Þéttbýli
Þéttbýli þekja einungis um 1% af landsvæði jarðar en hýsa samt um það bil helming mannkyns. Þrátt fyrir að þéttbýli samanstandi að stórum hluta af steypu, stáli, mannmergð og umferð þá eru einnig vistkerfi innan borga og bæja. Ástand vistkerfanna hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði þéttbýlisbúa, svo sem hvað varðar loftgæði, vatnsmiðlun, hitatemprun á heitum sumardögum, vernd gegn náttúruvá og aðgengi að fjölbreyttum grænum svæðum til hvíldar og leikja. Þess vegna skipta virk og fjölbreytt vistkerfi innan þéttbýlissvæða heimsins afar miklu máli.
Þéttbýlisvistkerfi eru í flestum tilfellum manngerð og eru alltof oft illa virk og einhæf hvað varðar tegundasamsetningu. Lélegt skipulag leiðir oft til þess að alltof mikið af yfirborði jarðvegs fer undir steypu og malbik og þar með vex engin gróður á slíkum svæðum. Úrgangur og losun GHL frá iðnaði, umferð og heimilum spillir oft vatns-, jarðvegs- og loftgæðum innan þéttbýlissvæða og nágrenni.
Endurheimt vistkerfa innan þéttbýlis krefst skilnings og þáttöku bæði íbúa og stjórnvalda. Allt þéttbýlisskipulag ætti að taka mið af uppbyggingu og viðhaldi virkra og fjölbreyttra vistkerfa innan þéttbýlismarka sem og í jaðri þess. Íbúasamtök og sveitarfélög geta tekið sig saman og hreinsað árfarvegi og læki, plantað trjám og stuðlað að aukinni útbreiðslu náttúruskóga og annarra vistlenda innan almenningsgarða, á skólalóðum og öðrum opnum svæðum innan þéttbýlismarka. Gegndræpar gangstéttar og votlendissvæði innan þéttbýlis geta dregið úr flóða- og mengunarhættu og menguð iðnaðarsvæði má hreinsa og breyta í friðlönd og útivistarsvæði innan þéttbýlis.
Læra meira: