ákvarðanir varðandi áburðarnotkun í landgræðslu og landbúnaði sem hafi hringrásarhagkerfið og áhrif á loftslagið í fyrirrúmi,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra við opnun reiknivélarinnar.
Starfsstöðvar
Starfsfólk
Um okkur
Rafrænir reikningar
Skýrslur
Leiðbeiningar
Landupplýsingar
Landbótasjóður
Gæðastýring í sauðsfjárrækt
Bændur græða landið
Varnir gegn landbroti
Endurheimt votlendis
Hagagæði
GróLind
Lagaumhverfi
Auglýsingar
Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659