Landgræðslan

Hagagæði

land.is
Heim » Viðfangsefni » Sjálfbær landnýting » Hagagæði

Hagagæði

er samstarfsverkefni Landgræðslu ríkisins og Félags hrossabænda. Markmið þátttakenda í verkefninu er að landgæði rýrni ekki við nýtingu beitarlands. Þátttakendur geta verið hrossabændur og aðrir sem halda hross í atvinnuskyni eða til brúkunar í tómstundum.

Þátttaka í Hagagæðum er landnotendum valfrjáls en beitarland þeirra þarf að standast úttekt Landgræðslunnar. Úttektir gilda fyrir yfirstandandi ár og fylgir viðurkenning til þátttakenda sem standast úttektina.

Tilgangur verkefnisins er að tryggja sjálfbæra nýtingu beitarlands og auka ábyrgð landnotenda sem vörslumanna lands. Einnig að auka umhverfisvitund landeigenda og landnotenda og tryggja velferð hrossa. Þátttakendur geta notað sérstakt merki Hagagæða, starfsemi sinni til framdráttar. Á einkennismerkinu er ártal þess árs sem viðurkenningin á við.

Úttektaraðilar

Landgræðslan stýrir verkefninu Hagagæði og annast úttektir lands. Sérfræðingar Landgræðslunnar í beitarmálum sjá um starfsþjálfun og samræmingu mats þeirra er vinna að úttektunum og setja þeim nánari vinnureglur.

Flokkun lands í úttektareiningar

  1. Ræktað land.
  2. Úthagi.
  3. Geymsluhólf fyrir brúkunarhross.
  4. Stóðhestahólf.
  5. Afréttir.

Úttektir
Umsókn landeiganda/landnotanda um úttekt á beitarlandi, ásamt korti eða loftmynd af því landi er meta skal. Fram komi stærðir einstakra beitarhólfa.

 

  • Ekkert beitarland sem fer í ástandsflokk 5, skal nýtt til beitar.
  • Úthaga, sem fer í flokk 4, skal ekki nýta til beitar nema með miklum takmörkunum og/eða markvissum landbóta- og friðunaraðgerðum.
  • Úthagi, sem fer í flokk 3, er nýtanlegur til beitar með takmörkunum.
  • Geymsluhólf skulu staðsett á sléttlendi sem auðvelt er að bera á og bæta landskemmdir. Þau skulu ekki staðsett í halla eða á rofsæknu landi.
  • Beitarástand stóðhestahólfa er metið sérstaklega og ástand þeirra vaktað.
  • Afréttir sem viðkomandi nýtir til beitar skulu hæfir til hrossabeitar að mati Landgræðslunnar.
  • Niðurstaða úttektar gildir fyrir úttektarárið.
Vinnureglur og skýringar

Úttekt fer fram á tímabilinu 15. ágúst til 15. nóvember ár hvert. Jörð skal vera snjólaus þegar úttekt fer fram.

Stóðhestahólf skulu metin í upphafi notkunartíma og í lok hans.
Niðurstaða úttektar gildir fyrir yfirstandandi ár.

Fara skal um allt beitarland sem úttekt tekur til og ástand þess metið. Ástandseinkunn skal gefin hverju beitarhólfi, lakast 5 og best 0. Sérstaklega þarf að gaumgæfa ástand landsins við frumúttekt. Einnig ef vafi leikur á um ástand beitarlands standist sett ástandsviðmið. Í matsniðurstöðum skal gera grein fyrir einstökum beitarhólfum.

Miðað skal við ástand lands eins og það er þegar matið fer fram.

Úttektarþegi á rétt á að vera viðstaddur landmatið og fá allar skýringar er það varðar. Úttektaraðilar skrá hjá sér upplýsingar er varða úttektina og ástand landsins á sérstök eyðublöð. Skulu úttektarþegi og Landgræðslan fá samhljóða eintök af niðurstöðu úttektar.

