land.is
Endurheimt votlendis

Landgræðslan

Gátlisti fyrir forskoðun á endurheimtarsvæði

Heim » Landnýting » Endurheimt votlendis » Gátlisti fyrir forskoðun á endurheimtarsvæði

Gátlisti fyrir forskoðun á endurheimtarsvæði

Tilgangur endurheimtar votlendis/mýrlendis er að fá til baka virkni vistkerfisins, sem hefur raskast við framræslu, að eins miklu marki og mögulegt er. Sú virkni er t.d. geymsla á kolefni, búsvæði lífvera, vatnsmiðlun og vatnsgæði. Til þess að það gerist þarf að hækka grunnvatnshæð upp að yfirborði mýrinnar og næst það með því að tefja/stöðva vatnsrennsli í gegnum svæðið.

 

Lífrænn jarðvegur

Lífrænn jarðvegur er dökkur að lit, hangir vel saman og ef að rýnt er í hann má oft sjá misrotnaðar juraleyfar. Yfirleitt er hægt að sjá í ruðningum og skurðum hvernig jarðvegur er til staðar. Ef að skurðir og ruðningar eru grónir má skafa gróðurhuluna af og skoða jarðveginn vel, líka neðarlega og í botni skurða. Gott er að skoða jarðvegssniðið frá skurðbrún niður í skurðbotn. Mógrafir benda til þess að hátt hlutfall lífræns jarðvegs sé á svæðinu. Oft eru efstu 20-30 cm orðnir mjög umbreyttir/rotnaðir því niðurbrot er hraðast efst, sérstaklega ef að svæðið hefur einhvern tíman verið jarðunnið. Því er mikilvægt að skoða ekki bara jarðveg við yfirborð, heldur skyggnast dýpra.

Dýpt jarðvegs

Fljótlegast er að kanna dýpt jarðvegsins með því að skoða ofan í skurði á svæðinu. Ef að dýpt lífræna lagsins er lítil sést það ofan í þeim, þá er móðurefni eða steinefnajarðvegur í botni eða hliðum skurðar. Einnig er gott að nota dýptarprik og stinga ofan í botninn á skurðinum.

Framræsla

Ef að vatn stendur mjög hátt í skurðum yfir þurra tímann á sumrin og virðist ekki hafa neina afrennsiisleið, má gera ráð fyrir að framræslan sé ekki mjög virk en þrátt fyrir það hafa slíkir skurðir áhrif á vistkerfið sem heild.

Aðkoma vatns

Til þess að mýrlendi myndist á ný þarf aðrennsli vatns að svæðinu að vera tryggt. Oft sjást lækir eða lænur renna í efstu skurðina, á yfirboði eða rétt undir yfirborði en stundum er ekkert sjáanlegt vatn á ferðinni. Þá getur vatnið komið dýpra að og erfitt er að koma auga á það. Ef engin aðkoma vatns er sjáanleg að svæðinu er gott að skoða hvort eitthvað sé óbreytanlegt í nágrenninu, sem hindrar aðrennsli vatns. Til dæmis gæti veglegt vegstæði eða jarðvegsrof (rofið svæði á milli fjallendis og fyrrum mýrlendis) raskað eðlilegu vatnsrennsli.

Halli lands

Vatn nær sér mun frekar á skrið í halla og rofkrafturinn verður mun meiri. Því er erfiðara að endurheimta mýrlendi eftir því sem að hallinn er meiri, sérstaklega í skurðum sem að liggja með hallanum. Ef að skurðir eru þvert á halla eru möguleikarnir meiri. Þetta er þó ekki óyfirstíganlegt vandamál heldur kallar frekar á sniðugar lausnir í samstarfi við verktaka þegar kemur að framkvæmdum.

Ruðningar

Það er hagkvæmara og mun auðveldara að endurheimta mýrlendi ef að ruðningar eru til staðar, þó svo að eitthvað vanti upp á. Þar sem að engir ruðningar eru til staðar er þó vel hægt að ná upp vatnsstöðu innan svæðisins með því að stífla skurði með reglulegu millibili (8-15m).

Samfella svæðis

Hagstæðara er að svæðið sé eins samfellt og hægt er. Endurheimt eins mýrardrags er t.d. mun vænlegri en stakra skurða innan skurðakerfis. Einnig er ákjósanlegt að endurheimta svæði sem að tengja saman náttúruleg og óröskuð mýrlendi við röskuð mýrlendi.

Stærð svæðis

Hagstæðara er að endurheimta stór svæði en lítil, betra eitt stórt en mörg lítil.

Neikvæð áhrif á nærliggjandi svæði

Athuga þarf hvort líkur séu á að endurheimtin geti haft neikvæð áhrif á mannvirki eða möguleika til landnýtingar á aðliggjandi jörðum, t.d. ef fráveituskurður af nærliggjandi landbúnaðarlandi liggur í gegnum endurheimtarsvæðið, skurður liggur meðfram vegi sem ekki má blotna o.s.frv. Þetta er hægt að meta með hæðarlínum á loftmynd af svæðinu ásamt kortlagningu á vatnsflæði í gegnum svæðið.

Minjavernd

Athuga þarf hvort fornminjar séu á svæðinu sem þarfnast verndar við framkvæmd endurheimtar votlendis. Þetta er unnið í samstarfi við Minjastofnun.

Annað

Einnig er gott að hafa í huga hvort að svæðið sé á mikilvægu búsvæði (mikilvæg fuglasvæði má sjá hér: Vistgerðarkort. Athuga þarf hvort fiskgengt sé frá ám/vötnum inn á svæðið/skurðina. Einnig hvort að endurheimt geti nýst til að bæta vatnshag; bæði vatnsgæði og vatnsstöðu í tjörnum, stöðuvötnum, ám og lækjum.