23. nóvember, 2021

Skýrsla Landbótasjóðs er komin út

Notkun lífræns áburðar hefur aukist stórfellt í verkefnum sjóðsins og verkefnum á beitarfriðuðum svæðum fjölgað

Skýrsla Landbótasjóðs fyrir 2020 er komin út og má þar finna ýmislegt forvitnilegt um starfsemi sjóðsins.

Til úthlutunar árið 2020 voru samtals 94,9 m.kr. auk fræs sem metið var á 13,2 m.kr. eða samtals um 108 m.kr. sem er hæsta úthlutun sjóðsins frá upphafi. Styrkir runnu til landbótaverkefna um allt land, en líkt og áður voru flest verkefni á Suður- og Norðausturlandi. Sú ánægjulega þróun hefur orðið á undanförnum árum að mikil aukning hefur verið á notkun lífræns áburðar í verkefnum sjóðsins. Árið 2020 voru 4.825 tonn af lífrænum áburði notuð en 887 tonn af tilbúnum áburði. Auk lífræns og tilbúins áburðar var einnig notast við heyrúllur, birkiplöntur og grasfræ.

Stærstur hluti verkefna sjóðsins var á sauðfjárbeittum svæðum og runnu 61,2 m.kr. greiddra styrkja til slíkra verkefna en 10,8 m.kr. til aðgerða á beitarfriðuðum svæðum. Verkefnum á friðuðum svæðum fjölgar jafnt og þétt á milli ára og fá þau verkefni hærra styrkhlutfall (77%) en beitt svæði (63%) af reiknuðum heildarkostnaði við viðkomandi verkefni.

Átaksverkefni fyrir landbætur á illa förnu landi

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti 22,5 m.kr. aukafjárveitingu til Landgræðslunnar í maí 2020 til átaksverkefna á sviði loftlagsmála. Áhersla var lögð á landbætur á illa förnu landi á eða í jaðri hálendisins. Landgræðslan lagði fram tillögu til ráðuneytisins þar sem einskiptis aðgerðir voru settar í forgang þar sem ekki var hægt að ábyrgjast eftirfylgni aðgerða á næstu árum. Því komu aðeins til greina verkefni þar sem notaður var lífrænn áburður nema um væri að ræða svæði þar sem uppgræðsla væri komin vel á veg og ljóst að ein áburðardreifing skilaði verulegum ávinningi. Eingöngu var horft til félagasamtaka, fyrirtækja og sveitarfélaga í þessu átaksverkefni. Loftlagsávinningur verkefnisins var metinn 938 tonn koltvísýringsígilda. Sú nýbreytni var tekin upp að ekki voru send út kort til styrkþega til að teikna aðgerðir inná, heldur þurfti að skila inn upplýsingum um staðsetningu á GPS formi.

Metfjöldi umsókna

Sjóðurinn hefur frá 2003 styrkt landbótaverkefni hjá landeigendum, félagasamtökum, sveitarfélögum og öðrum umráðahöfum lands. Landgræðslan fjármagnar sjóðinn en öðrum aðilum er heimilt að leggja honum til fjármagn.

Alls bárust 87 umsóknir í Landbótasjóð árið 2020 og er það mesti fjöldi frá upphafi. Af þeim voru 19 umsóknir nýjar og féllu 13 umsóknir að reglum sjóðsins en 5 hlutu ekki brautargengi þar sem þær annað hvort féllu ekki að skilyrðum sjóðsins eða féllu betur að öðrum verkefnum Landgræðslunnar. Verkefnastjórnin lagði til að 82 verkefni hlytu styrk sem var samþykkt. Til átaksverkefna á illa förnu landi var úthlutað til 13 verkefna og var því úthlutað í heild styrkjum til 97 verkefna árið 2020.

Við mat á kostnaði við umsóknir er notast við gildandi verðskrá Landgræðslunnar fyrir viðkomandi landbótarverkefni auk þess sem upplýsingar úr umsóknum og landbótaáætlunum frá umsækjendum eru lagðar til grundvallar. Með þessu móti er jafnræðis gætt á milli umsækjenda við úthlutun styrkja.

Ávinningur af samstarfi Landbótasjóðs og umsækjenda er margþættur. Samhliða ávinningi í endurheimt eykst þekking og reynsla þeirra sem að þeim verkefnum koma auk þess sem ábyrgð þátttakenda á varðveislu og eflingu landkosta eykst. Sjóðurinn hefur m.a. styrkt verkefni þar sem unnið er að stöðvun jarðvegseyðingar, uppgræðslu molda, vikra, rofabarða, mela og sanda.

Skýrslur Landbótasjóðs má nálgast hér

Samanburðarmyndir af vel heppnuðu verkefni sem Kristján B. Garðarsson landeigandi Gilsár II í Eyjafirði vann. Aurskriða féll á vel gróið land og skógrækt í landinu í október 2020. Með styrk úr Landbótasjóði handdreifði Kristján áburði og fræi á svæðið og setti niður græðlinga. Gróður var fljótur að taka við sér og með sama áframhaldi verður ekki langt þangað til gróðurþekja nær að loka skriðunni . Efri myndin er tekin í apríl 2021 en sú neðri í september sama ár.
Samanburðarmyndir af vel heppnuðu verkefni sem Kristján B. Garðarsson landeigandi Gilsár II í Eyjafirði vann. Aurskriða féll á vel gróið land og skógrækt í landinu í október 2020. Með styrk úr Landbótasjóði handdreifði Kristján áburði og fræi á svæðið og setti niður græðlinga. Gróður var fljótur að taka við sér og með sama áframhaldi verður ekki langt þangað til gróðurþekja nær að loka skriðunni . Efri myndin er tekin í apríl 2021 en sú neðri í september sama ár.

Verkefni sem Kristján B. Garðarsson landeigandi Gilsár II í Eyjafirði vann í kjölfar þess að aurskriða féll á vel gróið land og skógrækt í október 2020. Með styrk úr Landbótasjóði handdreifði Kristján áburði og fræi á svæðið og setti niður græðlinga. Gróður var fljótur að taka við sér í kjölfarið og með sama áframhaldi verður ekki langt þangað til að jarðvegsyfirborðið verður stöðugt og gróður fer að nema land að nýju. Efri myndin er tekin í apríl 2021 en sú neðri í september sama ár. Sjónarhornið er ekki það sama en myndirnar teknar á sama svæði.

Þú gætir haft áhuga á….

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er ákvörðun

Landgræðslan tók á móti Jafnvægisvoginni, viðurkenningu FKA við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. október

Máttur til mýranna!

Máttur til mýranna!

Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við.