1.4.2019 / Síðastliðinn laugardag var Guðrún Schmidt, fræðslufulltrúi Landgræðslunnar, með vinnustofu á ráðstefnunni „Vísindi í námi og leik“ sem var haldin á Akureyri á vegum Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Málþings um náttúrufræðimenntun. Í vinnustofunni var fjallað um jarðveg sem spennandi kennslumiðil.
Guðrún segir það skipta miklu máli að fjallað sé um jarðveg í íslenskum skólum þar sem jarðvegs- og gróðureyðing hafi lengi verið – og sé enn – mikið umhverfisvandamál. Ísland er „lifandi kennslustofa“ , segir Guðrún, og auðvelt sé að nálgast og rannsaka jarðveg í næsta nágrenni skóla.
Vinnustofan var þrískipt. Fyrst voru þátttakendur fræddir um jarðveginn og m.a. fjallað um hlutverk og mikilvægi jarðvegs. Þá var rætt um jarðvegs- og gróðureyðingu og landgræðslu en því næst gerðu þátttakendur nokkra einfaldar tilraunir sem líka er auðvelt að gera í skólastofum. Eftir það kynnti Guðrún fjölmörg skólaverkefni og leiki. Sumt er hægt að vinna úti á vettvangi en annað er hægt er að gera inni í kennslustofu. Öll eiga þessi verkefni sameiginlegt að auka skilning nemenda á því að jarðvegur er órjúfanlegur hluti af hringrásum vistkerfa en verkefnin sýna líka hvernig jarðvegur tengist daglegu lífi sem og sjálfbærri þróun og loftslagsbreytingum.
Áhugasamir kennarar geta haft samband við Guðrúnu um verkefnahugmyndir og fræðslu sem er tengd jarðvegi, landgræðslu, sjálfbærri þróun og loftslagsmálum. Guðrún er með síma 488-3063 og 626-4121. Netfang: gudrun@land.is