Áratugur Endurheimtar Vistkerfa 2021-2030

Hvað er endurheimt vistkerfa

Áratugur endurheimtar vistkerfa
Heim » Miðlun » Kynning og fræðsla » Áratugur endurheimtar vistkerfa » Hvað er endurheimt vistkerfa
Áratugur endurheimtar vistkerfa-Landgræðslan

Hvað er endurheimt vistkerfa?

Endurheimt vistkerfa snýst um að stuðla að því að röskuð vistkerfi nái aftur fullri virkni samhliða því að vernda óröskuð vistkerfi. Öflugri vistkerfum fylgir meiri líffræðileg fjölbreytni, frjórri jarðvegur, meiri uppskera, meiri kolefnisbinding og meiri kolefnisforði.

Endurheimt getur verið margvísleg. Í sumum tilfellum er vistkerfi endurheimt með því að græða upp land en í öðrum tilfellum með því að takmarka álag á vistkerfið svo það hafi tækifæri til þess að jafna sig sjálft. Ekki er alltaf hægt eða jafnvel ekki endilega ákjósanlegt að færa vistkerfi aftur til fyrra horfs. Við þurfum til dæmis á ræktarlandi og innviðum að halda á landi sem var kannski áður skógur eða votlendi og vistkerfi þurfa einnig að geta aðlagast breyttu loftslagi, rétt eins og mannleg samfélög.

Á áratugi endurheimtar er stefnt að því að endurheimta 350 milljón hektara af röskuðum þurrlendis- og votlendisvistkerfum. Endurheimtin mun efla margvísleg gæði vistkerfanna sem nýtast okkur beint og óbeint; gæði sem eru talin að virði allt að 9 trilljón bandaríkjadala. Endurheimtin mun einnig fjarlægja á bilinu 13-26 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum úr andrúmsloftinu. Efnahagslegur ávinningur af þessum aðgerðum er metinn um 10 sinnum meiri en kostnaðurinn við þær. Til samanburðar er áætlað að það að aðhafast ekki yrði 3 sinnum kostnaðarsamara en að ráðast í allar þær endurheimtaraðgerðir sem stefnt er að.

Áratugur endurheimtar vistkerfa-Landgræðslan

Hægt er að endurheimta alls konar vistkerfi. Þar á meðal náttúruskóga, ræktarland, borgarvistkerfi, votlendi og sjávarvistkerfi. Ríkisstjórnir, fyrirtæki, samtök, samfélög og einstaklingar geta staðið fyrir endurheimt vistkerfa því orsakir röskunar vistkerfa geta verið margvíslegar og áhrifin mis-umfangsmikil.

Sem dæmi um orsakir röskunar vistkerfa má nefna löggjöf, reglugerðir og aðgerðir stjórnvalda sem leiða til röskunar vistkerfa. Sem dæmi má nefna ríkisstyrki til gjörnýtingar vistkerfa, mengun vegna lélegs eftirlits eða laga um sorphirðu og meðferð úrgangs og of mikla þéttingu byggðar sem leiðir til of mikillar fækkunar á grænum svæðum og svo framvegis.

Endurheimt vistkerfa, bæði stórra og smárra, hjálpar til við að vernda og bæta líf fólks sem treystir á þau og nýtir gæði þeirra. Endurheimt vistkerfa hjálpar einnig til við að tempra útbreiðslu sjúkdóma, draga úr áhrifum og koma í veg fyrir náttúruhamfarir og getur hjálpað okkur að ná fram öllum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Lauslega þýtt af vef decadeonrestoration.org