19.08.2019. Endurheimt vistkerfa er náttúruverndaraðgerð – líka á miðhálendi Íslands.

Í Fréttablaðinu í dag er umfjöllun þar sem segir að Landgræðslan telji stofnun miðhálendisþjóðgarðs draga úr möguleikum endurheimtar vistkerfa á miðhálendinu. Það er alls ekki skoðun Landgræðslunnar.

Í umsögn okkar um tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlun við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands (Mál nr. S-111/2019 á samradsgatt.island.is) bendum við hinsvegar á mikilvægi þess að áhersla verði lögð á endurheimt vistkerfa sem hluta af kafla um vernd náttúru og menningarminja hálendisins.

Miðhálendi Íslands er gríðarlega magnað svæði. Landslag þess er fjölbreytt en það sama er ekki hægt að segja um gróðurfarið. Einhverjir kunna að halda að eyðisandar og lítt gróin víðerni séu almennt náttúruleg ásýnd hálendisins er það er ekki alltaf svo. Fyrr á öldum var talsverður hluti eyðisanda og víðerna þess mun meira gróin en síðan þá hefur stærstur hluti gróður- og jarðvegsþekju svæðanna tapast, einkum vegna ósjálfbærrar landnýtingar á svæðum með rofgjörnum jarðvegi, samhliða harðneskjulegu veðurfari og tíðum eldgosum sem sköpuðu aukið álag á vistkerfi hálendisins.

Endurheimt raskaðra vistkerfa snýst um að auka útbreiðslu þess litla gróðurs sem enn er til staðar eða koma gróðurframvindu af stað á ný með lágmarksinngripum og hjálpa þannig náttúrunni að hjálpa sér sjálfri. Þannig er endurheimt vistkerfa náttúruverndaraðgerð sem á allsstaðar við, bæði á hálendi sem láglendi.

Skip to content