14. september, 2023

Átakið „Söfnum og sáum birkifræi“ byrjar á ný

Nú í september hefst átakið „Söfnum og sáum birkifræi“ í fjórða skipti. Þjóðin tók vel við sér þegar efnt var til átaksins fyrst 2020 og hefur mikið magn fræja safnast frá þeim tíma sem meðal annars hefur verið notað í vélsáningu á stórum uppgræðslusvæðum.

Sem kunnugt er stendur yfir áratugur Sameinuðu þjóðanna um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga undir hatti alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Markmið Íslands í þessari áskorun er að árið 2030 verði búið að leggja grunn að því að birkiskógar þeki 5% landsins, í stað 1,5% nú.

Verkefnið Söfnum og sáum birkifræi er liður í því að Ísland nái þessu markmiði. Tilgangurinn er að efla útbreiðslu birkiskóga, meðal annars með því að virkja almenning til söfnunar og dreifingar birkifræs en einnig að veita fræðslu til félagasamtaka, skóla, fyrirtækja og stofnana um vernd og endurheimt birkiskóga.

Birki uppgræðsla í Gunnarsholti - mynd sýnir muninn á svæði sem er hnignað og á svæði þar sem birki uppgræðsla á sér stað

Unnið að endurheimt birkiskóga á Rangárvöllum. Ljósm. Landgræðslan

Síðustu daga hefur verið unnið að því að kortleggja hversu mikið birkifræ finnst á trjám vítt og breitt um landið. Magn birkifræja í ár er ekki með því besta sem sést hefur á höfuðborgarsvæðinu og þarf aðeins að hafa fyrir því að finna tré með sæmilegu magni fræja og. Þar á því vel orðatiltækið „leitið og þér munuð finna“.

Lítið er um fræ bæði á Norður- og Austurlandi en reytingur á Suður- og Vesturlandi. Í Vesturbyggð má aftur á móti víða finna talsvert magn fræja en minna annars staðar á Vestfjörðum, fólk er engu síður hvatt til þess að hafa augun hjá sér og tína því fá grömm eru mörg fræ!

Nánari upplýsingar um söfnunina má finna á birkiskogur.is

Þú gætir haft áhuga á….

Sumarið í vettvangsvinnu

Sumarið í vettvangsvinnu

Nú í sumar, líkt og undanfarin ár, hefur stór hópur fólks farið um landið við allskyns rannsóknir á vegum Landgræðslunnar.

Evrópa þarf að gera betur í endurheimt vistkerfa

Evrópa þarf að gera betur í endurheimt vistkerfa

Evrópsk náttúra er ekki í góðu ástandi og hefur sýnt fá merki um bata undanfarin ár. Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) birti nýlega greiningu um þörf á aðgerðum til að vernda margvíslegan ávinning sem heilbrigð náttúra hefur í för með sér.

Landgræðslustjóraskipti

Landgræðslustjóraskipti

Um nýliðin mánaðamót lét Árni Bragason af störfum sínum sem landgræðslustjóri vegna aldurs. Við starfi landgræðslustjóra tekur Birkir Snær Fannarsson.