Jarðvegur
Jarðvegur lifandi skinn Jarðarinnar
Á yfirborði Jarðar er þunnt lag af jarðvegi, flókin og margvísleg blanda af steinefnum, lofti, vatni, lífrænum leifum og ótal lifandi lífverum. Jarðvegur er ekki alls staðar eins, til eru margbreytilegar útgáfur í heiminum, hver með sína sögu. Jarðvegurinn er lifandi, myndast, eldist og andar. Sífellt verður nýr jarðvegur til og sífellt eyðist af honum. Í þessu þunna en mikilvæga lagi eiga sér stað öll samskipti milli andrúmslofts, vatns og bergs Jarðar. Jarðvegur er undirstaðan fyrir líf á Jörðinni.
Jarðvegur mótast út frá veðurfari, lífverum, landslagi, bergi og tíma. Veðurfar stýrir hvernig bergið veðrast, brotnar niður í smærri einingar eins og sand og silt, og býr til steinefni jarðvegsins. Hitastig stýrir efnahvörfum sem brjóta niður bergið og vatn flytur til steinefni niður í gegnum jarðveginn. Lífverur, sem lifa og róta í jarðveginum, rætur plantna, bakteríur og sveppir, hafa áhrif á jarðveginn og blanda jarðvegsefnum. Landslagið hefur svo áhrif, hvort yfirborð snýr að sólinni og fær meiri hlýju, eða hvort vatn safnast fyrir eða rennur í burtu. Landslagið stýrir því hversu auðvelt er fyrir rof að brjóta niður jarðveginn og hvort steinefni eða lífrænt efni byggist upp eða berst í burtu.
Uppruni steinefna í jarðvegi kemur frá berggrunninum, steinum og berglögum undir yfirborði, eða frá seti sem berst að með vatni eða vindi. Eiginleikar þessa efnis stýra því svo hvaða efna eiginleika steinefni jarðvegsins hafa. Tíminn hefur áhrif, gamall jarðvegur sem hefur verið lengi að myndast og veðrast hefur aðra eiginleika en jarðvegur sem er nýlega byrjaður að myndast. Sem dæmi þegar jöklar hörfa er yfirborð landsins upp við jökulinn einkum þakið steinefnum en eftir því sem tíminn líður, eða lengra frá jökli, safnast fyrir meira lífrænt efni einkum eftir að gróðurþekja byrjar að myndast og eftir langan tíma gæti byggst upp frjósamur jarðvegur.
Eiginleikar jarðvegs
Jarðvegur inniheldur steinefni, lífrænt efni, vatn og loft. Það er blandan af þessu sem stjórnar eiginleikum jarðvegsins, áferð, byggingu, holrými, efnafræði og lit.
Jarðvegur er gerður úr misstórum ögnum. Áferð jarðvegsins stjórnast af stærð þeirra og hlutfalli eða magn hvers stærðarflokks: Sandur, silt og leir agnir og lífrænt efni. Sendinn jarðvegur er grófur viðkomu þegar þú nuddar honum milli fingra þér og dettur gjarnan í sundur. Fínkorna leirjarðvegur er hins vegar mjúkur eins og hveiti eða klístraður og hægt að móta hann í form.
Áferð jarðvegsins hefur áhrif á hversu auðveldlega vatn rennur í gegnum jarðveginn og hversu auðvelt er fyrir plöntur að vaxa. Holrými milli sandkorna eru mun stærri en þau sem eru milli fínna leirkorna. Sendinn jarðvegur getur því tapað sínu vatni auðveldar en fínkorna þéttur jarðvegur með lítið af holrými. Holrými í jarðveginum hafa áhrif á flutning lofts og vatns sem er mikilvæg efni fyrir líf í jarðveginum. Uppbygging jarðvegsins lýsir svo hvernig agnir tengjast og loða saman og safnast saman í stærri einingar eða samkorn. Lífræn efni frá rotnandi plöntu- og dýraleifum og úrgangur frá öðru lifandi jarðvegslífi svo sem frá ormum og bakteríum hafa áhrif til að líma korn saman og mynda samkorn. Uppbygging jarðvegs er mikilvægur eðlisfræðilegur eiginleiki sem hefur áhrif á vatns- og næringarefnaflæði, leiðni á hita og loftun til plantna og örvera. Stór samloðandi korn veita viðnám gegn jarðvegseyðingu og þjöppun. Allt eru þetta mikilvægir þættir sem hafa áhrif á vöxt plantna. Sterk jarðvegsbygging getur veitt nægilegt vatn, næringarefni og súrefni til að styðja við vöxt plantna og nægilegt pláss fyrir rætur til að komast í gegn, en léleg jarðvegsbygging hindrar rótarvöxt, vatnshreyfingu og frárennsli.
Efnafræði jarðvegsins, sýrustig og efnainnihald, næringarefni og magn lífræns efnis hefur síðan lykiláhrif á frjósemi jarðvegsins.
Jarðvegur á Íslandi mótast af eldvirku umhverfi landsins
og telst að stórum hluta til eldfjallajarðar eða Andosol jarðvegsgerðar. Slíkur jarðvegur er fremur ungur og uppruni efnis eru veðruð gosefni (aska, vikur og gjall). Hann er oftast með lága eðlisþyngd, hátt hlutfall lífræns efnis, sýrustig með gildi á bili 5-7, breytilega hleðslu, mikla vatnsheldni, góða vatnsleiðni, skortir samloðun, bindur fosfór, og hefur sérstaka kvika eiginleika eða thixotropy.
Eldfjallajörð er algeng á þeim svæðum í heiminum þar sem eru virk eldfjöll. Jarðvegskort af Evrópu sýnir þó að slík svæði eru oft fremur staðbundin og Ísland er greinilega frábrugðið öðrum löndum Evrópu.