21.2.2019 / Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að kortlagningu beitilanda á Íslandi. Sérstök áhersla var lögð á að draga fram svæði sem eru nýtt til beitar.
Þetta verkefni er hluti af GróLind, sem er samstarfsverkefni milli Landgræðslunnar, Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtaka Íslands og atvinnu- og nýsköpunarráðneytisins. GróLind er ætlað að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu auðlindanna (www.grolind.is).
Markmið kortlagningarinnar er að fá heildarsýn yfir hvaða landsvæði eru nýtt til búfjárbeitar. Fyrst um sinn verður einkum horft á sumarbeit sauðfjár en beit annarra dýra verður tekin fyrir á seinni stigum verkefnisins. Kortalagninguna verður síðar hægt að tengja við ástandsmat GróLindar og mun þannig nýtast landnotendum, stjórnvöldum og öðrum við að skipuleggja landnotkun og hafa yfirsýn yfir ástand beitilanda.
Starfsfólk Landgræðslunnar hafa fengið mikla og góða aðstoð frá staðkunnugum bændum og öðrum landeigendum við þessa vinnu og er söfnun gagna langt komin. Samstarfið hefur gengið einstaklega vel og þakka starfsmenn Landgræðslunnar kærlega fyrir afar jákvæð viðbrögð frá þeim sem hafa verið beðnir um aðstoð við kortlagninguna.
Jóhann Helgi Stefánsson, johannhelgi@land.is, 866-7119
Sigríður Þorvaldsdóttir. sigridur.thorvaldsdottir@land.is, 856-0236
Iðunn Hauksdóttir. idunn.hauksdottir@land.is, 831-4748
Dæmi um kortlagningu nokkurra afrétta á Suðurlandi. Beitt svæði eru þar sem sauðfé gengur. Friðuð svæði eru öll þau svæði sem sauðfé gengur ekki á m.a. vegna girðinga Landgræðslunnar og annarra og vegna landfræðilegra aðstæðna. Kortið sýnir óyfirfarin vinnugögn.