Landgræðsluverðlaunin 2023 voru afhent við hátíðlega athöfn á ársfundi Landgræðslunnar sem haldinn var 24. maí á Keldnaholti
Verðlaunahafar í þetta skiptið voru:
Midgard, Rangárþingi Eystra – Umhverfisfræðsla í ferðaþjónustu
Midgard er ferðaþjónustufyrirtæki á Hvolsvelli sem setur umhverfismál og samfélagslega ábyrgð á oddinn. Það var stofnað árið 2010 og hefur síðan þá orðið eitt af leiðandi fyrirtækjum í ferðaþjónustu á Suðurlandi.
Ferðaþjónusta er ein tegund landnýtingar og í ljósi vaxandi ferðamennsku á Íslandi er mikilvægt að gefa henni gaum. Landgræðslan leggur áherslu á að öll nýting lands sé sjálfbær og skiptir engu hvort um beit eða ferðaþjónustu er að ræða. Landgræðsluverðlaunin eru hér veitt Midgard fyrir skýr umhverfismarkmið í tengslum við nýtingu lands til ferðaþjónustu og áherslu á umhverfisfræðslu til starfsfólks og ferðamanna. Megi verðlaunin verða fyrirtækinu hvatning til dáða og öðrum til fyrirmyndar.
Októ Einarsson – Stöðvun jarðvegrofs og endurheimt vistkerfa á Heiðarlæk og Heiðarbrekku í Rangárþingi ytra
Jarðirnar Heiðarlækur og Heiðarbrekka eru á Rangárvöllum í Rangárþingi ytra. Land jarðanna er mjög illa farið, líkt og land víða á Rangárvöllum, sökum mikils jarðvegsrofs og þar sem áður var lífrænn jarðvegur og gróið land er nú sandi orpið hraun. Októ hefur unnið að landgræðslu á svæðinu um árabil og umfangið stöðugt aukist með árunum en heildarstærð þess svæðis sem búið er að vinna á er nú um 200 hektarar og af nóg er að taka.
Skógræktarfélag Kópavogs – Endurheimt birkivistkerfa, söfnun og sáning á birkifræi
Verkefnið Söfnun og sáning á birkifræi hófst sem samstarfsverkefni fjölmargra aðila vorið 2020. Markmiðið var að efla útbreiðslu birkiskóga með sameiginlegu átaki landsmanna við söfnun og dreifingu birkifræs.
Frá upphafi hefur Skógræktarfélag Kópavogs með framkvæmdastjórann Kristinn H. Þorsteinsson verið í farabroddi verkefnisins og borið hitann og þungann af vinnu við framkvæmd þess. Kristinn hefur sinnt fræðslu til áhugafólks, leiðbeint um fræsöfnun og dreifingu og aflað verkefninu stuðnings og samstarfsaðila. Samstarf sem þetta er ómissandi hluti af landgræðslu í landinu og því hlýtur skógræktarfélagið landgræðsluverðlaun 2023.