Landgræðslan annast úttektir og leggur til þess starfsfólk. Menntunarkröfur eru: a) BSc próf í náttúruvísindum eða sambærileg menntun. b) Nemar, sem stunda háskólanám í bú- eða náttúruvísindum, geta unnið að úttektum með þeim starfsmönnum, er lokið hafa námi skv. lið a.

Sérfræðingar Landgræðslunnar í landlæsi og beitarmálum sjá um starfsþjálfun starfshópsins.

Frumúttekt skal ætíð unnin af tveimur aðilum úr áðurnefndum starfshóp. Sú meginregla skal gilda, komi upp álitamál við vottun, að landið skal njóta vafans.

Að liðnum þremur fyrstu þátttökuárunum er annað hvort ár án formlegrar úttektar, enda hafi beitarlandið staðist úttektarkröfur undanfarandi þrjú ár.

Viðmiðanir

Ástandseinkunn í beitarhólfi verður aldrei betri en einkunn fyrir rofdíla nema land sé í uppgræðslu. Aðrir þættir í ástandsmati geta lækkað einkunnina.

Land sem er að hluta til í mjög slæmu ástandi eða óbeitarhæft fyrir hross að mati úttektaraðila vegna jarðvegsrofs og/eða brattlendis getur staðist úttekt, sé landið friðað fyrir hrossabeit eða að nýting þess hamlar ekki eðlilegri gróðurframvindu og bata landsins að mati úttektaraðila, enda fari þar jafnframt fram landbætur. Lítt grónir melar eiga ekki að draga úr möguleikum á að land standist úttektarkröfur, enda séu önnur atriði í lagi og ekki virkt jarðvegsrof í gangi á melum eða í jöðrum þeirra.

Úttektareiningar

Ræktað land. Tún, sem eru eingöngu nýtt til beitar. Ekki skal meta tún sem einnig eða eingöngu eru notuð til slægna. Beitarland stenst ekki úttektarkröfur ef:

a) meira en 5 ha. fara í fl. 3.
b) 1 ha. eða meira fer í fl. 4.

Úthagi. Átt er við óræktað land, áborið eða óáborið, girt eða ógirt. Beitarland stenst ekki úttektarkröfur ef:

a) 20% eða meira af landinu fer í fl. 3.
b) 5% eða meira af landinu fer í fl. 4.
c) Brattlendi stenst ekki úttekt, fari það í flokk 3.

Sérstök álagssvæði í úthaga s.s. gjafasvæði eða umferðarsvæði þurfa ekki að hafa áhrif á ástandseinkunn beitarhólfs enda sé það mat úttektaraðila að umfang svæðis sé innan eðlilegra marka. Þau skulu þó aldrei vera meira en 5% af heildarstærð úttektareiningar.

Stóðhestahólf. Átt er við beitarhólf þar sem stóðhestur gengur með hryssum yfir fengitímann. Þau skulu staðsett á sterku, skjólgóðu landi og standast ekki úttekt, hljóti þau lakari ástandseinkunn en 2, sbr „Stóðhestahólf-gátlisti“.

Geymsluhólf. Hér er átt við afmörkuð hólf sem eingöngu eru notuð fyrir brúkunarhross. Þau geta verið á ræktuðu landi eða úthaga en skulu metin sem sérstök úttektareining. Þau mega ekki hljóta lakari einkunn fyrir rofdíla en 3 þó heildareinkunn sé lakari. Geymsluhólf mega ekki vera staðsett í halla, brattlendi eða rofsæknu landi. (Útskýring: Að jafnaði er mun meira álag á geymsluhólfum en öðru landi. Því er áhersla á að þau séu ekki á rofnu landi því við álag stækka rofdílar og breiðast út. Því er lögð áhersla á að einkunn fyrir rofdíla sé aldrei verri en 3. Heildareinkunn ástands gæti t.d verið 4 ef beitarálag er mjög mikið en þá er mikilvægt að landið sé sæmilega heilt til að þola það, án þess að skemmast varanlega)

Afréttir. Landgræðsla ríkisins heldur skrá yfir afréttir, sem teljast beitarhæfar fyrir hross að mati sérfræðinga hennar.

