Eyvindarstaðaheiði

land.is 9 Heim 9 Málaflokkar 9 Gróðurframvinda 9 Eyvindarstaðaheiði

Eyvindarstaðaheiði

Eyvindarstaðaheiði er víðáttumikið afréttarland norðan Hofsjökuls og tilheyrir bæði Skagafjarðar- og Austur-Húnavatnssýslu. Stærstur hluti heiðarinnar liggur í 400- 600 metra hæð yfir sjó. Girðing skiptir heiðinni innan Austur-Húnavatnssýslu í tvennt og liggur frá Hofsjökli, norður á Haukagilsheiði og niður í Stafnsgil. Fjöldi sauðfjár og hrossa gengu áður á heiðinni og hófst beitartími um leið og gróður fór að lifna á vorin. Með tilkomu girðinga og beitarstýringar hefur dregið mikið úr beitarálagi á Eyvindarstaðaheiði. Sauðfé hefur fækkað umtalsvert frá því það var flest um 1980 og hross voru síðast rekin á heiðina árið 2007.

Uppgræðslusvæði heiðarinnar eru milli áðurnefndrar girðingar og Blöndu að vestan. Blönduvirkjun tók til starfa árið 1991 og í aðdraganda hennar var Blanda stífluð við Reftjarnarbungu. Þá myndaðist 57 km2 uppistöðulón, þriðja stærsta stöðuvatn landsins. Mest af því svæði, sem fór undir lónið voru grónustu hlutar Eyvindarstaða- og Auðkúluheiða. Samkvæmt samningum milli Landsvirkjunar og umráðamanna Eyvindarstaðaheiðar, skal Landsvirkjun kosta uppgræðslu lands í stað þess gróðurlands, sem tapaðist vegna virkjunarframkvæmda í Blöndu.

Árið 1981 hófst uppgræðsla örfoka lands á Eyvindarstaðaheiði. Landgræðslan annast ráðgjöf, eftirlit og umsjón með uppgræðsluaðgerðum. Um 60% lands á Eyvindarstaðaheiði milli afréttargirðingar og Blöndu telst auðnir eða rýrt land. Alvarlegasta rofið eru sandmelar, um 285 km2. Nokkuð áfok er frá lónsstæðinu inn á vatnsbakkann þegar lónið er ekki fullt, sem oft gerist á síðari árum. Stundum veldur áfokið skemmdum á grónu landi. Á fyrstu árum uppgræðslunnar var áburðarflugvélin Páll Sveinsson aðallega notuð til áburðardreifingar. Notkun traktora jókst þó smám saman og árið 2002 var síðasta ár áburðarflugsins. Síðan hefur eingöngu verið dreift með traktorum, enda greiðfært víða um heiðina og þægilegt að nota traktora við áburðar- og frædreifingu.

Árlega er 120 tonnum af einkorna, þrígildum áburði dreift á um 600 hektara ógróins eða lítt gróins lands. Miðað er við að dreifingu sé lokið eigi síðar en 1. júlí ár hvert. Stærstu uppgræðslusvæðin eru á Kurrbrandsmýrum, Safnási, Galtarárdrögum og á Öfuguggavatnshæðum. Nokkur ár tekur að koma gróðri af stað við ríkjandi aðstæður, landið er gróðurvana, liggur hátt yfir sjó og veður þurrviðrasöm. Lítill árangur sést fyrstu þrjú árin en eftir það fer að myndast gróðurhula. Jarðvegur er nú farinn að myndast á elsta hluta uppgræðslusvæðanna. Um leið eykst rakaheldni og frjósemi jarðvegsins. Staðargróður tekur að nema land í uppgræðslum, sem ekki er lengur borið á.

Eftir því sem uppgræðslusvæðin eflast virðist fé jafnast um heiðina og svæði misjafnlega vel gróin staðargróðri hafa tekið við sér. Einkum virðast víðitegundir breiðast út og nema land í vaxandi mæli. Um árabil hefur veður farið hlýnandi og verið gróðri hagfelldara en áður var. Gríðarlega miklar, samfelldar auðnir bíða landbóta á Eyvindarstaðaheiði.

Starfsstöðvar

Starfsfólk

Um okkur

Rafrænir reikningar

Skýrslur

Leiðbeiningar

Landupplýsingar

Landbótasjóður

Gæðastýring í sauðsfjárrækt

Bændur græða landið

Varnir gegn landbroti

Endurheimt votlendis

Hagagæði

GróLind

Lagaumhverfi

Auglýsingar

Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659

Skip to content