Evrópsk náttúra er ekki í góðu ástandi og hefur sýnt fá merki um bata undanfarin ár. Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) birti nýlega greiningu um þörf á endurreisnar-aðgerðum og betri stjórnun vistkerfa til að vernda margvíslegan ávinning sem heilbrigð náttúra hefur í för með sér – fyrir heilsu fólks, fæðuöryggi og árangursríkar loftslagsaðgerðir.
Greiningin ber heitið „Mikilvægi endurheimtar náttúru í Evrópu“ og dregur saman helstu vísbendingar um hvers vegna evrópsk vistkerfi þurfa tafarlausar
samstilltar aðgerðir við endurheimt vistkerfa, bæði innan núverandi afmarkaðra verndarsvæða en einnig utan þessara svæða, svo sem í ræktuðum skógum, landbúnaðarsvæðum, hafinu og í þéttbýli.
Endurheimt vistkerfa, svo sem laskaðra áa, vatna, votlendis, skóga, graslendis, sjávarbúsvæða og annarra vistkerfa myndi ekki aðeins bæta heildarþol og gæði náttúrunnar í Evrópu, heldur gæfu það margs konar víðtækari samfélagslegan ávinning. Sem dæmi mætti taka að endurheimt búsvæða frjóbera myndi bæta fæðuöryggi álfunnar í framtíðinni.
Mynd 1. Stutt samantekt á ástandi vistkerfa í Evrópu. Myndin er lauslega þýdd úr ensku.
Skuldbindingar síðustu áratuga hafa ekki skilað langtímamarkmiðum
Þrátt fyrir skuldbindingar síðustu áratuga, hefur aðildarríkjum ESB ekki enn tekist að ná langtíma markmiðum tengd náttúrunni og ekki hefur tekist að breyta neikvæðri þróun eða snúa við tapi á líffræðilegum fjölbreytileika. Margir uppsafnaðir þættir stuðla að álagi á náttúruna í Evrópu, þar á meðal þaulrækt í landbúnaði, landtaka, ósjálfbær skógrækt, mengun og loftslagsbreytingar. Álag mannanna ógnar vistkerfisþjónustu náttúrunnar. Til að gera betur er brýnt að endurheimta hnignuð og hrunin vistkerfi og koma þeim í betra ástand samhliða því að vernda heilbrigð vistkerfi.
Mikilvægi þess að endurheimta náttúruna í Evrópu
Náttúran, með sínum fjölbreytileika, er lykillinn að starfandi samfélögum og hagkerfum. Það gefur matinn sem við borðum, síar vatnið sem við drekkum, hreinsar loftið sem við öndum að okkur og er mikilvægt fyrir andlega og líkamlega heilsu okkar. Endurheimt búsvæða og tegunda Evrópu er ekki aðeins mikilvæg fyrir eðlislægt gildi náttúrunnar sjálfrar: hún er einnig lykillinn að bættri heilsu og vellíðan manna og minni áhrifum loftslagsbreytinga.