Fylgt úr hlaði

Þrekvirki hefur verið unnið síðan landgræðsla var lögfest árið 1907. Mörgum byggðarlögum var forðað frá eyðileggingu og gróður er að ná fótfestu á stórum landsvæðum og eflast á láglendi. Íslendinga bíður þó enn risavaxið verkefni. Gróður- og jarðvegseyðing er víðtækt vandamál á Íslandi og gróður er víðast í litlu samræmi við raunveruleg gróðurskilyrði og landnýtingarþarfir þjóðarinnar.

Jarðvegsvernd er enn sem fyrr eitt brýnasta umhverfismál þjóðarinnar. Án jarðvegs er ekkert líf. Landgræðslan stóð ásamt fleirum fyrir átakinu Ár jarðvegs en Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) tileinkaði árið 2015 moldinni og mikilvægi jarðvegsverndar fyrir matvælaframleiðslu, vatnsmiðlun og loftgæði. Af gefnu tilefni því jarðvegsvernd er eitt stærsta umhverfismál samtímans . Yfir 95% af fæðu jarðarbúa koma frá moldinni en engu að síður leiðir röng meðferð á landi árlega til gríðarlegs jarðvegstaps frá landbúnaðarvistkerfum um allan heim.

Þrátt fyrir þekkingu þjóðarinnar og velmegun hættir henni enn til að nýta viðkvæm vistkerfi landsins ótæpilega og valda þeim óbætanlegum skaða. Ökumenn aka enn yfir viðkvæmt land og skera það í sundur. Til eru bændur sem beita land sem þolir það ekki. En allur meginþorri bænda er í óða önn að græða landið og standa undir merkjum um að vera vörslumenn landsins.

Gróðinn af ferðamönnum er mikill og daprar mönnum sýn. Innviðir ferðamannastaða eru veikburða og ferðamönnum er hleypt taumlaust á viðkvæm svæði og náttúruperlum ekki sinnt. Afleiðingarnar eru nær óafturkræf náttúruspjöll á vinsælustu stöðunum.

Íslensk náttúra er aðdráttaraflið. Það spyrst fljótt út ef hún fölnar og lætur á sjá vegna ágangs ferðafólks, eða ferfætlinga. Gestir okkar segja frá því þegar heim kemur ef þeir hafa þurft að vaða aur upp að ökklum eða finna ekki salerni á þekktum ferðamannastöðum.

Veikt stjórnkerfi og máttlitlar stofnanir er hluti af þeim vanda sem við blasir. Fjárveitingar hins opinbera hafa oftar en ekki verið skornar við nögl og eru ekki í nokkru samræmi við þarfir.

Málefni umhverfisins taka æ meira rými í fréttum. Greint er frá öfgum í veðurfari, breytingum á hafstraumum, meiri þurrkum, samdrætti í uppskeru og vatnsskorti á stórum svæðum og svo mætti lengi telja. Hér á landi þurfum við að búa okkur undir breytingar sem eru við sjóndeildarhring. Eitt af því sem við getum gert er að styrkja og efla stjórnsýsluna með því að sameina stofnanir sem starfa á svipuðum vettvangi. Tími hinna litlu eininga er liðinn. Áður en langt um líður verður að vera komin öflug stofnun sem annast alla náttúruvernd, rekstur þjóðgarða, friðlýstra svæða, landgræðslu og skógrækt. Þá og því aðeins verður hægt að ganga markvisst til verka og setja náttúruvernd á þann stall sem henni ber.

Neytendur eru í ríkari mæli farnir að spyrja um uppruna matvæla; aðbúnað dýra, lyfjanotkun og hvort landið sé nýtt á sjálfbæran hátt. Þessum röddum á eftir að fjölga. Gróðurvernd og sjálfbær landnýting munu stýra stórum hluta af markaðsstarfi landbúnaðarafurða þegar fram líða stundir. Neytendur framtíðarinnar munu mótmæla harkalega ef framleiðsla matvæla raskar umhverfinu. Umhverfisvernd og landbúnaður verða að tengjast sterkari böndum svo raunverulegur árangur í bættri landnýtingu náist.

Nú þegar ég fylgi ársskýrslu Landgræðslunnar í síðasta sinn úr hlaði þá er mér efst í huga að við höfum á liðnum áratugum „gengið til góðs, götuna fram eftir veg“. Þrátt fyrir að eyðimerkurvofan hafi á liðnum öldum lagt þúsundir ferkílómetra gróins lands að velli, þá hefur mikið áunnist í endurheimt landkosta, en það verður jafnframt að gæta þess vel að ekki verði gengið frekar á gæði landsins.

Íslendingar verða að sýna gott fordæmi í verndun og uppbyggingu grænu lífbelta landsins, rétt eins og auðlinda sjávar.

Við höfum siðferðilegar skyldur til að vernda og endurheimta horfin vistkerfi sem miða að því að gera landið okkar betra til búsetu fyrir þjóðina alla á 21. öldinni.

GRÆÐUM ÍSLAND

Sveinn Runólfsson,
landgræðslustjóri

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?