Landgræðslusvæði
Í árdaga landgræðslu þá var hraðfara jarðvegsrof mun sýnilegra viðfangsefni en nú er og heilu byggðarlögin voru í hættu vegna jarðvegseyðingar. Má þar til dæmis nefna Rangárvelli, Landsveit, Þorlákshöfn og Mývatnssveit. Til þess að bregðast við því þá var hafist handa við heftingu sandfoks og uppgræðslu viðkomandi svæða. Lög gerðu ráð fyrir að Sandgræðslan og síðar Landgræðslan aflaði sér fullra yfirráða yfir því landi sem hún tók til uppgræðslu og þannig komu hin eiginlegu landgræðslusvæði til. Svæðin komust í umsjón stofnunarinnar með þrennum hætti, með eignarnámi, afhendingu til landgræðslu eða samningi við landeigendur sem þinglýst var á viðkomandi jarðir.
Í upphafi snérust aðgerðir á svæðunum fyrst og fremst um að stöðva sandfokið og til þess voru hlaðnir grjótgarðar eða annars konar garðar sem stöðvuðu sandskrið á yfirborði. Þá voru melgresisplöntur gróðursettar við garðana eða þvert á þá vindátt þaðan sem stormar voru tíðastir. Víða er hægt að sjá merki um grjótgarða sem þessa, til dæmis á hinu sögufrægu stórbýlum Keldum á Rangárvöllum og Galtalæk í Landssveit. Friðun þessara svæða fyrir ágangi sauðfjár var lykilatriði í að melgresið næði sér á strik en það er nær eina plantan sem dafnar í sandfokinu. Friðunin var þó ekki alltaf vinsæl né naut tiltrúar almennings en sannaði gildi sitt eftir því sem tíminn leið og árangurinn fór að sjást.
Elsta landgræðslusvæðið er kennt við Reyki á Skeiðum og var girt árið 1908. Svæðið hefur nú verið afhent aftur eigendum sínum en það má enn sjá merki um rendur af melgresi og sandvarnargarða.
Með þeim árangri sem náðst hefur þá hafa viðfangsefni landgræðslu breyst. Enn þekkist uppblástur en nú mun staðbundnari og í flestum tilvikum fjær byggð en áður fyrr. Áður fyrr var markmiðið að endurheimta landbúnaðarland en nú er horft til þess að endurheimt vistkerfi geta veitt mun fjölbreyttari þjónustu heldur en uppskeru til að framfleyta búfé. Sú þjónusta sem mest er í umræðunni nú er kolefnisbinding í gróðri og jarðvegi en einnig er vert að nefna bætt vatnsgæði og vatnsmiðlun, endurreistar hringrásir næringarefna, vörn gegn náttúruvá svo sem öskufoki og fjölbreytta möguleika til útvistar og ferðamennsku.
Heildarstærð landgræðslusvæða er um 285 þúsund hektarar
Landgræðslan hefur nú umsjón með 77 landgræðslusvæðum á grundvelli laga 155/2018 um landgræðslu þ.e. „Land sem Landgræðslan hefur umsjón með, hvort heldur sem er í eigu hins opinbera eða einkaaðila.“ Heildarstærð þessara landgræðslusvæða er um 285 þúsund hektarar og þar ef eru um 242 þúsund ha friðaðir fyrir beit.
Á þessum svæðum er sem fyrr segir unnið að fjölbreyttum verndar- og endurheimtarverkefnum, s.s. stöðvun hraðfara jarðvegsrofs, endurheimtar mólendis, birkivistkerfa og votlendis. Viðfangsefnin eru mjög fjölbreytt þar sem landgræðslusvæðin eru dreifð um landið og ná víða allt frá sjó til hæstu tinda. Sem dæmi um landgræðslusvæði má nefnda Hólasand, Hafnarsand við Þorlákshöfn, Dimmuborgir og Hekluskóga, sem samanstanda í raun af nokkrum svæðum í umsjá Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, sveitarfélaga og einstaklinga.
Á síðustu áratugum hefur meiri áhersla verið lögð á að styðja landeigendur til landgræðslu á eigin landi heldur en að ný landgræðslusvæði séu sett í umsjá Landgræðslunnar. Stuðningur og samstarf við landeigendur og aðra umráðaaðila lands okkur kleift að ná mun víðtækari árangri en áður fyrr og verið er að grípa fyrr inn í hnignun vistkerfa en áður var gert, þökk sé því brýna starfi sem unnið hefur verið á landgræðslusvæðunum.