Ársfundur og afhending landgræðsluverðlauna

Bændurnir á Kaldbak á Rangárvöllum, þau Sigríður Heiðmundsdóttir og Viðar Steinarsson og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands hlutu Landgræðsluverðlaunin sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra afhenti á ársfundi Landgræðslunnar fyrr í dag. Verðlaunahafarnir fengu afhent Fjöregg landgræðslunnar, verðlaunagripi sem unnir eru úr tré í Eik-listiðju, í Miðhúsum við Egilsstaði.
Verðlaununum er bæði ætlað að vera viðurkenning fyrir ötult landgræðslustarf verðlaunahafanna, sem og til að hvetja fleiri til dáða. Meginrök fyrir vali á verðlaunahöfum ársins voru eftirfarandi:

Magnað landgræðslustarf á jörðinni Kaldbak á Rangárvöllum
Bændurnir á Kaldbak, þau Sigríður Heiðmundsdóttir og Viðar Steinarsson hljóta Landgræðsluverðlaun fyrir öflugt og árangursríkt uppgræðslu- og landbótastarf á jörð sinni, og fleiri svæðum á Rangárvöllum, um áratuga skeið. Svæði sem áður voru ógróinn sandur eru nú meira og minna uppgróin og ekki marga ógróna bletti að finna á jörð þeirra í dag.

Kaldbakur, Landgræðsluverðlaun

 Öflug fræðsla Landverndar um endurheimt vistkerfa og mikilvægi sjálfbærrar landnýtingar

Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands hljóta Landgræðsluverðlaun fyrir afar öflugt fræðslustarf síðustu árin tengt vernd og endurheimt vistkerfa og sjálfbærri landnýtingu. Þar má nefna verkefni eins og Grænfánann, Vistheimt með skólum, Græðum Ísland (CARE), Öndum léttar, Loftslagsvernd í verki og fræðslurit eins og skýrsluna Vörsluskylda búfjár sem kom út vorið 2021.

Landvernd, Landgræðsluverðlaun

 Ársfundur og ársskýrsla Landgræðslunnar
Yfirskrift ársfundar Landgræðslunnar var að þessu sinni „Áratugur endurheimtar vistkerfa – hvernig miðar okkar“. Sameinuðu þjóðirnar tileinka áratuginn 2021-2030 endurheimt vistkerfa, meðal annars til að draga fram hvað virk og fjölbreytt vistkerfi gegna mikilvægu hlutverki við að draga úr og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Íslendingar þurfa að taka þau skilaboð betur til sín, því þó landgræðslustarf hafi verið stundað hérlendis í um 115 ár með frábærum árangri, þá eru enn yfir 50% vistkerfa landsins í hnignuðu eða eyddu ástandi.

Tækifæri og áskoranir við endurheimt vistkerfa
Á árfundinum fóru Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur og faglegur teymisstjóri verndar og endurheimtar og Sunna Áskelsdóttir sérfræðingur í endurheimt votlendis yfir helstu tækifæri og áskoranir endurheimtar sem blasa við okkur hérlendis á áratugi endurheimtar vistkerfa. Kristín ræddi meðal annars tækifærin sem felast í endurheimt birkiskóga Íslands og Sunna fór yfir helstu niðurstöður rannsóknar á skammtímaárangri endurheimtar votlendis á tveimur stöðum hérlendis. Í máli hennar kom skýrt fram hversu miklu máli skiptir að vanda til verka við endurheimtina sjálfa svo aðgerðirnar skili væntum ávinningi. Niðurstöður rannsóknarinnar verða gefnar út í skýrslu og kynntar ítarlegar á næstunni.

Loftslagsaðgerðir þurfa að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni
Í ávarpi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra sem fylgir ársskýrslu Landgræðslunnar 2021 kom meðal annars fram að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar séu markmið um samdrátt í losun til að mæta megi skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum, meðal annars vegna landnotkunar. Hún nefndi líka að innan hennar ráðuneytis sé verið að samræma drög að landgræðsluáætlun og landsáætlunar í skógrækt og í þeirri vinnu sé lögð áhersla á að efla vernd og heilbrigði vistkerfa ásamt því að stuðla að sjálfbærri landnýtingu. Í ávarpi ráðherra kom einnig fram að leggja þurfi áherslu á að innleiða náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum sem samræmast alþjóðlegum skuldbindingum og að loftslagsaðgerðir sem stuðla að aukinni kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi þurfi samhliða að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Árið 2021 var ár mikilla breytinga og þróunar
Í ávarpi Árna Bragasonar landgræðslustjóra sem fylgir ársskýrslu Landgræðslunnar 2021 fór hann yfir starfsemi Landgræðslunnar á síðasta ári. Hann meðal annars dró þar fram fjölþætt mikilvægi verkefna stofnunarinnar hvað varðar að uppfylla loftslagsáherslur íslenskra stjórnvalda og mikilvægi þess að huga að náttúruvernd samhliða endurheimt vistkerfa. Í því samhengi minntist hann til að mynda á metnaðarfulla áætlun stjórnvalda um að auka útbreiðslu náttúruskóga, þ.e. birkiskóga og víðikjarrs á landinu úr 1,5% í 5% undir merkjum Bonn áskorunarinnar. Árni nefndi einnig að á síðasta ári skiluðu sérfræðingar Landgræðslunnar af sér drögum að nýrri reglugerð um sjálfbæra landnýtingu þar sem ástand vistkerfa landsins er lagt til grundvallar fyrir mat á nýtingargetu lands, svo sem til búfjárbeitar. Reglugerðardrögin eru í frekari vinnslu innan matvælaráðuneytisins og verða tilbúin til áframhaldandi samráðs fljótlega, og vonandi samþykktar fyrir lok ársins. Árni sagði líka frá því að aukin áhersla var lögð á nýtingu lífrænna næringarefna í landgræðsluaðgerðum á vegum Landgræðslunnar árið 2021 og það sé ánægjuleg þróun sem stofnunin sé hreykin af að leiða.

Ársskýrsla 2021

landgræðsluverðlaun 2022

Hópmynd frá vinstri – Árni Bragason landgræðslustjóri, Tryggvi Felixson formaður Landverndar, Sigríður Heiðmundsdóttir og Viðar Steinarsson frá Kaldbak á Rangárvöllum með fjórum barnabörnum, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Starfsstöðvar

Starfsfólk

Um okkur

Rafrænir reikningar

Skýrslur

Leiðbeiningar

Landupplýsingar

Landbótasjóður

Gæðastýring í sauðsfjárrækt

Bændur græða landið

Varnir gegn landbroti

Endurheimt votlendis

Hagagæði

GróLind

Lagaumhverfi

Auglýsingar

Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659

Skip to content