4. apríl, 2023

Áskoranir og tækifæri í endurheimt votlendis

Ljóst er að auka þarf hraða og umfang endurheimtar votlendis til að ná markmiðum stjórnvalda sem snúa að því að sporna gegn loftslagsbreytingum og tapi á líffræðilegri fjölbreytni. Sumarið 2022 vann Finnur Ricart Andrason því rannsóknarverkefni fyrir Landgræðsluna um áskoranir og tækifæri í endurheimt votlendis á Íslandi. 

Út frá fyrri rannsóknum var ljóst að ekki voru til nægar upplýsingar um viðhorf hagaðila tengda landbúnaði til endurheimtar votlendis. Talið var mikilvægt að auka skilning á þessum sjónarmiðum til að skilja betur hvað stendur í vegi fyrir frekari árangri í endurheimt votlendis. Til að afla upplýsinga í þessari rannsókn voru því tekin 8 hálfopin viðtöl við hagaðila sem tengjast landbúnaði. 

Skýrsla rannsóknarverkefnisins setur fram fjölbreyttar niðurstöður sem sýna fram á að ekki er auðvelt að auka umfang og hraða endurheimtar votlendis á Íslandi en að það sé samt sem áður til mikils að vinna. Alls leiddi rannsóknin í ljós 17 áskoranir og 11 tækifæri og út frá þeim voru mótaðar 10 tillögur að úrbótum.

Helstu áskoranirnar sem hindra aukna endurheimt votlendis á Íslandi eru skortur á fjárhagslegum hvötum, neikvæð og óupplýst umræða, vísindaleg óvissa, og skortur á fræðslu til landeigenda. Aðrar áskoranir sem fjallað er um í skýrslunni eru, meðal annars, skortur á vottun kolefniseininga, óskýrt ábyrgðarsvið innan og milli opinberra stofnana, og sálrænar og félagslegar áskoranir.

Helstu tækifæri sem felast í og geta aukið endurheimt votlendis á Íslandi eru mikið flatarmál framræsts votlendis sem ekki er í nýtingu, jákvæð viðhorf til endurheimtar votlendis, hraður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL), fjölþættur vistfræðilegur ávinningur, og tækifæri fyrir ferðaþjónustu.

Helstu tillögurnar að úrbótum sem lagðar eru fram í skýrslunni eru eftirfarandi: 

Auka fræðslu til landeigenda, sveitarstjórna og almennings um mikilvægi þess að endurheimta votlendi, án þess að leggja of mikla áherslu á samdrátt í losun GHL.

Hanna fjárhagslegt hvatakerfi sem hvetur landeigendur til að endurheimta votlendi í meira mæli.

Birta öll gögn og rannsóknir sem liggja þegar fyrir um endurheimt votlendis.

Draga úr vísindalegri óvissu varðandi kolefnisávinning endurheimtar votlendis við íslenskar aðstæður með því að efla frekari rannsóknir og kortlagningu og kynna niðurstöðurnar fyrir almenningi.

Skýra ábyrgðarsvið innan og milli opinberra stofnana og annarra hagaðila, sérstaklega hvað varðar framfylgd ákvæði náttúruverndarlaga um sérstaka vernd votlendis.

Allir hagaðilar tileinki sér lausnamiðaðri nálgun til að hámarka árangur endurheimtar votlendis sem og að hámarka jákvæðan samfélagslegan og vistfræðilegan ávinning aðgerðanna.

Í skýrslunni er einnig að finna kortlagningu á viðeigandi lögum og stefnuskjölum sem talið er mikilvægt að hafa aðgengileg á einum stað.

 

 

 

forsíða votlendisskýrslu

Þú gætir haft áhuga á….

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er ákvörðun

Landgræðslan tók á móti Jafnvægisvoginni, viðurkenningu FKA við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. október

Máttur til mýranna!

Máttur til mýranna!

Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við.