Í tilefni af Degi umhverfisins
Þegar daginn tekur að lengja og síðustu skaflarnir hverfa úr upplandinu er freistandi að fara út að ganga, hjóla eða gera eitthvað skemmtilegt í náttúrunni. Eðlilega – einföld útivist er heilsusamleg, skemmtileg og ódýr og tækifærin ótæmandi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og auðvitað víðar.
Þó þarf að hafa í huga að á vorin eru bæði land og stígar sérstaklega blaut og viðkvæm. Það er vegna þess að yfirborð stíganna þiðnar en undir er holklaki sem bráðnar mun hægar. Það veldur því að vatn situr í yfirborðslagi jarðvegsins og nær ekki að síga niður í jörðina, en þá er hætta á að stígarnir verði að drullusvaði, jafnvel ófærir.
Þegar gengið er á blautum stígum skapast jafnframt hætta á því að vatn, sem ekki er veitt af stígunum með ræsum, taki að renna og hrífa með sér jarðveg og mögulega gróður þar sem verst er og rof verði í landinu. Þá freistast fólk gjarnan til að stíga til hliðar við stígana, þeir hliðrast og breikka, sem getur valdið enn frekara raski og skemmdum.
Upplandið er sannkallað lífgæðasetur sem togar í þéttbýlisbúann sem beðið hefur eftir vorinu. Og Landgræðslan hvetur fólk til þess að fara út að leika sér og rækta sál og líkama. Um leið minnir Landgræðslan á að vernd náttúrunnar og umhverfisins er eitt mikilvægasta verkefni mannkyns og að öll getum við lagt lítið eitt af mörkum. Til dæmis með því að velja okkur þurrar göngu- og hjólaleiðir, og stíga varlega til jarðar í blautu landi.