Rannsóknir og landupplýsingar / Hluti af ársskýrslu Lr 2016

Rannsóknastarf hjá Landgræðslunni árið 2016 var með svipuðu sniði og árið áður. Varðandi heildaryfirlit um rannsóknastarf hjá stofnuninni vísast til ársskýrslu stofnunarinnar árið 2015. Á árinu 2016 var haldið áfram vinnu við eftirtalin verkefni:

Colur. Markmið verkefnisins er að meta kolefnisbindingu í landgræðslusvæðum. Þetta er hluti af bókhaldi Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi og árlega er skilað inn bindingartölum til Umhverfisstofnunar sem birtar eru í ársskýrslum um það mál.

ERMOND – Vistheimt gegn náttúruvá. Þetta er samnorrænt verkefni sem hófst árið 2014 og lýkur 2017. Markmið verkefnisins er að kanna leiðir til að efla getu vistkerfa til að draga úr náttúruvá. Nánari upplýsingar er að finna á: http://ermond.land.is/.

Framvinduferli og gróðurmynstur á jökulsöndum. Megintilgangur verkefnisins er að leitast við að skilja hvernig gróðurmynstur verða til og hvað stýrir hraða og stefnu framvindu. Nánari upplýsingar er að finna hér. Verkefnið er hluti af heildarhættumati vegna eldgosa á Íslandi (GOSVÁ) og er styrkt af Ofanflóðasjóði.

Svæði í nágrenni Heklu voru kortlögð með tilliti til þess hversu líkleg þau séu til að standast öskufall frá fjallinu og draga úr öskufoki. Markmið verkefnisins er að endurbæta aðferðir við að græða upp land í nágrenni virkra eldstöðva. Verkefnið hófst árið 2015 og lauk 2016.

Mat á árangri lúpínusáninga. Markmið verkefnisins er að ákvarða; (a) langtímaárangur við lúpínusáningar, samanborið við aðrar landgræðsluaðgerðir, með tilliti til þróunar gróðursamfélaga, kolefnisbindingar og annarra vistþátta og (b) raunkostnað við lúpínusáningar, samanborið við aðrar landgræðsluaðgerðir. Verkefnið er styrkt af Minningarsjóði Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson. Verkefnið er til tveggja ára og söfnun gagna lauk árið 2016. Lokaskýrslu verður skilað 2017.

RECARE. ReCare (Preventing and remediating degradation of soils in Europe through land care), er fimm ára verkefni styrkt af 7. rammaáætlun ESB. Það miðar að því að finna leiðir til að vernda jarðveg og stuðla að því að hann sé nýttur með sjálfbærum hætti. Í verkefninu er lögð áhersla á að tengja vísindaleg þekkingarsvið og auka þannig möguleika okkar á að greina ógnvalda sem lúta að sjálfbærri nýtingu jarðvegs. Landgræðslan kemur að verkþáttum sem snúa að eyðimerkurmyndun og vindrofi. Verkefninu lýkur 2018. Nánari upplýsingar er að finna á: http://www.recare-project.eu/

Skordýrabeit í landgræðsluskógum og lúpínubreiðum. Markmið verkefnisins er að greina áhrif ertuyglu á lúpínu og hvaða þættir hafa áhrif á lífsferil og útbreiðslu ertuylglu. Þetta er doktorsverkefni Brynju Hrafnkelsdóttur við LbhÍ. Verkefnið hófst árið 2011 og lýkur 2018.

Vöktun á áfoki og landbroti við Hálslón. Verkefnið er unnið fyrir Landsvirkjun og markmiðið er að fylgjast með landbroti við strendur Hálslóns í Kringilsárrana og áfoki frá lónstæðinu í Kringilsárrana og við austurströnd Hálslóns. Landgræðslan hefur annast þessa vöktun á undanförnum árum með úttektum og mælingum á vettvangi, auk þess sem sjálfvirk mælitæki sem mæla áfok eru staðsett í Kringilsárrana.

