16.5.2019 / „Ástandið í loftslagsmálum, sem birtist okkur m.a. í hlýnun andrúmsloftsins, kallar á róttækar aðgerðir og nýja hugsun í umhverfismálum. Efst á blaði er auðvitað sú breyting á lífsháttum okkar og neyslumenningu sem verður að koma til. Það helst svo í hendur hvernig við umgöngumst og nýtum landið,“ sagði Árni Bragason landgræðslustjóri í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum. „Þegar kemur að endurheimt votlendis er nærtækast að fylla í skurði, en þannig má efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Úr hverjum hektara framræsts lands fara 20 tonn á ári af kolefni út í andrúmsloftið. Á síðasta ári var meira ræst fram af votlendi á Íslandi en endurheimtist og því verður að breyta. Framræsla á svæðum sem er stærri en tveir hektrarar er leyfisskyld af hálfu sveitarstjórna, sem fylgjast þó lítið með þessu málum. Í sumum tilvikum getur verið þörf á framræslu og fyrir henni gildar ástæður, en stundum ekki.“
Samstarf við 600 bændur
Umræða og áherslur í landgræðslumálum hafa breyst mikið á undanförnum árum. Eitt sinn var tóninn sá að endurheimta skyldi gróðurlendi í einskonar skuldaskilum fólksins við landið. Í dag er einnig litið svo á að vegna loftslagsbreytinga sé nauðsynlegt að græða upp örfoka land. Að því er líka unnið með ýmsu móti. Undir merkjum verkefnisins Bændur græða landið er Landgræðslan í samstarfi við um 600 bændur víða um land sem græða upp jarðir sínar. Er hátturinn þá sá að stofnunin leggur bændunum til áburð, en þeir sjálfir vinnu og vélar. Samstarfsverkefnin eru fleiri, en nærri lætur að á hverju ári séu 18.000-19.000 hektrarar undir í uppgræðsluverkefnum.
„Ef við tökum landið allt þá þarf að huga að uppgræðslu á meira en einni milljón hektara. Slíkt er verkefni sem tekur um eina öld og miklu þarf að kosta til. Þegar mólendi og beitarlönd rofna fýkur lífrænn jarðvegur burt. Því fylgir niðurbrot lífrænna efna og um helmingur þeirra breytist hratt í koltvísýing,“ segir Árni sem telur mikilvægt að bregðast við þessu með til dæmis takmörkun beitar á verst farna landinu.
„Já, það kemur alveg til greina að stöðva að fé sé rekið til sumarbeitar á vissum afréttarsvæðum. Vissulega hefur verið dregið úr því álagi með gæðastýringu í sauðfjárrækt og eins því að færra fé fer á afrétt. En það þarf lítið til svo jafnvægið raskist, jarðvegurinn á gosbeltinu sem liggur þvert yfir landið er viðkvæmur og lítið þarf til svo gróðureyðing fari af stað. Við þurfum heldur ekki að nýta afréttina inni á hálendinu með sama hætti og var. Í byggð er nóg af grasgefnu landi sem nýta má til beitar. Í Grindavík er hefð fyrir sauðfjárbúskap frístundabænda sem nú beita fé í ákveðiðn hólf sem hafa þol til beitar. Útkoman af þessu er góð, auk þess sem bændurnir ná að halda í hefðir til dæmis varðandi smölun og réttir sem skiptir marga miklu.“
Banki með framræstu landi
Frá miðri 20. öld og í áratugi eftir það voru tugir þúsundir hektarar mýrlendis víða um land ræstir fram sem hélst í hendur við sóknarhug meðal bænda. „Í dag er tiltækur á Íslandi stór banki af framræstu landi, en aðeins um 15% af innistæðunni er nýtt til ræktunar. Skynsamlegast er að geyma landið áfram sem votlendi og moka ofan í skurðina. Hægja þannig á bruna lífrænna efna og losun. Á Íslandi hefur verið hefð fyrir því að þegar lagðir eru nýir vegir úti á landi að beggja vegna þeirra séu grafnir djúpir skurðir til óþarfrar framræslu. Mikil hætta fylgir svo skurðunum ef bílar lenda út af og þannig hafa mörg slys orðið – sem fyrirbyggja hefði mátt,“ sagði Árni Bragason í samtalinu við Morgunblaðið.