Saga landgræðsluflugs með eins hreyfils flugvélum mátti ekki falla í gleymskunnar dá
Út er komin bókin Landgræðsluflugið frá Sæmundi Bókaútgáfu. Bókin fjallar um hið merka starf Landgræðslunnar og flugmanna hennar við endurheimt landgæða með eins hreyfils flugvélum á árunum 1958 – 1992. Bókina rita þeir Sveinn Runólfsson, þáverandi starfsmaður Landgræðslunnar og síðar landgræðslustjóri og Páll Halldórsson flugmaður í landgræðslufluginu.
Höfundarnir voru sjálfir þátttakendur í landgræðslufluginu, nær alveg frá upphafi. Í þessari bók er ekki sagt frá sögu landgræðsluflugs með „þristinum“ DC-3 Páli Sveinssyni en sú saga hefur að nokkru verið rakin í ritinu Á grænum vængjum.
Höskuldur Egilsson ekur hér International Harvester IHC B-275 dráttarvél við hleðslu á TF-KAZ, sem Páll Halldórsson stýrir. Myndin er tekin á Hálsi í Kjós 1964. Ljósm Árni Guðmundsson
Í formála segir: “Við félagarnir höfum iðulega rætt um það á síðustu árum að saga landgræðsluflugsins með eins hreyfils flugvélum megi ekki falla í gleymskunnar dá, en sameiginlega höfum við lagt okkar skerf til hennar frá árinu 1962. Hér er ekki bara um að ræða merkilegan þátt í íslenskri flugsögu heldur líka verðmætt framlag til landgræðslu og endurheimtar landkosta. Við vorum sammála um það að öll spjót stæðu á okkur, sem vorum þátttakendur í þessari sögu nær alveg frá upphafi, að færa hana til bókar. Sveinn Runólfsson man eftir fyrstu eins hreyfils flugvélinni í Gunnarsholti árið 1959 og stjórnaði síðar landgræðsluflugi um áratuga skeið. Sagan sem við segjum hér spannar 35 ár, en sagan af landgræðslufluginu með „Þristinum“, DC-3 flugvélinni Páli Sveinssyni, hefur að nokkru verið sögð í ritinu Á grænum vængjum sem Pétur P. Johnson tók saman. Hér er því ekkert fjallað um þá merku sögu sem nær yfir tímabilið frá 1973 til 2006, eða 33 ár. Við höfum safnað saman og skráð eftir bestu getu nær allt efni sem okkur tókst að koma höndum yfir. Langmesta efnið er í gagnagrunnum og bókasafni Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Okkur tókst að ná ljósmyndum af sýnishornum úr öllum flugbókum þeirra tólf flugmanna sem sinntu landgræðsluflugi á árunum 1958 til 1992. Það var ögrandi verkefni að safna saman ljósmyndum af fluginu og landgræðsluverkefnunum á þessu tímabili, og langflestar þeirra komu úr myndasafni Landgræðslunnar, frá Páli Halldórssyni, Árna Guðmundssyni og Pétri P. Johnson.
Þetta ritverk hefði ekki komið út í þessu formi án velvilja og aðstoðar Landgræðslunnar og Árna Bragasonar landgræðslustjóra sem stutt hefur ritverkið með ráðum og dáð.”
Þótt víða hafi gríðarlega mikið áunnist í að hefta uppblástur eru verkefnin ærin víða um land. Úr ljósmyndasafni Landgræðslunnar
Einungis tólf flugmenn flugu þessum eins hreyfils landgræðsluflugvélum á árinum 1958-1992. Það er með ólíkindum að svo fáir flugmenn hafi komið að einum merkasta þætti landgræðslu hér á landi. Þáttur annarra sem að málinu komu var ekki síður mikilvægur en segja má að allir sem að fluginu komu hafi lyft Grettistaki.
Í kjölfar flugsáninganna tók örfoka land að gróa upp í meira mæli en nokkru sinni áður og með flugvélunum var hægt að sinna svæðum sem voru illfær farartækjum á jörðu niðri.
Starfsstöðvar
Starfsfólk
Um okkur
Rafrænir reikningar
Skýrslur
Leiðbeiningar
Landupplýsingar
Landbótasjóður
Gæðastýring í sauðsfjárrækt
Bændur græða landið
Varnir gegn landbroti
Endurheimt votlendis
Hagagæði
GróLind
Lagaumhverfi
Auglýsingar
Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659