23. nóvember, 2021

Skýringar með beitarkafla reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnti nýverið drög að reglugerð um leiðbeiningar og viðmið um sjálfbæra landnýtingu. Þau voru lögð fram til umsagnar, á samráðsgátt stjórnvalda frá 24/09-11/11 2021. Drögin voru unnin af sérfræðingum Landgræðslunnar, fyrir ráðuneytið.

Reglugerðardrögin fjalla um landnýtingu er tengist umferð fólks og ökutækja, framkvæmdum, akuryrkju og beit. Ástæða er til að nefna að akuryrkjukaflinn byggir á faglegri vinnu FAO og Evrópusambandsins, reglugerðum sem í gildi eru í Evrópusambandinu og tekur mið af lögum, reglugerðum og Starfsreglum um góða búskaparhætti, sem þegar eru í gildi á Íslandi. Vert er að árétta að kaflarnir sem fjalla um umferð fólks og ökutækja, framkvæmdir og akuryrkju eru settir fram til leiðbeiningar og skulu, við þesskonar landnýtingu, hafðir til hliðsjónar.

Beitarhluta reglugerðarinnar skal aftur á móti ekki einungis hafa til hliðsjónar, heldur er gert ráð fyrir að fylgja skuli framsettum viðmiðum. Engu að síður er gefinn rúmur aðlögunartími að gildistöku þess hluta. Vísindalegu aðferðafræðina sem liggur að baki beitarhlutanum má rekja allt aftur til áttunda áratugar sl. aldar. Aðferðafræðin hefur verið í stöðugri þróun síðan, og er í dag notuð víða um heim við mat á ástandi lands.

Mörg ný hugtök eru í reglugerðardrögunum og tengjast þau flest beitarnýtingu. Þar má sérstaklega nefna hugtakið vistgetu og visteiningu. Vegna þess hve ný sú nálgun sem sett er fram í beitarhluta reglugerðardraganna kann að vera landnotendum hefur Landgræðslan tekið saman greinargerð þar sem þessi hugtök eru skýrð, sem og bakgrunnur aðferðafræðinnar. Sú matsaðferð sem er lögð til í drögunum byggir annars vegar á vöktun lands líkt og nú þegar er verið að þróa innan verkefnisins GróLindar, og hins vegar að tekið sé tillit til nýtingar lands, þ.m.t. jarðvegs, vatns, dýra og plantna, til að gefa af sér afurðir sem mæta síbreytilegum þörfum mannsins, en tryggja jafnframt langtíma framleiðslugetu þessara auðlinda og viðheldur vistkerfisþjónustum þeirra.
Landgræðslan leitaði víðtæks samráðs við ýmsa hagsmunaaðila og sérfræðinga við gerð reglugerðardraganna, einkum á sviði beitarnýtingar. Er þeim sérstaklega þakkað gott samstarf.

Efnisorð:

Þú gætir haft áhuga á….

Birkifrætínsla í Vesturbyggð

Birkifrætínsla í Vesturbyggð

Landsverkefnið „Söfnum og sáum“ kallar eftir fræjum. Framboð birkifræs hefur verið takmarkað í ár að undanskyldri Vesturbyggð.

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er ákvörðun

Landgræðslan tók á móti Jafnvægisvoginni, viðurkenningu FKA við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. október

Máttur til mýranna!

Máttur til mýranna!

Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við.