26. júlí, 2021

Skaftárhreppur tekur Bonn-áskoruninni, hvetur til aukinnar útbreiðslu birkis og beitarfriðunar á völdum svæðum

Skaftárhreppur tekur Bonn-áskoruninni, hvetur til aukinnar útbreiðslu birkis og beitarfriðunar á völdum svæðum

Vinnuhópur um endurskoðun aðalskipulags Skaftárhrepps leggur til að sveitarfélagið beiti sér fyrir aukinni útbreiðslu birkis, varðveislu birkiskóga og endurheimt raskaðra vistkerfa. Með því verður Skaftárhreppur eitt þeirra sveitarfélaga sem tekur Bonn-áskoruninni. Aukin útbreiðsla birkiskóga stuðlar að vernd líffræðilegrar fjölbreytni, en er um leið öflug loftslagsaðgerð sem styður við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Bonn-áskorunin er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga á stórum samfelldum svæðum eða landslagsheildum og er skipulagt af alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN í samstarfi við fleiri aðila.

Íslensk stjórnvöld vilja taka Bonn-áskoruninni í þeim tilgangi að uppfylla loftslagsmarkmið, auka landgæði, efla jarðvegsauðlindina og styrkja byggð í landinu. Sett endurheimtarmarkmið stjórnvalda eru í senn metnaðarfull og mikilvæg, að auka verulega þekju birkiskóga og birkikjarrs en hún er nú einungis 1,5% af flatarmáli Íslands.
Í dag þekja birkiskógar um 1% lands í Skaftárhreppi sem er undir 400 m.y.s. eða um 3.175 ha. Frá 1987 til 2012 jókst birkiþekjan innan sveitarfélagins um 179 ha. Þar sem birki er nú góðu heilli þegar í sókn víða um land má gera ráð fyrir að svo verði áfram með breyttri landnýtingu og hlýnandi veðurfari.

Birkiskógur í sól

Skaftárhreppur hefur nú á stefnuskrá sinni að auka útbreiðslu birkis til mikilla muna. Í dag þekja birkiskógar um 1% lands undir 400 m.y.s. innan hreppsins.

Hlaup í Skaftá 2015 séð úr lofti, brú að Skaftárdal

Skaftárhlaupið 2015 var með þeim stærstu sem komið hafa í langan tíma. Það skildi eftir feiknarlegt magn af framburði sem ennþá veldur miklu leirfoki á svæðinu.

Víðtækt samstarf

Vinnuhópurinn hvetur til samstarfs Skaftárhrepps, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og jarðanna Skaftárdals, Skálar, Ár og hluta Holtsjarða um beitarfriðun og endurheimt birkivistkerfa á um 7.500 ha svæðis norðan Skaftár. Til að hefta fok jökulleirs á Hálsaleirum í landi Ár verði einnig unnið að þvi að koma upp birkilundum (fræbönkum) á leirunum til að stuðla að sjálfgræðslu birkis innan svæðisins. Sú aðferð hefur m.a. verið notuð Hekluskógaverkefninu, og gefist afar vel.

Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri segir að tillögurnar muni fara inn í aðalskipulag sveitarfélagsins og næstu skref verði síðan tekin í samráði við Landgræðsluna og Skógræktina. Stjórnvöld hafa ákveðið að fjárveitingar til loftslagsmála aukist á næstu árum en þar er jafnframt lögð áhersla á að verkefnin stuðli að atvinnu í heimabyggð. Með þessu framtaki Skaftárhrepps gefst því tækifæri fyrir landeigendur til að jafna kolefnisbúskap á jörðum sínum um leið og það styrkir atvinnulíf í sveitarfélaginu.

 

Birki til að draga úr leirfoki

Leirfok frá framburði eftir hlaup í Skaftá hefur aukist til muna síðustu ár og sífellt bæst í af framburði eftir hvert hlaup. Síðasta Skaftárhlaup var 2018 en þar á undan 2015 sem var það stærsta sem komið hefur í langan tíma.

„Hér hefur verið mikið leirfok síðustu vikur og þétt mistur dag eftir dag þrátt fyrir bliðviðrið sem hefur ríkt“ segir Sandra Brá. „Við í sveitarfélaginu bindum vonir við að með stækkandi birkiskógum náum við að halda aftur af þessum vágesti sem leirfokið er um leið og við endurheimtum vistkerfi og fáum aukna gróðurþekju sveitarfélaginu til heilla“

 

Framburður eftir Skaftárhlaup í Lakahrauni

Framburðurinn sem sest niður eftir Skaftárhlaup verður að fíngerðum og rokgjörnum jökulleir við þornun.

Loftmynd af Landbroti og Skaftá í hlaupi 2015

Séð yfir Skaftá og Landbrot í Skaftárhlaupinu í október 2015.

Starfsstöðvar

Starfsfólk

Um okkur

Rafrænir reikningar

Skýrslur

Leiðbeiningar

Landupplýsingar

Landbótasjóður

Gæðastýring í sauðsfjárrækt

Bændur græða landið

Varnir gegn landbroti

Endurheimt votlendis

Hagagæði

GróLind

Lagaumhverfi

Auglýsingar

Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659

Þú gætir haft áhuga á….

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er ákvörðun

Landgræðslan tók á móti Jafnvægisvoginni, viðurkenningu FKA við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. október

Máttur til mýranna!

Máttur til mýranna!

Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við.