Lífrænn úrgangur, vandamál verða að tækifærum

Endurnýting næringarefna úr lífrænum úrgangi skiptir miklu máli fyrir Ísland og Íslendinga.
Hingað til hefur skort leiðir til að nýta hann á vistvænan hátt, þó sérstaklega ýmiskonar „vandamálaúrgang“. Vandamálaúrgangur sem hér er notað sem samheiti yfir efni sem eru illa nýtt s.s. mannaseyra og ýmis úrgangur frá eldisdýrum, er oft urðaður eða hleypt út í sjó. Hann mætti hinsvegar frekar kalla „tækifærisúrgang“.

Þessi tækifærisúrgangur inniheldur mikið magn dýrmætra næringarefna og það er því fullkomin sóun að nýta hann ekki, sérstaklega í landi þar sem ástand gróðurs og jarðvegs er svona bágborið. Því er til mikils að vinna að nýta hann sem best og nota í stað tilbúins innflutts áburðar þar sem það er hægt, en tilbúinn áburður hefur margfalt hærra kolefnisspor og er dýr í innkaupum. Tækifærisúrgangurinn er hinsvegar heimafenginn og oftast gjaldfrjáls.

Starfsfólk Landgræðslunnar við störf á Geitasandi.
F.v. Anne Bau, Urður Einarsdóttir, Sóldögg Rán Davíðsdóttir, Snorri Björn Magnússon, Elísa Inger Jónsdóttir, Guðný Rut Guðnadóttir, Sigurður Smári Davíðsson og Róbert Ívar Arnarsson.

 

 

Í ársbyrjun 2021 hófst sameiginlegt tilraunaverkefni „Sjálfbær áburðarvinnsla“ í samstarfi Landgræðslunnar, Matís, fyrirtækisins Atmonia, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hafró og Landsvirkjunar, en verkefnið er leitt af Matís. Verkefnið fékk styrk til tveggja ára frá Markáætlun Rannís og takmark þess er að finna leiðir til að bæta næringarefnum í lífrænan úrgang og gera þau að verðmætum áburði. Þessa dagana er verið að setja upp tilraunir á Geitasandi í Rangárvallasýslu þar sem borin eru saman áhrif ýmiskonar lífrænna efna á gróðurframvindu á rýrum mel. Sex mismunandi tegundir lífrænna efna eru prófaðar með eða án viðbættra næringarefna og sum þeirra í misstórum skömmtum. Allur úrgangur hefur verið meðhöndlaður á þann hátt að leyfilegt er að dreifa honum til uppgræðslu.

Einn af þáttakendum í verkefninu er Atmonia, en þar á bæ hefur verið þróuð ný ódýr aðferð við að vinna nitur úr andrúmslofti sem að auki hefur lítið kolefnisspor miðað við hefðbundna tækni. Gangi áætlanir eftir gæti framleiðsla niturs með þessari aðferð stuðlað að sjálfbærri áburðarframleiðslu hérlendis og dregið stórlega úr innflutningi tilbúins áburðar.

Lífrænum áburði dreift á Geitasandi, Tindfjöll og Þríhyrningur í baksýn.

 

 

„Það eru geysilega mikil verðmæti fólgin í lífrænum úrgangi, þó flest okkar líti á hann sem vandamál sem best sé að losna við sem fyrst. Næringarefnin eru nákvæmlega jafn verðmæt og í tilbúnum áburði, bara aðeins þyngri í notkun“ segir Magnús H. Jóhannsson teymisstjóri sem stýrir verkefninu fyrir hönd Landgræðslunnar.Í þessari tilraun er verið að taka skrefið lengra og skoða hvort hægt sé að gera úrgangsefnin að verðmætari áburði og því einskonar vöruþróun í gangi. Það er alltaf jafn spennandi að fylgjast með tilraunum sem þessum og sjá hvernig hægt er að efla framvindu gróðurs með efnum sem annars færu ónýtt í urðun eða rynnu út í sjó“.

Fyrstu gróðurmælingar munu fara fram í haust, verða endurteknar haustið 2022 og munu niðurstöður birtast í framhaldinu.

„Það eru geysilega mikil verðmæti fólgin í lífrænum úrgangi“
segir Magnús H. Jóhannsson teymisstjóri.

 

 

Landgræðslustjóri afhendir bændum Stóru-Mörk III landgræðsluverðlaunin 2021

Unnið við dreifingu lífræns efnis á Geitasandi, sex mismunandi tegundir eru prófaðar með eða án viðbættra næringarefna.

 

 

Starfsstöðvar

Starfsfólk

Um okkur

Rafrænir reikningar

Skýrslur

Leiðbeiningar

Landupplýsingar

Landbótasjóður

Gæðastýring í sauðsfjárrækt

Bændur græða landið

Varnir gegn landbroti

Endurheimt votlendis

Hagagæði

GróLind

Lagaumhverfi

Auglýsingar

Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659

Skip to content