Gæðastýring í hrossarækt

Einn af mörgum þáttum í starfi Landgræðslu ríkisins er eftirlit með landnýtingu hrossabænda. Kerfisbundið eftirlit er þó einungis á þeim hrossabúum, sem eru virk í landnýtingarþætti gæðastýringar í hrossarækt.

Árið 2016 hlutu 40 jarðir, þar sem stunduð er hrossarækt, viðurkenningar vegna vistvænnar landnýtingar. Skipting búa eftir sýslum er eftirfarandi: Skagafjarðarsýsla 11, Rangárvallasýsla 6, Eyjafjarðarsýsla 5, Árnessýsla 4, Austur-Húnavatnssýsla 4, Vestur-Húnavatnssýsla 4, Mýrasýsla 2, Borgarfjarðarsýsla 3 og Snæfellsnessýsla 1.

Fyrstu búin hlutu viðurkenningu árið 2000 og síðan hefur gæðastýringin jafnt og þétt fest sig í sessi. Fjöldi jarða í verkefninu frá upphafi hefur verið sem hér segir: 2000 21, 2001 38, 2002 37, 2003 40, 2004 41, 2005 41, 2006 41, 2007 44, 2008 46, 2009 43, 2010 43, 2011 44, 2012 45, 2013 40, 2014 40, 2015 39 og 2016 40. Nöfn búanna sem stóðust úttekt vegna landnýtingar 2016

Samstarf við samtök hrossabænda

Fagráð í hrossarækt og Félag hrossabænda hafa gert samkomulag við Landgræðsluna um að hún annist landnýtingarþáttinn. Til að meta ástand hrossahaganna eru notaðar reglur sem byggja á sjónmati á ástandi landsins og greinanlegum gróður- og rofeinkennum, þ.e. landlæsi.

Skynsamleg landnýting bætir ímyndina

Viðurkenning á að landnýting sé þannig að ekki sé gengið á gæði landsins er hrossabændum afar mikils virði. Með gæðastýringunni hefur landlæsi og tilfinning viðkomandi bænda fyrir bættri landnotkun aukist umtalsvert. Ímynd hrossabænda sem landnotenda hefur einnig batnað mikið á seinni árum og rétt beitarstýring orðið til þess að hrossin ganga á betra landi en ella og afrakstur landsins eykst. Rétt umgengni um beitarland er nauðsynlegur þáttur í sívaxandi fagmennsku hrossaræktar og hestamennsku á Íslandi.

Fleiri taki þátt

Nú eru 17 ár síðan úttektir hófust á landnýtingu á hrossabúum. Þetta er ekki langur tími en engu að síður er full ástæða til að staldra við og skoða hvernig efla má landlæsi hrossabænda og fjölga þátttakendum í landnýtingarþættinum. Víst er, að þátttaka fleiri hrossabúa í gæðastýringunni yrði hrossabændum og búgreininni til frekari framdráttar. Frumkvöðlarnir meðal hrossabænda varðandi bætta landnýtingu þurfa á því að halda að fleiri sláist í för með þeim, sæki fram af krafti í því að fá úttekt á landnýtingu sína og viðurkenningu á því að ekki sé gengið á landsins gæði. Nú stendur yfir endurskoðun á öllu gæðastýringarkerfi hrossaræktarinnar og því má búast við að landnýtingarþátturinn muni taka breytingum á árinu 2017.

Bætt beitarmenning – en betur má

Flest bendir til að landlæsi og beitarmenning hrossabænda hafi batnað, frá því hross voru flest í landinu um 1996. Þá greindust víða alvarleg ofbeitartilfelli í hrossflestu sveitum landsins.

Árið 2013 voru hross í landinu 77.380 talsins og hafði fjölgað um 6.113 hross frá árinu 2002. Þetta er drjúg fjölgun á fáum árum og sýnir að hrossabændur þurfa að vanda skipulag á landnýtingu sinni, til að ofbeitartilfellum fjölgi ekki á ný í landinu. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist í þessum málum finnast dæmi um alvarlega ofbeit mjög víða og allir sem ráða yfir landi þyrftu að vera færir um að meta ástand þess og grípa til ráðstafana, ef beit og önnur umgengni um land er ekki með ábyrgum hætti.

Landgræðslan mun áfram vinna markvisst að bættri beitarmenningu meðal hrossabænda og væntir þess að eiga sem flesta liðsmenn í röðum þeirra við það verk.

 

Landnotendum, sem óska eftir ráðgjöf varðandi landnýtingu eða vilja gerast þátttakendur í landnýtingarþætti gæðastýringar í hrossarækt, er bent á að snúa sér til næsta héraðsfulltrúa Landgræðslu ríkisins eða verkefnisstjóra gæðastýringarinnar, Bjarna Maronssonar. Sjá upplýsingar um síma og netfang neðst á þessari síðu. 

 

Bjarni Maronsson

Bjarni Maronsson

héraðsfulltrúi

S. 488 3049 og 856 0235
bjarni@land.is

 

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?