Áhrif áburðargjafar á fræframleiðslu melgresis. Í þessu verkefni eru skoðuð áhrif vaxandi fosfórs á fræframleiðslu og frægæði melgresis. Gagnaöflun lauk árið 2016 og verður lokaskýrsla birt 2017.

Á árinu hófust eftirtalin ný verkefni:
LIBBIO. Þetta er evrópskt rannsóknaverkefni þar sem verið er að kanna möguleika á að rækta andeslúpínu (Lupinus mutabilis) á jaðarsvæðum í Norður Evrópu og Miðjarðarhafslöndum. Verkefnið hófst árið 2016 og lýkur 2020. Í verkefninu verður skoðað hvernig vinna má olíu, prótein og fóður úr andeslúpínu eða nota hana til orkuframleiðslu. Á Íslandi verður áhersla lögð á að kanna möguleika lúpínunnar til vaxtar á rýru landi með það fyrir augum að nýta hana til uppgræðslu eða fóðurframleiðslu. Verkefnið er styrkt af samstarfsneti evrópska lífmassaiðnaðarins, innan H2020 rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins, samkvæmt verkefnissamningi nr. 720726.. Nánari upplýsingar er að finna á: http://www.libbio.net/

Landupplýsingar Landupplýsingadeild Landgræðslunnar heldur utan um landfræðilegan gagnagrunn stofnunarinnar en þar eru m.a. skráðar upplýsingar um uppgræðsluaðgerðir, landgræðslugirðingar, landgræðslusvæði, varnir gegn landbroti og aðrar landupplýsingar sem stofnunin vinnur með. Einnig er unnið að úrvinnslu landupplýsinga, fjarkönnun og kortagerð. Kortlagning landgræðslusvæða er mikilvæg bæði til að meta svæði áður en hafist er handa við endurheimt vistkerfa og einnig til að meta árangur uppgræðsluaðgerða.

Á mynd x má sjá þau svæði sem Landgræðslan hefur kortlagt m.a. með tilliti til gróðurþekju, jarðvegsrofs og mats á árangri aðgerða á síðustu tveimur áratugum en svæði sem kortlögð voru sumarið 2016 eru merkt sérstaklega.
https://land.is/wp-content/uploads/2017/11/kort-full-stærð-1024×714.jpg

Mynd x. Yfirlit yfir svæði sem Landgræðslan hefur kortlagt m.t.t. gróðurþekju, jarðvegsrofs og fleiri þátta, á síðustu tveimur áratugum. Svæði kortlögð sumarið 2016 eru rauð. Námsverkefni og starfsþjálfun nemenda Á árinu dvöldu eftirtaldir erlendir nemar hjá Landgræðslunni: Sebastian Hagemann, BS-nemi við Hochschule Osnabrück, Þýskalandi, dvaldi í Gunnarsholti frá 10. ágúst til 31. október. Hann aðstoðaði við rannsóknir á ertuyglu, áhrifum áburðargjafar á fræmyndun melgresis, lúpínu og áhrifum öskufalls á birki. Julia Klima, landfræðinemi við Háskólann í Leipzig, Þýskalandi, dvaldi í Gunnarsholti frá 17. febrúar til 10. maí. Hún aðstoðaði við kortlagningu á lúpínu, rannsóknir á áhrifum áburðargjafar á fræmyndun melgresis og úrvinnslu jarðvegssýna. Florence Siegenthaler, landfræðinemi við Háskólann Basel, Sviss, dvaldi í Gunnarsholti frá 2. ágúst til 23. september. Hún aðstoðaði við rannsóknir á ertuyglu, áhrifum áburðargjafar á fræmyndun melgresis og úrvinnslu jarðvegssýna. Leena Zoor, MS-nemi við Tækniháskólann í München, Þýskalandi, dvaldi í Gunnarsholti frá 2. ágúst til 23. september. Hún aðstoðaði við rannsóknir á ertuyglu, áhrifum áburðargjafar á fræmyndun melgresis og úrvinnslu jarðvegssýna.

.

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?