land.is 9 Heim 9 Málaflokkar 9 Endurheimt votlendis

Votlendi

Votlendi geyma verulegan hluta kolefnisforða jarðar. Þau eru mikilvæg búsvæði plantna, fugla, fiska og smádýra, bæta vatnsbúskap jarðar og geta jafnað vatnsrennsli og þannig minnkað hættu á flóðum, sveiflum í vatnsrennsli og jarðvegsrofi. Þvi er mikilvægt að vernda votlendi og endurheimta röskuð votlendi sem ekki er verið að nýta.

Á mörgum svæðum hefur dregið úr nýtingu framræst lands. Þessum svæðum er kjörið að koma aftur í sitt náttúrulega horf. Með endurheimt votlendis er leitast við að koma vatnsbúskap svæðis sem næst því sem áður var. Í kjölfarið má svo gera ráð fyrir að lífríki færist til fyrra horfs og að jöfnuður gróðurhúsalofttegunda verði jákvæður. Endurheimt votlendis getur aukið útivistargildi svæða, t.d. aukið möguleika til fuglaskoðunar og bætt skilyrði til veiða. Mjög misjafnt er þó hversu vel svæði henta til endurheimtar. Í sumum tilvikum er torsótt að koma vatnsbúskap í fyrra horf.

Landgræðslan hefur umsjón með framkvæmd endurheimtar votlendis

Í ársbyrjun 2016 fól umhverfisráðuneytið Landgræðslunni umsjón með framkvæmd endurheimtar votlendis í samræmi við sóknaráætlun Íslands í loftlagsmálum.

Votlendi gegnir ýmsum mikilvægum hlutverkum

Talið er að votlendi þeki um 20% af grónu flatarmáli Íslands. Votlendi gegnir ýmsum mikilvægum hlutverkum og því ætti að varast að raska því, nema þá aðeins að brýna nauðsyn beri til. Jarðvegur þar er mjög kolefnisríkur. Kolefni safnast fyrir í jarðvegi mýrlendis, sem lífrænt efni, vegna þess að þar eru aðstæður vatnsmettaðar og súrefnissnauðar. Þar eru aðstæður óhliðhollar rotverum og sá lífræni massi sem að fellur til ár hvert brotnar ekki niður nema að litlu leiti en safnast þess í stað upp. Við framræslu votlendis lækkar vatnsyfirborð, jarðhiti hækkar og súrefni verður aðgengilegt. Þetta verður til þess að lífrænt efni, sem hefur safnast upp árhundruðum saman, tekur að brotna niður með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Vísindanefnd Ramma-samnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur áætlað að sú losun sé um 24,5 koltvísýringsígildi á hektara á ári og vegna þess hversu stór hluti votlendis Íslands er raskað er áætlað að um 70 % af losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hér á landi sé frá framræstu votlendi.

Yfir 90% íslenskra varpfugla, farfugla og vetrargesta byggja afkomu sína að einhverju leiti á votlendi

Votlendi eru mikilvæg búsvæði ýmissa lífvera. Þar má helst nefna fugla, en yfir 90% íslenskra varpfugla, farfugla og vetrargesta byggja afkomu sína að einhverju leiti á votlendi. Því er verndun og endurheimt votlendis mjög mikilvæg út frá sjónarhorni líffræðilegs fjölbreytileika. Votlendi gegnir líka mikilvægu hlutverki við miðlun og temprun vatns og næringarefna og gott ástand þeirra minnkar hættu á flóðum, sveiflum í vatnsrennsli og jarðvegsrofi.

Um 50% votlendis á Íslandi, hefur verið raskað með framræslu

Á fjölmörgum svæðum hefur dregið úr nýtingu framræsts lands. Ætla má að um 50% votlendis á Íslandi, eða um 4.200 km² hafi verið raskað með framræslu. Af því eru um 520 km² tún og annað ræktarland og um 36 km² skóglendi. Framræst land utan túna og skóglendis er því áætlað um 3.600 km² og fjölmörg tækifæri til að koma því landi sem ekki er í nýtingu í sitt náttúrulega horf. Með því að endurskipuleggja skurðakerfin má í mörgum tilvikum bæta framræslu þess landbúnaðarlands sem þörf er á til virkrar framleiðslu en um leið auðvelda endurheimt stórra landsvæða. Með endurheimt votlendis er leitast við að koma vatnsbúskap svæðis sem næst því sem áður var. Í kjölfarið má svo gera ráð fyrir að lífríki færist til fyrra horfs og að verulega dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Sveitarstjórnir í lykilhlutverki

Samhliða því að endurheimta votlendi er mjög mikilvægt að raska ekki því votlendi sem óraskað er, nema þá aðeins að brýna nauðsyn beri til og að uppfylltum lagareglum. Vissulega kann að vera heimilt að veita vatni af landi í einhverjum tilvikum, sbr. t.d. 78. gr. vatnalaga nr. 15/1923, með síðari breytingum. Ávallt verður þó að taka tillit til annarra laga, enda í lögum að finna ákvæði er takmarka landþurrkun og/eða gera hana leyfisskylda. Þegar hugmyndir um landþurrkun kom upp er mikilvægt að gæta að þeim lögum sem fjalla um það málefni svo tryggt sé að rétt sé staðið að málum og að allir hagsmunir séu metnir áður en komist er að niðurstöðu í hverju fyrirliggjandi máli. Þar eru sveitarstjórnir í lykilhlutverki.

 

Endurheimt votlendis. Leiðbeiningarrit fyrir framkvæmdaraðila
Ferli endurheimtar votlendis hjá Landgræðslunni í samstarfi við landeigendur
  • Landgræðslan kemur í heimsókn og samningur er undirritaður.
  • Landgræðslan kortleggur svæðið.
  • Landgræðslan. í samstarfi við landeigendur. sækir um framkvæmdarleyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi.
  • Verktaki er fundinn í verkið.
  • Landgræðslufulltrúi leiðbeinir verktaka um hvernig skal að verki staðið.
  • Allur framkvæmdarkostnaður er greiddur af Landgræðslunni.
  • Landgræðslan kortleggur svæðið aftur eftir framkvæmd.
  • Ári seinna tekur Landgræðslan út svæðið til að athuga hvort eitthvað þurfi að lagfæra.
  • Ef landeigendur kjósa þá er hægt að taka þátt í að fylgjast með vatnshæð og þróun lífríkis með því að taka myndir og senda Landgræðslunni.

Ekki er framkvæmt fyrr en eftir fuglavarptíma, þá í fyrsta lagi í ágúst.

Gátlisti fyrir forskoðun á endurheimtarsvæði

Ársskýrsla, fréttabréf og skjöl

 

Landgræðslan auglýsir eftir samstarfi við landeigendur

ENDURHEIMT VOTLENDIS
Opna rafræna umsókn

Starfsstöðvar

Starfsfólk

Um okkur

Rafrænir reikningar

Skýrslur

Leiðbeiningar

Landupplýsingar

Landbótasjóður

Gæðastýring í sauðsfjárrækt

Bændur græða landið

Varnir gegn landbroti

Endurheimt votlendis

Hagagæði

GróLind

Lagaumhverfi

Auglýsingar

Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659

Skip to content