Viðmið og staðlar endurheimtar
Endurheimt vistkerfa (vistheimt) er ferli sem miðar að því að stuðla að bata vistkerfis sem hefur hnignað, skemmst eða eyðilagst. Notast er við inngrip til að hafa áhrif á náttúruleg ferli, framvindu vistkerfisins, þannig að þróunin sé í átt að viðmiðunarvistkerfi sem er skilgreint. Við skilgreiningu á því er hugað að eiginleikum vistkerfis sem ekki er í hnignuðu ástandi og byggir á upplýsingum um fyrri og núverandi aðstæður og hvernig það gæti hugsanlega þróast í framtíðinni. Það er mikilvægt að átta sig á því að endurheimt er ferli sem getur tekið langan tíma og inngrip þurfa að byggja á vísindalegri þekkingu og á þeim tíma getur þurft að tryggja að rask sem hefur valdið hnignuninni sé ekki viðhaldið.
Það er mikilvægt að þegar unnið er að endurheimt vistkerfa sé hugað að því að nota viðmið og staðla þar sem þessu fylgir að jafnaði inngrip sem hafa áhrif á vistkerfi til lengri tíma. Alþjóðlegu vistheimtarsamtökin (Society for Ecological Restoration, SER) hafa gefið út staðla með átta meginreglum til að stuðla að faglegum vinnubrögðum við endurheimt vistkerfa. Fyrsta útgáfa staðlanna kom út árið 2016 á 13. ársfundi samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni en endurskoðuð útgáfa kom út á alþjóðlegri ráðstefnu samtakanna haustið 2019. Landgræðslan hefur ákveðið að innleiða SER staðlana í starfi sínu við endurheimt vistkerfa hér á landi. Vegna þessa er nú unnið að því að þýða staðlana og stefnt er að því að þýðingin verði tilbúin vorið 2023.
Meginreglurnar átta sem staðlarnir byggja á draga fram mikilvægi þess að huga að stóru myndinni, að fá hagaðila að borðinu frá upphafi, nýta margskonar þekkingu, hafa skýran tilgang og markmið, en umfram allt að vinna með náttúrunni þannig að bati vistkerfisins verði sem mestur. Meginreglurnar eru að endurheimt vistkerfa
1. virki hagaðila
2. byggi á margs konar þekkingu
3. noti náttúruleg viðmiðunarvistkerfi, en geri um leið ráð fyrir umhverfisbreytingum
4. styðji ferli vistkerfisins til bata
5. sé árangursmetin út frá skýrum tilgangi og markmiðum, með mælanlegum vísibreytum
6. stefni að mestum mögulegum bata
7. nái uppsöfnuðum ávinningi þegar beitt á stórum kvarða (landsvæði)
8. sé hluti af röð vistheimtaraðgerða
Við endurheimt vistkerfis þarf að huga að eiginleikum vistkerfisins út frá fyrirfram skilgreindum viðmiðum. Í SER stöðlunum eru sex lykilviðmið sett fram og þau aðstoða við að varða leiðina að viðmiðunarvistkerfi sem stefnt er að því að endurheimta. Þetta er nauðsynlegt fyrir bæði val á aðgerðum og til að unnt sé að skoða vistfræðilegan árangur aðgerða. Lykilviðmiðin eru
1. hvort og þá hvaða beinu ógnir eru til staðar
2. ólífrænir umhverfisþættir sem geta viðhaldið viðmiðunarvistkerfi
3. tegundasamsetning miðað við staðartegundir sem eru einkennandi fyrir viðmiðunarvistkerfi
4. breytileiki í uppbyggingu stofna, samfélaga og vistkerfa
5. virkni vistkerfis í samhengi við framvindustig
6. að vistkerfið sem verið er að endurheimta þarf að vera hluti af stærri landslagsheild
Nánar verður fjallað um SER staðlana þegar íslenska þýðingin kemur út.
Vistfræðingarnir okkar
Kristín Svavarsdóttir
Sér um rannsóknir tengdar endurheimt vistkerfa, s.s. vistfræðileg ferli, ástand vistkerfa, áhrif landgræðsluaðgerða á vistkerfi, vistfræði landgræðslutegunda og uppgræðslutækni.
Jóhann Þórsson
Leiðir faglega vinnu á sviði jarðvegsverndar, loftslagsmála og vistkerfaverndar. Sér um þróunarstarf og vistkerfavöktun. Ber faglega ábyrgð á LULUCF bókhaldi Landgræðslunnar og ábyrgð á gerð rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir LULUCF bókhaldið.
Bryndís Marteinsdóttir
Sviðsstjóri sjálfbærni og loftslags og verkefnastjóri GróLindar. Sviðsstjóri situr í framkvæmdastjórn sem mótar rekstraráætlun og stefnu stofnunarinnar í samræmi við fjármálaáætlun og aðrar stefnur ríkisins. Á sviðinu er fjöldi starfsfólks að jafnaði um 20. Sviðsstjóri heldur utan um málefni starfsfólks s.s. starfsmannasamtöl, ráðningar og daglega stjórnun.