14. júlí, 2021

Björgun birkiskógarins í Áslákstungum í Þjórsárdal

Björgun birkiskógarins í Áslákstungum í Þjórsárdal

Í Áslákstungum í Þjórsárdal má enn finna allstórar birkitorfur. Talið er að það birkiafbrigði sem þar vex sé það sem óx í dalnum við landnám. Birkið hefur í langan tíma hörfað undan náttúruöflunum, skógarhöggi og beit. Það ferli heldur áfram og nokkuð víst að torfurnar munu eyðast algjörlega með tímanum nema gripið sé til aðgerða.

Þjórsárdalur eins og við þekkjum hann í dag er talsvert ólíkur dalnum eins og hann var á fyrstu öldum eftir landnám. Talið er að dalurinn hafi verið skógi vaxinn og vitað er að þar var talsverð byggð fram að gosi Heklu 1104. Þá lagðist þykkt lag gjósku yfir dalinn sem kaffærði gróður og kröftugur uppblástur hófst í framhaldinu.

Fingur bendir á smávaxna birkiplöntu sem vex í vikri

Birkið er harðger planta. Hér má sjá örsmáan græðling sem reynir að komast af í vikurjarðvegi.

Brekka með Hekluvikri í Áslákstungum Bm og SÞ sjást í fjarska

Hekluvikurinn er erfitt búsvæði fyrir plöntur. Hann er harður og léttur og sverfur því og eyðir plöntum þegar hann fýkur. Best er að græða vikurinn upp með heyði, moði eða skít.

Byggð lagðist af á síðasta bænum í Þjórsárdal eftir að Hekla gaus 1693. En Þjórsárdalur var áfram nýttur til beitar, eldiviðar og kolagerðar. Það ásamt kólnandi veðurfari gerði að verkum að skógurinn og gróðurfar í dalnum létu undan síga.

Þegar horft er til þess hversu mörg örnefni í dalnum tengjast skógi á nú skóglausum svæðum er ljóst að skógurinn hefur verið útbreiddur. Eyðingin var firnamikil en með landgræðslu og skógrækt hefur þróuninni verið snúið við. Þó eru ennþá svæði sem þarfnast aðhlynningar þar sem virkt rof er ennþá í gangi. Þar á meðal Áslákstungur sem hafa lifað af svo stórfellda eyðingu. Svæðið er í senn vitnisburður um fyrri landkosti og inniheldur dýrmætan fræbanka. Þar þarf því að koma í veg fyrir frekari eyðingu og hefja aðgerðir sem hjálpa vistkerfinu að ná viðsnúningi sem er ákveðið grunnstef í starfsemi Landgræðslunnar, hjálpa náttúrunni að hjálpa sér sjálf.

Sigþrúður Jónsdóttir beitarsérfræðingur og Bryndís Marteinsdóttir verkefnastjóri GróLindar gerðu nýlega úttekt á Áslákstungum. Gerð verður áætlun um hvernig hentugast er að bjarga birkiskóginum frá frekari eyðingu og hvaða aðferðum megi beita. Við úttekt kom í ljós að verkið er mikið og flókið. Loka þarf rofjöðrum, græða upp rofsvæði í kring og búa í haginn fyrir nýliðun og útbreiðslu birkis á svæðinu. Með því hefst endurheimt og verndun gróðurs, jarðvegs og líffræðilegrar fjölbreytni. Mikilvægur fræbanki, bæði af birki og öðrum plöntutegundum er á svæðinu. Talsvert er einnig af ungum birkiplöntum á svæðinu sem hafa náð að vaxa upp við erfiðar aðstæður.

Loftmynd úr Áslákstungum tekin beint ofan frá

Úr lofti sést greinilega hvernig birkitorfurnar hafa einangrast.

Ekki hefur verið plantað né sáð í Áslákstungum eins og víða í Þjórsárdal. Því bendir allt til þess að það afbrigði birkis sem þarna vex sé upprunalegt staðarbirki, aðlagað umhverfisaðstæðum. Birkitorfurnar eru enn þykkar og háar og þar er lagskiptur jarðvegur sem inniheldur mold og vikurlög.

Beitarfriðun Áslákstungna er vænlegasti kosturinn til endurheimtar. Án hennar er besti kosturinn sá að dreifa heyrúllum á þá jaðra svæðisins þar sem uppblásturinn er hvað mestur til að stöðva frekari uppblástur. Það er hægar sagt en gert, því ómögulegt er að koma rúllunum með tækjum á svæðið og því þarf að flytja þær með þyrlu. Landhelgisgæslan mun sjá um þá framkvæmd en hún er mikilsverður samstarfsaðili Landgræðslunnar og verkið í raun óframkvæmanlegt án slíkrar samvinnu. Verkið verður jafnframt unnið í góðu samstarfi við Afréttarmálafélag Flóa- og Skeiða og Skeiða- og Gnúpverjahrepp.
Fyrstu aðgerðir hefjast á þessu ári. Þeim verður haldið áfram á komandi árum og reglulegt endurmat gert í framhaldinu.

Loftmynd úr Áslákstungum, Sandá í forgrunni

Áslákstungur eru vitnisburður um fyrri landkosti og geyma dýrmætan fræbanka. Sandá sést í forgrunni.

Þessi birkitorfa er illa farin af uppblæstri. Hún stendur í miklum halla og ólíklegt er að henni verði hægt að bjarga.

Þessi birkitorfa er illa farin af uppblæstri. Hún stendur í miklum halla og ólíklegt er að henni verði hægt að bjarga.

Sigþrúður Jónsdóttir beitarsérfræðingur og Bryndís Marteinsdóttir verkefnastjóri skoða loftmynd Áslákstungum.

Sigþrúður Jónsdóttir beitarsérfræðingur og Bryndís Marteinsdóttir verkefnastjóri skoða loftmynd Áslákstungum.

Hér má sjá tæplega mínútulangt myndband sem sýnir stöðuna í Áslákstungum í Þjórsárdal.

Starfsstöðvar

Starfsfólk

Um okkur

Rafrænir reikningar

Skýrslur

Leiðbeiningar

Landupplýsingar

Landbótasjóður

Gæðastýring í sauðsfjárrækt

Bændur græða landið

Varnir gegn landbroti

Endurheimt votlendis

Hagagæði

GróLind

Lagaumhverfi

Auglýsingar

Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659

Efnisorð:

Þú gætir haft áhuga á….

Birkifrætínsla í Vesturbyggð

Birkifrætínsla í Vesturbyggð

Landsverkefnið „Söfnum og sáum“ kallar eftir fræjum. Framboð birkifræs hefur verið takmarkað í ár að undanskyldri Vesturbyggð.

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er ákvörðun

Landgræðslan tók á móti Jafnvægisvoginni, viðurkenningu FKA við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. október

Máttur til mýranna!

Máttur til mýranna!

Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við.