18.9.2019 / Birkiskógar eru okkar einu náttúrulegu skógar. Við landnám er talið að þá hafi verið að finna á um 25-30% landsins en nú þekja þeir aðeins um 1,5%.
Landnýting mannsins, s.s. skógarhögg, kolagerð og búfjárbeit, olli hruni í þessum vistkerfum. Með minnkandi sauðfjárbeit og hlýnandi loftslagi hefur víða orðið vart aukinnar útbreiðslu birkisins. Endurheimt birkiskóga er mikilvægt verkefni og í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum gegnir hún stóru hlutverki en í því sambandi er sjálfgræðsla birkis lykilþáttur.
Skeiðarársandur hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og á nyrsta hluta hans er nú að vaxa upp birki þar sem áður var auðn.
Starfsfólk Landgræðslunnar og Háskóla Íslands hafa rannsakað landnám gróðurs, m.a. birkis, á svæðinu s.l. tvo áratugi og bæta niðurstöðurnar enn frekar undir þekkingu okkar á því hvernig birki nemur land á lítt grónu landi og áhrif þess á gróðurframvindu.
Fyrstu birkiplönturnar námu land á sandinum í kringum 1990 og á um aldarfjórðungi er útbreiðsla þess orðin yfir 30 km2. Það er mikilvægt að skilja þessi náttúrulegu ferli og nýta það í endurheimtarverkefnum þar sem ýtt er undir sjálfgræðslu birkis.
Birkifrætínsla í Vesturbyggð
Landsverkefnið „Söfnum og sáum“ kallar eftir fræjum. Framboð birkifræs hefur verið takmarkað í ár að undanskyldri Vesturbyggð.