18.06.2019 / Alvarlegir hnökrar á landnýtingu við gæðastýringu í sauðfjárrækt eru umfjöllunarefni Ólafs G. Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, í nýju riti sem hann hefur gefið út. Ritið er nr. 118 í ritröð Landbúnaðarháskólans, og ber heitið Á röngunni -Alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt.
Ólafur segir á heimasíðu sinni um ritið: „Samfélagið veitir gríðarlegum fjárhæðum til sauðfjárræktar, en um leið er slæm staða íslenskra vistkerfa einn helsti umhverfisvandi landsins. Fjármunum til sauðfjárbænda er beint í gegnum sérstakt greiðslukerfi þar sem hluti styrkjanna er háður því að framleiðslan standist ákveðnar gæðakröfur. Meðal þeirra eru kröfur er varða umhverfisáhrif sauðfjárbeitar; að framleiðslan standist viðmið fyrir sjálfbærni og ástand landsins sem er beitt. Erfiðleikar við að afla upplýsinga um framkvæmdina gerði hana afar forvitnilega til skoðunar; erfiðleikar sem leiddu til þess að kæra þurfti málsmeðferð Matvælastofnunar til „Úrskurðarnefndar um upplýsingamál“. Úrskurðurinn var ÓA í hag og í kjölfarið fengust afhent margs konar skjöl um meðferð landsins. Skoðun þessara gagna leiddi fljótt í ljós að margt (vægt til orða tekið) hefur þar farið úrskeiðis og að þörf er á að gera grein fyrir þróun og stöðu þessara mála á opinberum vettvangi. Það hef ég gert í riti um framkvæmdina: „Á röngunni“ . Samantekt er hér, en vakin er athygli á að í lok hvers kafla ritsins er samantekt. Einnig er vakin athygli á að í 8. kaflanum er leitast við að benda á nýjar leiðir við nálgun. Málið varðar þó aðeins um 3% landbúnaðar á Íslandi og um um 15% sauðfjárræktarinnar.“
Í ritinu er fjallað um framkvæmd gæðastýringar í sauðfjárrækt og þá einkum landnýtingarþátt verkefnisins. Gæðastýringin er liður í samningum sauðfjárbænda við þjóðina um stuðning við atvinnugreinina. Framkvæmdin varðar verulega fjármuni af almannafé en heildarstuðningur nemur 6–7 milljörðum á ári eða 60 – 70 milljörðum á 10 árum. Það er mikilvægt að það fjármagn styðji ekki við ósjálfbæra nýtingu lands. Illa gekk að afla upplýsinga um framkvæmdina, segir Ólafur, ekki síst um landnýtingarþáttinn, sem var að lokum kært til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Úrskurður nefndarinnar og afhending gagna frá Matvælastofnun og Landgræðslunni markar tímamót fyrir upplýsingagjöf um umhverfismál hérlendis.
Slóð á ritið:
https://www.moldin.net/uploads/3/9/3/3/39332633/rit_lbh%C3%8D_nr_118.pdf