Áratugur Endurheimtar Vistkerfa 2021-2030

Höf og strendur

Áratugur endurheimtar vistkerfa
Áratugur endurheimtar vistkerfa-Landgræðslan

Höf og strendur

Höf þekja um 70% af yfirborði jarðar. Höfin eru mikilvæg fæðuuppspretta, tempra loftslag og mynda megnið af því súrefni sem við öndum að okkur. Vistkerfi sjávar spanna allt frá kóralrifjum til kaldra pólanna og innihalda mikla líffræðilega fjölbreytni, allt frá plöntusvifi til ógnarstórra hvala.

Höf og strendur standa frammi fyrir fordæmalausum ógnum, þrátt fyrir mikilvægi þessara vistkerfa. Milljónir tonna af plasti hafna í sjónum og skaða ýmsar lífverur, meðal annars sjófugla, skjaldbökur og krabbadýr. Hækkun hitastigs sjávar skaðar vistkerfi kóralrifja og fleiri lykilvistkerfi. Fenjaskógum er ógnað af skógarhöggi og gjörfellingu, þar sem þeim er oft breytt í fiskeldisstöðvar eða aðra starfsemi. Ofveiði ógnar fiskistofnum og ofauðgun næringarefna, sem er oft á tíðum afleiðing af því að nærri 80% skólps fer óhreinsað út í sjó, veldur því að svokölluð dauðasvæði myndast.

Endurheimt vistkerfi hafs og stranda felur helst í sér að minnka álagið á þau svo þau nái fyrra jafnvægi á ný. Einnig getur verið gagnlegt að sá fyrir eða flytja lykiltegundir milli svæða. Ríki og samfélög þurfa að vinna markvisst að því að gera fiskveiðar sjálfbærar og ganga ekki á auðlindir hafsins. Minnka þarf losun á mengandi úrgangi til sjávar. Það er meðal annars hægt að gera með hreinsun úrgangs og að fjarlægja plastúrgang frá öðrum úrgangi áður en hann nær til sjávar. Með betri stýringu má líka vernda kóralrif, fenjaskóga og fleiri mikilvæg strandvistkerfi.

Læra meira:

Lauslega þýtt af vef decadeonrestoration.org