Landhelgisgæslan hjálpar til við verndun og endurheimt birkiskóga.

12.08.2022

Nýverið flutti þyrla Landhelgisgæslunnar heyrúllur í rofabörð í Þjórsárdal og hjálpaði þannig Landgræðslunni að græða upp eyðijörðina Áslákstungur.

Í Áslákstungum stóð eitt af mörgum býlum í Þjórsárdal sem lögðust í eyði eftir Heklugosið 1104 og þar eru stórar birkitorfur, sem eiga í vök að verjast vegna rofs. Í sumar tókst að flytja heyrúllur upp í torfurnar með þyrlu Landhelgisgæslunnar sem nýtti verkið til æfinga. Búið var að flytja heyrúllur á svæðið en sökum þess hve bratt er að torfunum er ekki hægt að koma þar að vinnuvélum. Þyrlan flutti 16 rúllur upp í börðin þar sem handdreift var úr þeim yfir vikurborinn jarðveg. Góð reynsla er af uppgræðslu rofabarða með heyrúllum og sérstaklega er það ákjósanlega aðferð þar sem land er bratt og vikurborið eins og víða í nágrenni Heklu. Með því að loka jarðvegssárunum eru skapaðar aðstæður fyrir birkið og aðrar plöntur að nema land og vaxa.

Skógartorfurnar í Áslákstungum hafa lifað af gegnum aldirnar og staðist mörg Heklugos og aðrar náttúruhamfarir. Mikilvægt er að vernda og hlúa að þeim birkiskógum sem eftir eru á Íslandi, vitandi að mest af þeim hafa eyðst í aldanna rás og er verkefnið liður í því.

Talsverður skógur er í Þjórsárdal en mest af honum hefur verið ræktaður síðustu áratugina eftir að hluti dalsins var friðaður árið 1939.

Sigþrúður Jónsdóttir, beitarsérfræðingur hjá Landgræðslunni

Landhelgisgaesla med heyrullu

Við landnám er talið að Þjórsárdalur hafi verið skógi vaxinn og þar var blómleg byggð þar til eftir Heklugosið mikla 1104. Lífsbjörgin sem byggði á landkostum eyðilagðist, þegar gróðurinn huldist gjósku  og uppblásturinn hófst.

Í kjölfar gossins fóru allir bæir dalsins í eyði nema Skriðufell, Ásólfsstaðir og Sandártunga. Sandártunga fór í eyði eftir Heklugosið 1693. Fleiri Heklugos hafa spillt gróðri dalsins og hindrað búsetu. Einn af bæjunum sem fóru í eyði 1104 eru Áslákstungur en þar eru enn allstórar birkitorfur sem hafa lifað af gegnum aldirnar og staðist mörg Heklugos og aðrar náttúruhamfarir.

Þrátt fyrir það að byggðin eyddist, lifði skógurinn víða af  og var dalurinn áfram nýttur til beitar og skógar til eldiviðar og kolagerðar. Hefur það lagt til með náttúrulegum eyðingaröflum, eins og gjóskufalli, kólnandi veðri, og jafnvel riðið  baggamuninn hvort jafnvægi næðist á ný eða ekki.

Stærstur hluti skógarins sem óx í Þjórsárdal forðum er horfinn. Þar eru þó mörg örnefni sem kennd eru við skóga sem segja sína sögu. Stærstu birkiskógarnir á svæðinu í dag eru Búrfellsskógur, skógurinn í Dímoni og í Áslákstungum og eru þetta allt gamlir skógar. Aðrir skógar eru afar litlir en þó hafa þeir breiðst út og stækkað hin síðari ár. Má þar nefna Gjáskóga.

Formleg skógrækt hófst Í Þjórsárdal 1938/9 og stór hluti dalsins var friðaður og hefur mikið verið plantað af öðrum trjátegundum, bæði barr- og lauftrjám sem og birkikvæmum frá öðrum stöðum. Nú er Þjórsárdalur hluti af Hekluskógum.

Í Áslákstungum hefur ekki verið sáð né plantað svo vitað sé, eins og víða annars staðar í dalnum. Gamlar birkiskógarleifar eins og þær sem eru að finna í Áslákstungum eru mjög mikilvægar vegna þess erfðarefnis sem í þeim er að finna og því mikilvægt að vernda þær og ýta undir útbreiðslu birkis frá þeim.

Árið 2021 var ákveðið var að ráðast í að bjarga birkitorfunum í Álákstungum en það er ekki einfalt verkefni, þar sem mjög bratt er af þeim, jarðvegur vikurborinn og laus og ógjörningur að koma að dráttarvélum. Þegar Landhelgisgæslan óskaði eftir verkefni hjá Landgræðslunni árið 2021, en hún þarf sífellt að æfingum að halda, opnaðist leið til að flytja heyrúllur upp í börðin. Var það gert um miðjan júlí í sumar. Síðar var dreift úr rúllunum með handafli yfir rofna svæðið.  Þessi aðgerð er aðeins byjunin á verkefninu því torfurnar eru nokkrar, aðskildar með lækjum. Vonast er til þess að með tímanum takist að græða sárin svo birkið nái að dreifa úr sér á ný.

Tekid a moti heyrullu
rofid land thjorsardalur

Framkvæmdarsvæðið í Áslákstungum.

Starfsstöðvar

Starfsfólk

Um okkur

Rafrænir reikningar

Skýrslur

Leiðbeiningar

Landupplýsingar

Landbótasjóður

Gæðastýring í sauðsfjárrækt

Bændur græða landið

Varnir gegn landbroti

Endurheimt votlendis

Hagagæði

GróLind

Lagaumhverfi

Auglýsingar

Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659

Skip to content