13. september, 2019

LANDSSÖFNUN Á BIRKIFRÆJUM

13.09.2019 / Nú er hafin landssöfnun á birkifræjum. Það er Landgræðslan, Olís og Hekluskógar sem standa fyrir átakinu. Söfnunin er liður í verkefni sem snýr að endurheimt birkiskóga, en þeir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í uppgræðslu lands og kolefnisbindingu. Söfnunarpokar eru fáanlegir á Olís-stöðvum á Akureyri, Álfheimum, Norðlingaholti, Borgarnesi, Reyðarfirði, Selfossi, Höfn, Hellu, Fellabæ (Egilsstaðir) eða á Húsavík. Þessar sömu stöðvar taka við pokunum þegar fólk er búið að safna fræi í þá. Starfsstöðvar Landgræðslunnar taka einnig við fræpokum.
Ef fólk á þess ekki kost að fara á Olísstöð þá getur það safnað birkifræjum í tau- eða pappírspoka og skilað þeim á fyrrnefnda staði. Safnarar verða að láta miða í pokana þar sem fram kemur hvar á landinu þeir söfnuðu fræinu. Þetta skiptir máli, þar sem ekki er talið ráðlegt að blanda saman mismunandi ættstofnum birkis milli landshluta. Fræið þarf að vera þurrt í pokunum og best er að koma pokunum sem fyrst á söfnunarstaði. Ef söfnunarpokum er ekki skilað inn strax þarf að geyma þá í kæli.
Nöfn þeirra sem safna þurfa líka að fylgja fræpokunum. Átakinu lýkur um miðjan október og þá verður dregið úr nöfnum þeirra sem söfnuðu fræi og vegleg – umhverfisvæn – verðlaun veitt.
Landgræðslan er með starfsstöðvar í Gunnarsholti, Rangárvallasýslu, Keldnaholti í Reykjavík, Sauðárkróki, Hvanneyri, Húsavík og Egilsstöðum. Starfsstöðvarnar eru opnar virka daga á venjulegum skrifstofutíma.
Á heimasíðu Hekluskóga er fínn fróðleikur um söfnun og sáningu birkifræs.
https://hekluskogar.is/frodl…/sofnun-og-saning-a-birkifraei/
Búið er að gera heimasíðu vegna átaksins og er slóðin á hana: https://www.olis.is/birkifrae

Því miður er 2019 ekki gott fræár fyrir birki en þó má víða finna tré með gott fræ. Slakt fræár ætti að vera enn meiri hvatning fyrir fólk til að fara á stúfana og leita uppi falleg tré með gott fræ. Með fræsöfnun hjálpum við náttúrunni til að hjálpa sér sjálfri.

Söfnun birkifræs er góð ástæða til að komast út og njóta fallegra haustdaga. Auk þess er fræsöfnun prýðileg fjölskylduskemmtun og er full ástæða til að hvetja vinnustaði til að fara í fræsöfnunarferðir.
Nánari upplýsingar veitir Áskell í síma 896 3313. Netfang: askell@land.is
………………………………………………………………………………………………………

Hjálpum náttúrunni að hjálpa sér sjálfri
Ein mikilvirkasta aðferðin sem við höfum til kolefnisjöfnunar verndar um leið íslenska náttúru og því mikilvægt að við nýtum okkur hana í sem flestum tilfellum. Þeir sem vilja kolefnisjafna með því að auka bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri eiga að leggja megináherslu á að fjárfesta í aukinni útbreiðslu innlendra tegunda eins og birkis og víðis.

Aukum útbreiðslu birkiskóga og víðikjarrs
Það eru gríðarlegir möguleikar til að auka útbreiðslu birkiskóga og víðikjarrs hérlendis. Gögn Landgræðslunnar sýna að neðan 600 metra hæðar yfir sjávarmáli eru allt að 15 þúsund ferkílómetrar af röskuðu landi og mikið af því er enn að eyðast og tapa kolefni.

Innlendar tegundir eru aðlagaðar aðstæðum á Íslandi
Stóraukin útbreiðsla innlendra trjátegunda er mjög öflug leið til að draga úr og aðlagast áhrifum loftlagsbreytinga. Samhliða er það náttúruverndaraðgerð sem felur í sér fjölbreyttan umhverfisávinning, er hlutfallslega ódýr, auðveld í framkvæmd og allir geta tekið þátt. Innlendar tegundir eins og birki, gulvíðir og loðvíðir eru aðlagaðar aðstæðum á Íslandi og búa yfir miklum erfðabreytileika sem nauðsynlegt er að vernda. Fjölbreytileikinn er mikilvæg trygging gagnvart áföllum eins og náttúruvá af ýmsum toga.

Kolefnisjöfnun og náttúruvernd
Íslendingar eiga hiklaust að virkja getu náttúrunnar til að græða sig sjálf. Það er nóg að sá birkifræi eða gróðursetja í 5-10% af flatarmáli þess landssvæðis sem á að endurheimta og búa þannig til fræuppsprettur innan þess. Náttúran mun svo sjálf taka við og sjá til þess að með tímanum mun birki og víðir vaxa um allt svæðið. Þetta tekur aðeins örfáa áratugi, eina sem þarf að gera er að friða landið gegn sauðfjárbeit. Kostnaður við þessa aðgerð fer eftir ástandi landsins sem á að endurheimta og er á bilinu 40.000-200.000 kr á hektara.

1000 ferkílómetra aukning fyrir árið 2030?
Við berum öll samfélagslega ábyrgð á að draga úr og sporna við áhrifum loftlagsbreytinga og endurheimt birkiskóga og víðikjarrs er áhrifaríkasta aðgerðin sem við getum beitt hérlendis. Við eigum að taka þetta verkefni saman í fangið og setja okkur metnaðarfullt markmið um að stórauka útbreiðslu birkiskóga og víðikjarrs, helst um 1000 ferkílómetra fyrir árið 2030. Það er vel hægt ef við leggjumst öll á eitt.

Efnisorð:

Þú gætir haft áhuga á….

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er ákvörðun

Landgræðslan tók á móti Jafnvægisvoginni, viðurkenningu FKA við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. október

Máttur til mýranna!

Máttur til mýranna!

Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við.