Rannsóknir og landupplýsingar / Hluti af ársskýrslu Lr 2015

Rannsóknir hafa verið hluti af landgræðslustarfi um áratuga skeið. Sú þekkingaröflun hefur endurbætt aðferðir við landgræðslu og stuðlað að aukinni þekkingu á ástandi gróðurs og jarðvegs, ferlum hnignunar og uppbyggingar vistkerfa og á árangri landgræðslustarfs. Á árunum 1995-2015 var unnið að um 50 rannsóknaverkefnum á vegum stofnunarinnar. Flestum þessara verkefna er lokið. Alls hafa verið gefin út um 150 rit (skýrslur, ritrýndar greinar, bókarkaflar og bækur) þar sem niðurstöður þessara verkefna eru kynntar. Þessi rannsóknaverkefni skiptast í þrjá meginflokka:

• Rannsóknir á aðferðum og tegundum til landgræðslu – 19 verkefni. Undir þann flokk falla meðal annars rannsóknir á áburði til landgræðslu.
• Landgræðsluvistfræði – 21 verkefni. Þar er meðal annars verið að rannsaka framvindu gróðurs og annarra vistþátta á svæðum sem eru að gróa upp.
• Vöktun og árangursmat – 12 verkefni. Dæmi um slík verkefni eru rannsóknir á kolefnisbindingu í landgræðslusvæðum.

Á árinu 2015 var haldið áfram vinnu við verkefnin ERMOND, RECARE, Hagavist og Framvinduferli og gróðurmynstur á jökulsöndum. Verkefnunum Flagmóar, Hversu lítið er nóg og Tilraun með lífrænan áburð lauk á árinu. Nánari lýsing á þessum verkefnum er í Ársskýrslu Landgræðslunnar 2014.

Á árinu hófust eftirfarandi ný verkefni:
GróGos. Verkefnið er hluti af heildarhættumati vegna eldgosa á Íslandi (GOSVÁ) og er styrkt af Ofanflóðasjóði. Þetta er tveggja ára verkefni þar sem svæði í nágrenni Heklu eru kortlögð með tilliti til þess hversu líkleg þau séu til að standast öskufall frá fjallinu og draga úr öskufoki. Markmið verkefnisins er að endurbæta aðferðir við að græða upp land í nágrenni virkra eldstöðva. Gagnasöfnun lýkur árið 2016 og lokaskýrsla kemur út í byrjun árs 2017.

Mat á árangri lúpínusáninga. Markmið verkefnisins er að ákvarða; (a) langtímaárangur við lúpínusáningar, samanborið við aðrar landgræðsluaðgerðir, með tilliti til þróunar gróðursamfélaga, kolefnisbindingar og annarra vistþátta og (b) raunkostnað við lúpínusáningar, samanborið við aðrar landgræðsluaðgerðir. Verkefnið er styrkt af Minningarsjóði Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson. Verkefnið er til tveggja ára og söfnun gagna lýkur árið 2016. Lokaskýrsla mun koma út í byrjun árs 2017.

Landupplýsingar
Landupplýsingadeild Landgræðslunnar heldur utan um landfræðilegan gagnagrunn stofnunarinnar en þar eru m.a. skráðar upplýsingar um uppgræðsluaðgerðir, landgræðslugirðingar, landgræðslusvæði, varnir gegn landbroti og aðrar landupplýsingar sem stofnunin vinnur með. Einnig er unnið að úrvinnslu landupplýsinga, fjarkönnun og kortagerð m.t.t. gróðurþekju, jarðvegsrofs og mats á árangri aðgerða. Helstu kortlagningarverkefni á árinu voru á Mýrdalssandi og Tunguheiði, í Skógey í A-Skaftafellssýslu, innan Vatnsbæjagirðingar í N-Þingeyjarsýslu, við Þeistareyki og við Kot og Steinkross í Rangárvallasýslu. Jafnframt var unnið áfram fyrir Landsvirkjun að vöktun á áfoki frá lónstæði Hálslóns.

Námsverkefni og starfsþjálfun nemenda
Á árinu dvöldu fjórir erlendir nemar hjá Landgræðslunni, einn postdoc-nemi, tveir nemar sem voru að vinna að námsverkefnum og einn nemi sem var í starfsnámi. Þetta voru eftirtaldir aðilar:
Alban de Lavenne, postdoc-nemi, dvaldi á Íslandi í maí og þar af eina viku í Gunnarsholti. Hann kom hingað á styrk frá COST ES1104 verkefninu og vann að samantekt á rannsóknum sem hafa farið fram, eða standa enn yfir, á Rangárvöllum og Hekluskógasvæðinu í samstarfi við Jóhann Þórsson og David Finger hjá Háskólanum í Reykjavík. Niðurstöður þessa verkefnis er Rangárvellir Metadatabase

Berit Hockauff nemi við Anhalt University of Applied Sciences í Þýskalandi vann að rannsóknarverkefni á dreifingu birkis og víðis á tímabilinu ágúst- september undir umsjón Ásu L. Aradóttur, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands. Jafnframt námsverkefni sínu þá tók hún þátt í ýmsum öðrum verkefnum.

Lieke Moonen, nemi við University of Amsterdam, vann að meistaraverkefni undir leiðsögn Jóhanns Þórssonar þar sem hún skoðaði árangur uppgræðslna við Þorlákshöfn, bæði með tilliti til jarðvegs- og gróðurbreytinga, en einnig félagslegra þátta. Hún dvaldi hér frá byrjun september til loka nóvember. Jafnframt námsverkefni sínu þá tók hún þátt í ýmsum öðrum verkefnum.

Nina Büttner nemi við Hochschule für nachhaltige Entwicklung, Eberswalde í Þýskalandi dvaldi hér í september og fram í byrjun desember. Nina aðstoðaði við útivinnu í ýmsum verkefnum og úrvinnslu sýna.

Skip to content