Úttektargögn og ferli úttektar

Þeir, sem óska að gerast þátttakendur í Hagagæðum, senda Landgræðslunni skriflega umsókn um úttekt á landi sínu fyrir 1. ágúst ár hvert.

Umsókninni skal fylgja landnýtingarkort eða loftmynd af beitarlandi umsækjanda, þar sem stærðir landsins koma fram og/eða eru mælanlegar. Loftmyndir þurfa að vera í mælikvarðanum 1:4.000 – 1:8.000.

Landamerki og girðingar þurfa að vera merkt inn á loftmyndir, auk annarra atriða er skipta máli vegna landnýtingar, svo sem stærðir einstakra beitarhólfa. Einnig þurfa sveitarfélög og hestamannafélög að leggja fram lista yfir notendur beitarhólfa, sem leigð eru út til einstaklinga.

Í umsókn þarf að koma fram fjöldi og aldursskipting hrossastofnsins. Myndgögn þarf að leggja fram við upphafsúttekt en viðbótargögn, þar með talin myndgögn, þarf að leggja fram verði breytingar á úttektaraðstæðum. Gangi hross úttektarþega óhindruð í land annarra en úttektarþega, hvort sem um er að ræða formlega leigu eða ekki, skal það land einnig metið. Sömu kröfur um myndgögn eru gerðar vegna þess lands.

Landgræðslan getur krafist staðfestingar á því að úttektarþegi hafi beitarleyfi í landið.

Landnotandi, sem ekki hefur yfir landi að ráða en er með hross sín í hagagöngu í landi annarra, getur sótt um úttekt á því landi og þátttöku í Hagagæðum, enda liggi fyrir sömu gögn og krafist er við aðrar úttektir lands. Að auki þarf að liggja fyrir skriflegt leyfi umráðamanns landsins fyrir úttekt á landinu.

Niðurstaða úttektar skal send úttektarþega innan 30 daga frá úttektardegi. Jákvæðar niðurstöður úttektar skulu staðfestar með viðurkenningarskjali til úttektarþega. Ekkert yfirmat er á úttektum og niðurstöðum þeirra því ekki hægt að áfrýja.

Ef beitarland stenst ekki settar úttektarkröfur, skal umsækjanda send skrifleg greinargerð um þær úrbætur, sem nauðsynlegar eru til að land viðkomandi standist úttektarkröfur. Landgræðslan býður upp á aðstoð við áætlanagerð til allt að þriggja ára, sem hefur það að markmiði að í lok tímans uppfylli land hans sett viðmið um landnýtingu. Jafnframt getur hann sótt um styrk til Landgræðslunnar vegna umbótanna. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að áætluðum umbótum sé lokið og viðkomandi sé orðinn þátttakandi í Hagagæðum.

PDF Landgræðslan Hagagæði ársskýrsla 2018

PDF Landgræðslan Hagagæði ársskýrsla 2016

PDF Landgræðslan Hagagæði ársskýrsla 2015

PDF Landgræðslan Hagagæði ársskýrsla 2014

PDF Landgræðslan Hagagæði ársskýrsla 2013

PDF Landgræðslan Hagagæði ársskýrsla 2012

PDF Landgræðslan Hagagæði ársskýrsla 2011

PDF Landgræðslan Hagagæði úttekt 2019

PDF Landgræðslan Hagagæði úttekt 2018

PDF Landgræðslan Hagagæði úttekt 2017

PDF Landgræðslan Hagagæði úttekt 2016

Ingunn S. Arnþórsdóttir

Framfylgir stefnu Landgræðslunnar í landgræðslu og gróður- og jarðvegsvernd.

Er verkefnisstjórn Hagagæða. Gerir áætlanir og hefur umsjón og eftirlit með landgræðsluverkefnum.