Landverndarsvið Landgræðslunnar

Ársskýrsla 2017

Bændur græða landið (BGL)
Verkefnið Bændur græða landið hefur verið unnið í samstarfi Landgræðslunnar og bænda allt frá árinu 1990. Tilgangur verkefnisins er að stöðva jarðvegsrof í heimalöndum bænda, þekja land gróðri og gera það nothæft á ný til landbúnaðar eða annarra nota. Skilyrði fyrir þátttöku er að uppgræðslulandið sé lítt eða ekki gróið og að það sé friðað fyrir beit eða að beitarálag sé hóflegt. Landgræðslan greiðir bændum 85% áburðarkostnaðar og leggur til fræ eins og þörf er á. Landgræðslan veitir bændum auk þess ráðgjöf og hefur eftirlit með framkvæmd verkefnisins. Bændur annast sjálft uppgræðslustarfið og greiða 15% áburðarkostnaðar. Sjá ársskýrslu BGL fyrir árið 2017.

Framkvæmd verkefnisins
Þátttaka bænda í BGL er dreifð um landið, þó hún sé  tiltölulega minni á eldgosabeltinu þar sem jarðvegsrof og gróðureyðing er þó yfirleitt meiri en annars staðar. Ástæðan er líklega sú að á þeim svæðum er mun meira um aðrar landgræðsluaðgerðir, m.a með tilstyrk Landbótasjóðs Landgræðslunnar. Árið 2017 var unnið að uppgræðslu 5.320 ha í verkefninu sem er nokkur aukning frá 2016 (Sjá töflu 1 sem er neðst á síðunni) og frá upphafi má gera ráð fyrir að BGL bændur hafi grætt upp 35 – 40.000 ha.

Landbótasjóður Landgræðslunnar (LBS)
Með Landbótasjóði Landgræðslunnar er m.a. leitast við að færa ábyrgð og framkvæmd landgræðsluverkefna heim í hérað. Við styrkveitingar er lögð áhersla á stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og endurheimt gróðurs, jarðvegs og votlendis. Auk þess er lögð áhersla á sjálfbæra landnýtingu og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi. Við styrkveitingar er að jafnaði gengið út frá að umsækjandi hafi gert landbótaáætlun til a.m.k. þriggja ára. Sjá ársskýrslu Landbótasjóðs fyrir árið 2017.

Umsóknir og úthlutun
Alls bárust 90 umsóknir árið 2017 en voru 92 árið 2016. Árið 2017 voru veittir 87 styrkir að upphæð 73,7 m.kr. og unnið var á tæplega 7.000 ha sem er aukning frá fyrra ári (tafla 1).

Landgræðslusvæði
Landgræðslan vann árið 2017 að uppgræðslu svæða sem eru í umsjá stofnunarinnar. Í flestum tilfellum er um að ræða svæði þar sem er mikið virkt jarðvegsrof og svæðin því erfið viðureignar. Við uppgræðslu svæðanna eru notaðar margvíslegar aðferðir s.s. sáning á melgresi, lúpínu, túnvingli og beringspunti en einnig er gróður styrktur með áburðargjöf (tilbúinn og lífrænn áburður). Þá er einnig talsvert plantað af trjám í valin svæði. Alls var unnið á tæplega 3.175 ha á árinu 2017 (tafla 1). Sjá nánar ársskýrslu fyrir uppgræðslur 2017.

Girðingar
Landgræðslan hefur á sínum snærum um 100 afgirt svæði og nemur lengd girðinga um 862 km. Flestar eru girðingarnar á Norðurlandi eystra og Suðurlandi, enda eru stærstu uppgræðslu- og uppblásturssvæði landsins í þeim landshlutum. Hefðbundið viðhald fer fram á þessum girðingum árlega og árið 2017 voru 10 km endurnýjaðir og 6 km girtir af nýgirðingum. Engar girðingar voru lagðar af á árinu. Innan girðinga Landgræðslunnar eru um 250.000 hektarar lands.

Frævinnsla
Landgræðslan starfrækir fræverkunarstöð í Gunnarsholti og meginhlutverk hennar er ræktun og verkun fræs af ýmsum tegundum platna til uppgræðslu. Fræverkunarstöðin hefur um langt skeið framleitt mest af því fræi sem notað er í landgræðslu hér á landi. Fræ af helstu uppgræðslutegundum, þ.e. melgresi, túnvingli og alaskalúpínu er af innlendum uppruna, en annað landgræðslufræ, s.s. vallarsveifgras og rýgresisfræ er innflutt. Árið 2017 var uppskorið fræ af beringspunti (1,7 tonn), túnvingli (6,4 tonn), alaskalúpínu (4,1 tonn) auk þess sem fræi af snarrót var safnað til þess koma upp fræakri 2018. Vegna góðrar birgðastöðu af melgresisfræi var því ekki safnað 2017. Þá var sáð í 25 hektara af íslenskum túnvingli. Á árinu var einnig tekinn í notkun frækælir en hann bætir aðstöðu Landgræðslunnar til þess að geyma fræ á milli ára verulega.

Varnir gegn landbroti (VGL)
Tilgangur laga nr. 91/2002 um varnir gegn landbroti er að vinna gegn landbroti eða öðru tjóni á landi, landkostum eða mannvirkjum af völdum vatna og fer Landgræðslan með framkvæmd laganna. Heimilt er að styrkja verkefni sem ætlað er að vernda mannvirki í eigu einkaaðila og skal þá auglýsa eftir umsóknum um slíka styrki. Hámarksupphæð slíkra styrkja er kr. 3.000.000.

Verkefni í VGL skiptast einkum í bakkavarnir og varnargarða, en sjaldnar er unnið að öðrum verkefnum s.s. tilflutningi farvega eða öðru slíku. Árið 2017 var unnið að 18 verkefnum en árið 2016 voru þau 16. Um haustið urðu mikil flóð í á á Suðausturlandi í kjölfar mikillar úrkomu og fóru margir varnargarðar mjög illa. Ríkisstjórnin veitti 140 m.kr. til endurbóta á görðunum og hófust framkvæmdir í lok árs 2017 en gert er ráð fyrir að þeim ljúki 2018. Sjá nánar ársskýrslu VGL fyrir árið 2017.

Gæðastýring í sauðfjárframleiðslu
Landgræðslan hefur í umboði Matvælastofnunar annast landnýtingarþátt Gæðastýringar í sauðfjárrækt, skv. stjórnsýslusamningi frá í júní 2014.

Fjöldi þátttakenda í gæðastýringunni árið 2017 var um 1.800 líkt og undanfarin ár.

Árlega er framkvæmt eftirlit með ákveðnum fjölda þátttakenda í gæðastýringunni. Eftirlitinu er þannig háttað að hluti þátttakenda er valin úr í tilviljanakenndu úrtaki. Árið 2017 sinnti Landgræðsla ríkisins eftirliti með landnýtingu skv.  reglugerð 1160/2013 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu með síðari breytingum. Haft var eftirlit með framkvæmd 47 landbótaáætlana, farið í 22 ferðir til þess að meta ástands gróðurs á afréttum og árangur landbótaaðgerða metinn á 7 afréttum.

Hagagæði
Landgræðslan hefur frá árinu 2000 annast landnýtingarþátt Gæðastýringar í hrossarækt í samvinnu við Fagráð í hrossarækt og Félag hrossabænda. Verkefnið var lagt niður 2016 en í byrjun árs 2017 settu Félag hrossabænda og Landgræðslan af stað verkefnið Hagagæði sem fjallar um landnýtingu og úttektir á hrossahögum. Verkefnið snýst um að hrossabændur og aðrir sem halda hross geti með formlegum hætti fengið staðfest að landnýting þeirra sé sjálfbær og ef ekki fengið leiðbeiningar um úrbætur. Árið 2017 var fyrsta ár verkefnisins og þátttakendur voru 44. Vonir standa til að þátttakendum fjölgi á næstu árum, sértaklega má nefna að eftirsóknarvert væri fyrir þá sem halda hross í atvinnuskyni að fá viðurkenningu fyrir sjálfbæra landnýtingu.

Endurheimt votlendis
Votlendi eru mikilvæg búsvæði fugla, smádýra og plantna. Þau geyma einnig mikið af kolefni sem losnar út í andrúmsloftið við framræslu. Áætlað hefur verið að árleg losun geti numið um 24,5 koltvísýringsígilda á hektara. Það er því til mikils að vinna með endurheimt votlendis, bæði með tilliti til loftslagsmála og lífríkis.  Vorið 2016 var Landgræðslu ríkisins falin framkvæmd endurheimtar votlendis í samræmi við sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Árið 2017 var unnið að þróun vöktunaráætlunar vegna þeirra breytinga sem verða á svæðum við endurheimt votlendis. Þá var unnið að kynningu á verkefninu og samstarfi af ýmsum toga s.s. undirbúningi að stofnun Votlendissjóðs.

Aðgerðir í hekturum eftir verkefnum og árum / TAFLA 1
Ártal Landgræðslusvæði Landbótasjóður Landgræðslunnar Samstarfsverkefni BGL Samtals
2017 3.175 6.998 3.294 5.320 18.787
2016 2.794 6.529 3.609 4.950 17.882
2015 1.235 3.028 3.962 5.154 13.379
2014 1.730 3.130 3.238 5.036 13.133
2013 1.553 2.957 3.528 5.195 13.233
2012 2.298 3.034 3.046 5.271 13.648

 

Birt á heimasíðu Landgræðslunnar í apríl 2018.

Skip to content