Lög og votlendi

Ákvæði laga um náttúruvernd, laga um mat á umhverfisáhrifum og skipulagslaga um vernd votlendis og skyldur sveitarfélaga til að hafa eftirlit með vernd þess.

Lög um náttúruvernd

Í náttúruverndarlögum nr. 60/2013, með síðari breytingum, er votlendi verndað sérstaklega. Í 61. gr. laganna er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa. Í samræmi við 1. mgr. þeirrar greinar njóta ákveðin vistkerfi sérstakrar verndar, í samræmi við markmið 2. gr., sbr. og c-lið 3. gr. laganna. Til verndaðra vistkerfa telst skv. a-lið 1. mgr. vera:

„ … votlendi, svo sem hallamýrar, flóar, flæðimýrar, rústamýrar, 20.000 m² að flatarmáli eða stærri, stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m² að flatarmáli eða stærri, og sjávarfitjar og leirur … “

Í þeirri sérstöku vernd votlendis sem tilvitnuð grein nær til felst, sbr. 3. mgr. sömu greinar, að forðast beri að raska þessum vistkerfum nema að brýna nauðsyn beri til. Skylt er að afla framkvæmdaleyfis eða e.a. byggingarleyfis vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun. Leyfisveitandi skal, áður en leyfi er veitt, leita umsagnar Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefndar nema þá aðeins að slíkar umsagnir liggi þegar fyrir. Ákveði leyfisveitandi að heimila framkvæmd, í bága við umsagnir greindra umsagnaraðila, skal slíkt rökstutt sérstaklega, sbr. 5. mgr. 61. gr. Þá er heimilt að binda leyfi skilyrðum þeim sem nauðsynleg þykja til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun.

Lög um mat á umhverfisáhrifum

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, með síðari breytingum, er fjallað um framkvæmdir tengdar votlendi.

Í 1. viðauka laganna eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum, flokkur A. Þar eru og tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og þá metið í hverju tilviki hvort, m.t.t. tiltekinna þátta, háðar skuli mati á umhverfisáhrifum, flokkar B og C.

Liður 1.04 í 1. viðauka, fellur í flokk B, en undir liðinn falla; Vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þ.m.t. áveitu- og framræsluframkvæmdir, sem hafa áhrif á 3 ha svæði eða stærra eða á verndarsvæðum.

Liður 1.05 í 1. viðauka, fellur í flokk C, en undir liðinn falla; Vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þ.m.t. áveitu- og framræsluframkvæmdir, sem hafa áhrif á allt að 3 ha svæði.

Eins og að ofan greinir felur það að framkvæmd falli í flokk B eða C það í sér að þær kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum, sbr. einnig 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.

Í ljósi ofangreinds falla a.m.k. nýframkvæmdir vegna landbúnaðar, þ.e. þegar ræst er fram land sem flokkast sem votlendi undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

Þegar framræsluframkvæmd hefur áhrif á stærra svæði en 3 ha eða áhrifin eru á land á verndarsvæðum (liður 1.04) þá ber framkvæmdaraðila að tilkynna slíkt til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Þegar framræsluframkvæmd hefur hins vegar áhrif á minna svæði, þ.e. undir 3 ha, (liður 1.05) þá er það að meginstefnu til undir mati sveitarstjórnar komið hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Skv. 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum ber framkvæmdaraðila (þegar framkvæmd er háð framkvæmdaleyfi) að tilkynna framkvæmdina til leyfisveitanda (sveitarstjórn). Skv. 4. mgr. sömu greinar skal, vegna framkvæmda í flokki C sem háð er m.a. framkvæmdaleyfi, sveitarstjórn taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögunum.

Skipulagslög

Í skipulagslögum nr. 123/2010, með síðari breytingum, er fjallað um framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt  1. máls. 1. mgr. 13. gr. laganna skal afla framkvæmdaleyfis vegna meiri háttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þá kemur m.a. fram í 2. mgr. að öll efnistaka á landi sé háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Eiganda eða umráðamanni eignarlands er þó heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða náttúruverndarsvæði eða jarðminjar eða vistkerfi sem njóta verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd.

Í 14. gr. skipulagslaga er fjallað um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmdra. Samkvæmt 1. mgr. er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld.