11.4.2019 / Í dag voru Landgræðsluverðlaunin 2019 afhent á ársfundi Landgræðslunnar á Grand Hótel í Reykjavík. Þetta var í 29. sinn sem Landgræðsla ríkisins veitir þessi verðlaun. Landgræðsluverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum. Með veitingu landgræðsluverðlaunanna vill Landgræðslan vekja athygli á mikilvægu starfi margra áhugamanna að landgræðslumálum. Verðlaunahafar að þessu sinni voru Fjörulallar í Vík í Mýrdal, Haukur Engilbertsson bóndi á Vatnsenda í Skorradal og Lionsklúbbur Skagafjarðar og ábúendur að Goðdölum í Skagafirði, Smári Borgarsson og Sigríður Sveinsdóttir.
Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði.
Fjörulallar í Vík
Sandfok hefur valdið íbúum í Vík miklum óþægindum alveg frá því að byggð tók að myndast þar og til þessa dags. Um 1900 náði fjaran við Vík nánast inn í miðja núverandi byggð. Eftir Kötluhlaupið 1918 stækkaði fjaran mikið og sandfok frá landaukanum herjaði á kauptúnið. Árið 1933 hóf Landgræðslan baráttuna við að verja kauptúnið fyrir sandfoki úr fjörunni, sem stækkaði jafnt og þétt svo fylgja varð eftir auknu sandlendinu með stöðugri sandgræðslu. Þar til um 1970 að sjórinn tók að brjóta niður ströndina og sandfoksvarnir hurfu í sjóinn og nýjar áskoranir í baráttunni við sandinn tóku við.
Hópur fólks í Vík sem kalla sig Fjörulalla, hafa á síðustu áratugum sinnt margvíslegum sjálfboðaliðsstörfum við sandfoksvarnir við kauptúnið í Vík í nánu samstarfi við Landgræðsluna. Þeir hafa sett upp sandvarnargirðingar, hlaðið gömlum heyrúllum í skörð sem myndast hafa í fjörukambinn, byggt sandvarnargarða úr stórböggum, dreift mykju á melgresissáningar og margt fleira í baráttunni við sandinn. Ekki nóg með það, heldur hafa þeir einnig unnið að ýmsum verkefnum til að bæta aðgengi ferðamanna að fjörunni, byggt vegi, tröppur og sett upp borð. Þá hafa þeir aðstoðað Landgræðsluna við gerð upplýsingaskiltis, girt af viðkvæmustu sáningarnar til að varna þar umferð auk aðstoðar við skipulagningu aðgerða og eftirliti með ástandi fjörunnar. Enn fremur hafa þeir lagt fram umtalsvert fjármagn úr eigin vösum til að kosta framkvæmdir og útvegað til vélar og tæki.
Fjörulallar hafa ráð undir rifi hverju og verk þeirra eru til mikillar fyrirmyndar og eftirbreytni. Þeir eru sannir landgræðslumenn.
Lionsklúbbur Skagafjarðar og ábúendur að Goðdölum í Skagafirði, Smári Borgarsson og Sigríður Sveinsdóttir.
Árið 2005 ákváðu félagar í Lionsklúbbi Skagafjarðar að ganga til samstarfs við bændur á Goðdölum í Vesturdal, um uppgræðslu lítt gróinna og uppblásinna svæða á Goðdalafjalli í Skagafirði. Helsti hvatamaður að þessu samstarfi var Borgar heitinn Símonarson, bóndi í Goðdölum og einn af stofnendum Lionsklúbbs Skagafjarðar.
Verkefnið hófst 25. júní 2005. Þá dreifðu Lionsmenn 70 heyrúllum í rofabörð og á uppblásturssvæði. Byrjað var að dreifa tilbúnum áburði árið 2006 og hefur það verið gert árlega síðan. Þann hluta verksins annast Smári Borgarsson, bóndi í Goðdölum, í samráði við Landgræðsluna og hafa þau Goðdalahjón og þeirra fólk, reynst öflugir liðsmenn við uppgræðslustarfið. Goðdalabændur hafa einnig stundað árangursríka uppgræðslu á áreyrum við Jökulsá vestari og hafa tekið þátt verkefninu „Bændur græða landið“ frá árinu 2003.
Á uppgræðslusvæðið á Goðdalafjalli er nú búið að dreifa samtals 41,8 tonnum af áburði, auk 665 kg af landgræðslufræi og 1334 heyrúllum. Búið er að jafna út rúmum 500 metrum af háum rofabörðum og dreifa heyi og áburði í sárin.Tæplega 100 hektarar hafa verið teknir til uppgræðslu og enn bíða stór svæði aðgerða.
Landgræðsla á Goðdalafjalli hefur gengið sérlega vel og skilað miklum árangri. Góð gróðurþekja er komin í elsta hluta uppgræðslunnar og uppgræðslusvæðið er stækkað árlega.
Verkefnið hefur verið styrkt af Landbótasjóði Landgræðslunnar.
Á hverju sumri fara Lionsfélagar tvær landgræðsluferðir á Goðdalafjall með traktora og flutningavagna, hlaðna heyrúllum, um 60-80 km leið og dreifa úr rúllunum á uppgræðslusvæðið. Klúbbfélagarnir eru jafnan boðnir og búnir að leggja til vélar, vagna og önnur verkfæri, auk þess að útvega heyrúllur.
Verkefnið hefur eflt félagsanda og samvinnu meðal félaga í Lionsklúbbi Skagafjarðar, og aukið með þeim landlæsi og umhverfisvitund. Jafnan er mikil stemning kringum landgræðsluferðirnar. Á Goðdalafjalli má sjá hve miklum árangri landgræðslufólk getur náð í landbótum, þegar áhugi, þrautseigja og vilji til góðra verka ráða för. Verkin sýna merkin, Goðdalabændur og Lionsklúbbur Skagafjarðar eru verðugir handhafar landgræðsluverðlauna árið 2019.
Haukur frá Vatnsenda
Haukur Engilbertsson á Vatnsenda í Skorradal byrjaði um 1970 á uppgræðslu með því að dreifa heyi og moði á gróðursnauða mela í landi sínu. Um 1980 var slóði lagður upp á Skorradalsháls og tilbúinn áburður borinn á brekkurnar. Árið 1985 fór Haukur að leigja út sumarbústaðalóðir og ákvað að nota hluta af leigutekjunum í áburðarkaup til uppgræðslu og gerir það enn. Árið 1995 hóf Haukur þátttöku í verkefninu Bændur græða landið en í dag styrkir Landgræðslan Hauk til kaupa á þremur tonnum af áburði en alls ber hann á landið um 9-10 tonn á hverju ári.
Haukur á einnig jörðina Gröf í Lundareykjadal sem liggur að Vatnsenda uppi á Skorradalshálsi. Þökk sé Hauki er láglendi jarðanna orðið vel gróið og hann farinn að færa sig ofar í brattar brekkurnar en hefur þó enn ekki tekist að velta traktornum og segist komast allt með því að keyra nógu hægt.
Haukur girti jarðirnar af og hefur sínar rúmlega 200 kindur heimavið, innan girðingar. Beitin hefur ekki neikvæð áhrif á uppgræðslu Hauks og er gróður í mikilli framför og lömbin væn.
Haukur varð áttræður á síðasta ári en gaf ekkert eftir í sínu ötula landgræðslustarfi og er hvergi nærri hættur. Haukur er öðrum landeigendum til fyrirmyndar og á svo sannarlega skilið að fá viðurkenningu Landgræðslunnar, fyrir vel unnið ævistarf.