24. mars, 2023

Uppgræðsluaðgerðir í Toddastykki

Árið 2020 veitti Alcoa Foundation Landgræðslunni styrk til þriggja ára að upphæð $300.000, til að stöðva jarðvegsrof og endurheimta vistkerfi á um 42 ha svæði við Háreksstaðaleið á Jökuldalsheiði, í svokölluðu Toddastykki. Í nóvember 2022 voru síðustu uppgræðsluaðgerðir fram-kvæmdar á svæðinu og þar með lauk þessu samstarfs-verkefni Landgræðslunnar og Alcoa.

Áður en til samstarfsins við Alcoa kom hafði verið unnið að uppgræðsluaðgerðum í Toddastykki í samstarfi við Landbótasjóð Norður-Héraðs með notkun tilbúins áburðar og fræs, en árangurinn hafði staðið á sér vegna mikillar jarðvegseyðingar og lauss sands á svæðinu sem kæfði nýgræðinginn, og jarðvegsrofið gekk sífellt lengra inn í gróið land á svæðinu.

Rofabarð sem sýnir virka jarðvegseyðingu

Mikið virkur roftoddi. Mikill gróður er ofan á rofabörðum og í jaðri rofsvæðis, sem tapaðist árlega vegna jarðvegseyðingar. Mynd: HE, sept 2022.

 

Ávinningur af verkefninu er margþættur. Fyrir utan það að sporna við augljósri jarðvegseyðingu svæðisins og þannig viðhalda náttúrulegu vistkerfi Toddastykkis hefur endur-heimtin jákvæð áhrif á dýralíf á svæðinu. Fuglar, t.d.gæsir, hafa verpt í gróðurblettum á svæðinu og svæðið er einnig beitarland fyrir hreindýr sem og sauðfé úr tveimur sveitarfélögum. Landgræðslan hlakkar til að fylgjast með framvindu svæðsins næstu ár og sjá heiðina gróa saman á ný.

Mikill laus sandur við rofabörð

Mikill laus sandur var á rofsvæðum sem fauk auðveldlega til í vindi og gerði nýjum gróðri erfitt fyrir að nema land í rofsárum svæðisins. Mynd EFÞ, júlí 2020.

Heildarstærð svæðisins sem kortlagt var til uppgræðslu-aðgerðanna var 75 ha og innan þeirra voru stór gróðurlítil/laus svæði með miklu rofi, sem og vel- eða algróin mólendissvæði sem áttu undir högg að sækja vegna jarðvegseyðingar. Var aðal áherslupunktur verkefnisins að stöðva jarðvegsrofið úr rofabörðum og jöðrum svæðisins og vernda þau vel grónu, órofnu vistkerfi sem voru á svæðinu.

Við lok verkefnisins hafði verið unnið á 71 ha, þar sem notast var við tilbúinn áburð og fræ en fyrst og fremst snerust aðgerðir að því að brjóta niður rofabörð og þekja þau og nálæg rofsvæði með heyi og hefta með því jarðvegseyðingu og auka stöðugleika jarðvegsins. Unnið var á u.þ.b. 5,5 km af rofabörðum yfir samstarfstímann og 870 heyrúllur voru notaðar í heyþakningu. Að auki var notast við um 48 tonn af tilbúnum áburði og 400 kg af grasfræi.

Þótt aðgerðum sé lokið í bili verður svæðið undir eftirliti á næstu árum svo hægt sé að grípa inn í ef gróðurþekjan fer að gefa eftir eða ef rofabörðin opnast að nýju. Það er einnig líklegt að halda þurfi við uppgræslunum með notkun tilbúins áburðar á komandi árum, en væntingar standa til að þau vistkerfi sem bjargað hefur verið með stöðvun á jarðvegsrofinu geti þjónað sem fræuppsprettur og þannig lokað rofsvæðunum alveg þegar fram líða stundir.

Myndin sýnir ástand svæðisins eftir aðgerðir þar sem rofabörð voru þakin heyi

Rofabörð voru brotin niður og þakin með heyi. Það mun taka tíma fyrir staðargróðurinn að ná jafnvægi en heyið veitir skjól fyrir fræ og minnkar jarðvegsfok á svæðinu. Mynd: HE, sept 2022.

Þú gætir haft áhuga á….

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er ákvörðun

Landgræðslan tók á móti Jafnvægisvoginni, viðurkenningu FKA við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. október

Máttur til mýranna!

Máttur til mýranna!

Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við.