18.12.2020. Vistheimtarverkefni í vegkanti við Lýsuhólsskóla
Starfsfólk Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóla hafði samband við Landgræðsluna snemma á þessu ári og óskaði eftir ráðgjöf í skólaverkefni um uppgræðslu vegkants við skólann. Verkefnið er hluti af Grænfánastarfi skólans og nú var komið að því að kynna sér og reyna vistheimt.
Héraðsfulltrúi Vesturlands brást fljótt við og eftir gott spjall við kennara varð úr að hanna tilraun á vegkanti til þess að athuga áhrif mismunandi lífræns áburðar á gróðurframvindu. Haft var samband við Rannveigu hjá Landvernd sem slóst einnig með í hópinn.
Tilraunin varð að smækkaðri útgáfu af Vistheimtarverkefni Landverndar og það voru nemendur 5.-9. bekkjar sem unnu að henni. Nemendur og kennarar við skólann sáu sjálfir um að útvega lífræna efnið en það var kúamykja, kindaskítur og moð, hænsnaskítur og hrossatað.
Verkefnið hófst vorið 2020 á kynningu frá Landgræðslunni og Landvernd um mikilvægi jarðvegs og vistheimtar. Síðan var haldið út og nemendur mældu út fimm tilraunareiti með staurum sem þeir höfðu smíðað í skólanum. Gróðurtegundir voru mældar innan allra reita. Eftir það skelltu allir nemendur sér í bleika plasthanska og hófu að þekja tilraunarreiti með lífrænu efni með tilheyrandi þef og drullumalli sem einstaklega gaman var að fylgjast með.
Haustið 2020 mætti héraðsfulltrúi Landgræðslunnar aftur á svæðið og hjálpaði hópnum að taka út gróðurinn í tilraunareitunum. Mikinn mun var að sjá á gróðri innan og utan reita en þess má geta að sauðfé komst í gróðurinn og vildu sumir meina að það hefði haft mesta lyst á kindaskítsreitnum en þetta hefur ekki verið vísindalega sannað.
Nemendur hafa unnið fjölbreytt verkefni út frá tilrauninni, t.d. útbúið rafbók með upplýsingum um verkefnið, teiknað hvernig þau sjá reitinn fyrir sér eftir 10 ár, tínt blóm og jurtir úr reitunum, þurrkað og búið til plöntuhandbók, veitt skordýr í gildrur í hverjum reit og birt niðurstöður í töfluformi.
Héraðsfulltrúi Vesturlands þakkar kennurum og nemendum, ásamt Landvernd, fyrir skemmtilegt samstarf og hlakkar til að fylgjast með reitunum í framtíðinni.
Starfsstöðvar
Starfsfólk
Um okkur
Rafrænir reikningar
Skýrslur
Leiðbeiningar
Landupplýsingar
Landbótasjóður
Gæðastýring í sauðsfjárrækt
Bændur græða landið
Varnir gegn landbroti
Endurheimt votlendis
Hagagæði
GróLind
Lagaumhverfi
Auglýsingar
Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659