19. júlí, 2023

Ný vísindagrein um líkan fyrir hrun íslenskra vistkerfa

Vistkerfi á landi hafa haft mismunandi mikið þanþol gagnvart landnýtingu, áföllum vegna eldgosa og kuldatímabila – sem leiðir til mismunandi ástands þess í dag.  Út er komin vísindagrein sem setur fram líkan til að varpa ljósi á hvaða þættir skýra best núverandi ástand vistkerfa á Íslandi sem endurspeglar þannig þanþol kerfanna gagnvart nýtingu og náttúrulegum áföllum í aldanna rás.

Í greininni var notuð nýstárleg aðferð sem byggðist á því að í slembiúrtaki voru 500 reitir lagðir út í landfræðilegum gagnagrunni, hver 250 ha að stærð. Vistfræðilegt ástand hvers reits var metið út frá stöðumati GróLindar og kannað hvort að samband væri milli ástandsins og útbreiðslu votlendis, hæðar yfir sjávarmáli, halla, tilvistar urðarskriða, nánd við eldvirk svæði og landfræðilega legu (þ.e. hvort reiturinn væri á Suður- og Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi, Vestfjörðum eða annesum norðanlands).

Breyturnar reyndust allar hafa marktæk áhrif á núverandi ástand landsins en áhrifin eru mismikil og breytileg eftir landssvæðum. Í ljós kom að hæð yfir sjávarmáli og útbreiðsla votlendis eru mikilvægustu breyturnar. Niðurstöðurnar sýna að ástand lands er almennt slæmt (GróLind einkunn 3 eða lægri) ofan 180 m hæðar á annesjum (P á meðfylgjandi mynd) en samsvarandi hæð er nokkru ofar inn til landsins á öðrum svæðum. Niðurstöðurnar benda til að leggja beri meiri áherslu á að vernda vistkerfi á hálendi og annesjum fyrir landnýtingu. Votlendisvistkerfin hafa almennt meira þanþol gagnvart nýtingu og áföllum og því eru votlend landsvæði almennt í betra ástand.

Greinin birtist í vísindaritinu PLOS ONE og nefnist A framework model for current land condition in Iceland en höfundar eru Ólafur Arnalds, Bryndís Marteinsdóttir, Jóhann Þórsson og Sigmundur Helgi Brink

Vöktunarreitir um allt Ísland
scatter plot íslenska

500 reitum, sem hver er 500×500 m í þvermál, var dreift tilviljanakennt um landið og ástand hvers reits kannað. Landinu var svæðaskipt í einfalda flokka. Niðurstöðurnar sýna að hæð yfir sjávarmáli er langmikilvægasta breytan en tilvist votlendis og brattra hlíða ásamt nánd við gosbeltið hefur áhrif á núverandi ástand landsins.

Tengsl ástands lands og hæðar yfir sjávarmáli. Hver punktur táknar 500×500 m reit, en alls eru reitirnir 472. Landið er flokkað í fjögur mismunandi svæði sem sýnd eru á myndinni hér til vinstri. Ástand lands er meðalgildi GróLindar fyrir hvern reit. Línur tákna tengsl hæðar og ástands fyrir hvert svæði. Ástandið versnar hratt með hæð yfir sjávarmáli. Ástandsgildið 3 er dregið á grafið, sem segja má að skilji á milli ásættanlegs og óásættanlegs ástands með tilliti til beitar. Að meðaltali skera línurnar þetta gildi í um 200 m hæð (Vestfirðir og annes norðanlands), um 250 m hæð (Suður- og Vesturland) og 400 m hæð (Norður- og Vesturland).

Þú gætir haft áhuga á….

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er ákvörðun

Landgræðslan tók á móti Jafnvægisvoginni, viðurkenningu FKA við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. október

Máttur til mýranna!

Máttur til mýranna!

Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við.